1.10.1995

Á vit upplýsingabyltingarinnar

Um miðja viku sat ég fund vísinda- og tæknimálaráðherra OECD-ríkjanna í París. Þar var fjallað um stöðu vísinda- og háskólasamfélagsins á líðandi stundu. Auðvitað var sérstaklega minnst á upplýsingatæknina og þátt hennar í því að tengja saman einstaklinga og þjóðir. Staða háskóla í samfélaginu er alls staðar til umræðu og hvernig opinberum fjármunum er best varið til rannsóknar- og vísindastarfs. Er augljóst, að vandinn er hinn sami, hvort sem um stór eða smá ríki er að ræða.

Þegar gengið var inn í fundarsalinn, stóðu þar fulltrúar OECD og beindu athygli ráðherra og annarra að tveimur tölvum. Á annari gafst mönnum tækifæri að kynnast heimasíðu OECD. Eftir að mér hafði verið sýnt, hvað var á tölvunni frá OECD, sló ég inn á Ísland og fann heimasíðu mína og benti á, að við værum engir eftirbátar OECD á Íslandi! Starfsmaðurinn tók undir þá skoðun og sagðist vita, að hvergi í heimi væri aðild að netinu jafnútbreidd og á Íslandi. Sjálfum kom mér á óvart, hve fljótt og auðveldlega mér gekk að ná í síðuna mína. Þetta var að morgni dags, rétt fyrir klukkan níu að íslenskum tíma. Þá var að minnsta kosti ekki nein hindrun eða þrengsli á leiðinni til Íslands.

Sýningin í Laugardalshöllinni, Tækni & tölvur, hefur enn sýnt og sannað, hve langt við Íslendingar erum komnir í þessari nýju tækni og hve áhuginn er mikill á henni. Þegar ég fór klukkan rúmlega 10 á sunnudagsmorgni, var bílastæðum farið að fækka og salurinn orðinn fullur af gestum.

Virðist allt bera að sama brunni í þessum málum. Við Íslendingar höfum tileinkað okkur þessa tækni í ríkara mæli en aðrir. Þetta hefur gert án opinberrar stefnumótunar og sem betur fer hafa menn ekkert verið að bíða eftir henni. Á hinn bóginn er ljóst, að menn vilja hafa slíka stefnu til að styðjast við og þörf er fyrir hana í þeim greinum, þar sem reynir á nýtingu tækninnar. Með þetta í huga hef ég falið þremur starfshópum að gera tillögur um stefnumörkun á vegum menntamálaráðuneytisins: 1) varðandi ráðuneytið sjálft; 2) varðandi menntamál og 3) varðandi menningarmál.

Hér hefur þróunin orðið án opinberra fyrirmæla. Er heillavænlægra að ýtt sé við stjórnvöldum en þau setji á laggirnar nefndir til að kynna sér viðfangsefnið og leggja á ráðin um, hvernig á því skuli tekið. Sérstaklega á þetta við um tölvuþjónustu og samskipti innan skóla- og menntakerfisins fyrir tilstuðlan Ísmennts. Þar erum við veitendur en ekki þiggjendur í samskiptum við aðrar þjóðir.