28.10.1995

Óvænt atburðarás

Á miðvikudag fór ég til Kaupmannahafnar eftir hádegi. Þann dag var þar ráðstefna um rannsóknir og vísindi, sem boðið var til mönnum frá öllum Norðurlöndunum. Var síðan ætlunin, að norrænir ráðherrar þessara mála flyttu ræður daginn eftir og sætu fyrir svörum. Ég ákvað að fara ekki héðan fyrr en eftir hádegi á miðvikudag, enda átti ég ekki beint erindi fyrr og gat auk þess notað tímann fyrir hádegi til að veita viðtöl.(Má bæta því innan sviga, að með því að skipuleggja viðtalstímana vel og bæta við aukatímum, þegar á hefur þurft að halda, hefur mér tekist að koma í veg fyrir langan biðlista.) Rúmlega níu á miðvikudagsmorgninum var hringt í mig frá Kaupmannahöfn og sagt, að ráðstefnan ætti aðeins að standa í einn dag, ákvörðun um það hefði verið tekin kvöldið áður. Hvort ég gæti komið í tæka tíð til að taka þátt í pallborðsumræðum klukkan 17.30 þennan sama dag. Ég sagðist ekki geta breytt áætlun minni, en ráðuneytisstjóri menntamálaráðuneytisins, sem var á ráðstefnunni ásamt fleiri Íslendingum, gæti flutt ræðu mína.

Raunar var veðrið orðið svo slæmt þegar ég bjó mig til brottfarar um hádegið, að öruggara var að spyrja, hvort yrði flogið. Vélin fór á áætlun en flugvélar, sem áttu að lenda skömmu síðar urðu að snúa við til Glasgow. Ég komst í kvöldverð danska ráðherrans í tilefni ráðstefnunnar og síðan á óformlegan ráðherrafund að honum loknum. Ástæðan fyrir því, að ég hætti ekki við að fara til Kaumannahafnar var sú, að á fimmtudeginum átti ég að fara til Gautaborgar og taka þar þátt í öðrum pallborðsumræðum, að þessu sinni með menningarmálaráðherrum Norðurlandanna um tjáningarfrelsið. Áttu þær umræður að hefjast kl. 17.00 á bókamessunni miklu í Gautaborg.

Við ákváðum að nota tímann fyrir hádegi á fimmtudeginum og hittast, Íslendingarnir, sem sóttu ráðstefnuna, og ræða um stöðu okkar og stefnu í rannsóknum og vísindum. Þar frétti ég þau ótíðindi að heiman, að snjólflóð hefði fallið á Flateyri og 24 væri saknað. Á leiðinni út á flugvöll um hádegisbilið heyrðum við fréttina um snjóflóðið í danska útvarpinu. Ég ákvað að fara til Gautaborgar og ljúka erindi mínu þar. Var þó erfitt að einbeita sér að öðru, því að fréttirnar að heiman sóttu á hugann.

Að loknum pallborðsumræðunum klukkan 18.30 hafði Sigríður Snævarr sendiherra í Svíþjóð boðið til athafnar í húsakynnum bókamessunnar, þar sem hún sæmdi Bertil Falck, aðalræðismann Íslands, fálkaorðunni. Hann er fyrrverandi lögregluþjónn, sem fékk þá snjöllu hugmynd að efna til bókamessu, sem nú er einn mesti menningarviðburður á Norðurlöndunum. Íslendingarnir, sem tóku þátt í bókamessunni að þessu sinni, voru við athöfnina og einnig Margot Wallström, menningarmálaráðherra Svíþjóar. Sigríður bað í upphafi viðstadda að minnast atburðanna á Flateyri með einnar mínútu þögn.

Í Gautaborg og nágrenni búa um 1500 Íslendingar og þar er nú miðstöð aðgerða fyrir Íslendinga, sem byggjast á líffæraflutningi. Séra Jón Dalbú Hróbjartsson hefur nýlega hafið störf sem prestur í Gautaborg og þjónar auk þess í Ósló. Gautaborgarbúar hafa jafnan sýnt mikinn samhug með Íslendingum á erfiðum stundum og minnast menn enn með miklum hlýhug hvernig blaðið Göteborg Posten brást við vegna eldgossins í Vestmannaeyjum.

Um kvöldið voru hátíðartónleikar hjá Sinfóníuhljómsveitinni í Gautaborg og þess meðal annars minnst, að 60 ár eru liðin síðan tónlistarhúsið var tekið í notkun. Er það einstaklega glæsileg bygging. Við höfðum þegið boð á tónleikana. Sátum við aðeins fram að hlé, hugurinn sótti æ meira heim. Daginn eftir ætlaði ég að heimsækja íslensku sýningarbásinn og skoða meðal annars víkíngasýningu í borginni, síðan átti leiðin að liggja til Parísar, þar sem ég átti að ávarpa UNESCO-þing 30. október.

Eftir tónleikana gekk ég hins vegar í það að skipuleggja heimferð í gegnum Kaupmannahöfn strax morguninn eftir. Gekk það upp þannig að heim kom ég aftur klukkan 13.00 á föstudag. Sól skein í heiði og flugstjórinn benti okkur á Ingólfshöfða, þegar hann sást og síðan á Heklu, þar sem hann byrjaði að lækka flugið. Minnti lítið í sólkyrrðinni á óveðrið síðastliðinn miðvikudag og hinn mikla mannskaða. Á flugvellinum blöktu fánar hins vegar í hálfa stöng og hvarvetna á leiðinni. .