5.11.1995

Óvissa í öryggismálum

Morðið á Rabin, forsætisráðherra Ísraels, minnir okkur enn einu sinni á öryggisleysið í veröldinni. Þetta er ekki í fyrsta sinn, sem forystumaður í baráttu fyrir því að draga úr spennu og stuðla að sáttum fyrir botni Miðjarðarhafs, fellur fyrir hendi launmorðingja. Sadat, forseti Egyptalands, var myrtur fyrir tæplega tveimur áratugum. Ofstækismenn í hópi múslíma töldu hann hafa brugðist málstað þeirra. Að þessu sinni var það ofstopafullur gyðingur, sem drap forsætisráðherra Ísraels og hefði einnig skotið Peres, utanríkisráðherra Ísrels, hefðu þeir Rabin gengið samhliða á fjöldafundinum í Tel Aviv.

Friðarferlið fyrir botni Miðjaðarhafs er orðið svo langt, flókið og blóðugt, að enginn venjulegur maður heldur öllum þráðum í huga sér. Innan Ísraels og meðal Palestínumanna skiptast menn í margar fylkingar með og á móti. Ofstækismenn eru alls staðar til þess eins að spilla fyrir skynsamlegri niðurstöðu.

Á það er bent af sumum sérfræðingum, að átökin í Ísrael séu í raun hluti af miklu víðtækara stríði milli tveggja menningarheima. Sjá megi anga þessa stríðs í Júgóslavíu fyrrverandi, þar sem Bosníumenn séu í hlutverki múslíma í átökum við kristna. Þá séu hryðjuverkin í Frakklandi liður í þessum menningarheima-átökum, þar sem múslímar frá Alsír herji á stjórnvöld. Norður-Afríkumenn séu að færa sig upp á skaftið í Frakklandi og andúð á útlendingum magnist í landinu. Í Sovétríkjunum fyrrverandi megi víða sjá átök af svipuðum toga, þótt um leið skuli þess minnst, að söguleg markalína milli menningarheima liggi suður með vestur landamærum Rússlands. Þörf ríkjanna fyrir vestan þau fyrir að komast í Atlantshafsbandalagið (NATO) eigi rætur í ótta þeirra við spennu eða jafnvel átök, sem séu óhjákvæmileg af sögulegum ástæðum.

Þessi kenning um óhjákvæmilegt sögulegt uppgjör milli ólíkra menningarheima er umdeild. Finnar, norræna þjóðin við landamæri Rússlands, hafa síður en svo látið af varnarviðbúnaði eftir hrun Sovétríkjanna. Við vorum minnt á þessa staðreynd í Morgunblaðsgrein í síðustu viku, þar sem finnskir sérfræðingar skýrðu frá stefnu og viðhorfum í finnskum öryggismálum. Finnar hafa þrátt fyrir þröngan efnahag og tæplega 20% atvinnuleysi fest kaup á fjölda orrustuþotna af fullkomnustu gerð frá Bandaríkjunum, þeir keyptu einnig hundruð ef ekki þúsundir skriðdreka frá Austur-Þýskalandi eftir hrun Berlínarmúrsins.


Alþjóðleg glæpastarfsemi
--------------------------------------------------------------------------------

Í nýlegu yfirliti Alþjóðahermálastofnunarinnar í London (International Institute for Strategic Studies) Strategic Survey 1994/95 er athyglin dregin að nýrri ógn, sem kann að steðja að ríkjum og felst hún í starfi alþjóðlegra glæpahringa. Þar segir, að menn hafi jafnan litið á baráttu við skipulagða glæpastarfsemi sem viðfangsefni lögregluyfirvalda einstakra ríkja. Hins vegar hafi aukin samskipti ríkja, hröð þróun í samgöngu- og fjarskiptatækni, stóraukin alþjóðaviðskipti og tilkoma alþjóðlegra peningamarkaða gjörbreytt starfsumhverfi glæpaflokka. Jafnframt hafi eðli glæpanna einnig gjörbreyst.
Glæpaflokkar hafi nýtt sér hinar breyttu hnattrænu aðstæður og ógni nú þjóðum án tillits til landamæra og séu orðin ógn við alþjóðlegt öryggi. Ekki hafi ástandið batnað við þær stjórnarfarskreppur, sem einkenni ýmis ríki eða ríkjakerfi. Pólitísk upplausn valdi því ekki aðeins, að glæpaflokkar geti starfað án opinbers eftirlits heldur hafi þeir einnig ný tækifæri.

Þetta hafi hvergi komið betur í ljós en í Sovétríkjunum fyrrverandi, þar sem skipulögð glæpastarfsemi hafi þróast með þeim hætti, að ýmsir telji, að ólíklegra sé að kommúnískir stjórnarhættir þróist í átt til lýðræðis en að glæpaflokkar hafi þar undirtökin eða um verði að ræða þægindatengsl milli helstu glæpaflokka og stjórnvalda. Talið er að nú starfi 5.700 glæpaflokkar í Rússlandi og félagar í þeim séu fleiri en 100.000.

Hér vitna ég ekki frekar í þessa skýrslu. Óvissan í Rússlandi hefur ekki minnkað við veikindi Jeltsíns. Stjórnmálaflokkarnir, sem bjóða fram í þingkosningunum í desember, eru vafalaust eins og ormétnir af glæpamönnum. Lýsingar á því, að forsætisráðherra Rússlands hafi ráðið það af augnaráði Jeltsíns í sjúkrahúsinu, að ráðherranum væru falin aukin völd, eru ekki traustvekjandi. Það þarf meira en menn hnykli brýnnar í Moskvu til að menn hræðist í Rússlandi og fari að lögum.