Kirkjuþing - borgarstjóri - borgaraleg ferming
Hinn 17. október flutti ég ræðu við upphaf Kirkjuþings í fjarveru Þorsteins Pálssonar, dóms- og kirkjumálaráðherra. Kaus ég að nota tækifærið til að ræða um sameiginleg verkefni kirkju og menntamálaráðuneytisins, en þau eru mörg. Á að vera unnt að finna ræðu mína hér á heimasíðunni, undir línunni Ræður menntamálaráðherra. Varð ég ekki var við annað en máli mínu væri vel tekið af þeim, sem sátu Kirkjuþingið og hlýddu á alla ræðuna.
Sama verður ekki sagt um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, borgarstjóra í Reykjavík, sem sat að vísu ekki Kirkjuþing, en heyrði líklega nokkrar setningar úr ræðunni eða endursögn hennar hjá Þórdísi Arnljótsdóttur, fréttamanni hljóðvarps ríkisins. Kaus Þórdís að gera það að aðalatriði í frásögn sinni af ræðunni, sem var í raun ein aukasetning í henni, að borgaryfirvöld hefðu komið að svonefndri borgaralegri fermingu, en hana taldi gegn brjóta gegn gildum kristinnar trúar og hvatti til þess, að stjórnmálamenn stæðu vörð um þau gildi.
Fréttamaður hljóðvarpsins greip til þess óvenjulega ráðs að vitna í þessa einu setningu úr ræðu minni og bera hana undir Ingibjörgu Sólrúnu, sem gafst síðan færi á að tjá sig um hana í fréttatíma. Sagði borgarstjóri, að ég hefi verið með "flokkspólitískan bægslagang" og greip síðan til umvöndunartónsins og taldi slíkt ekki eiga erindi á Kirkjuþing. Sagði borgarstjóri einnig, að borgaryfirvöld hefðu ekki gert annað varðandi hina borgaralegu fermingu en opna Ráðhúsið, sem væri öllum opið.
Auðvitað kemur borgarstjóranum í Reykjavík ekkert við, hvað ég segi á Kirkjuþingi frekar en hún er dómari um það, hvað forseti Íslands segir í Peking. Hitt er athyglisverðara, að fréttamaður hljóðvarpsins lagði sig ekki fram um að fá hið sanna fram um hlut borgaryfirvalda að hinni borgaralegu fermingu. Borgarstjóri gerði meira en að opna Ráðuhúsið, Ingibjörg Sólrún flutti siðapredikun yfir ungmennunum og lagði þeim lífsreglur, eins og hún virðist telja sig eiga að gera gagnvart öllum. Athöfnin í Ráðhúsinu bar allt yfirbragð þess, að til hennar væri stofnað með sérstökum velvilja borgarstjóra. Þetta kom ekki fram í fréttinni, né heldur hitt, að Ráðhúsið er ekki meira opið fyrir öllum en svo, að Hjálpræðisherinn fékk ekki þar inni fyrir 100 ára afmæli sitt.