24.9.1995

Frá Oz til Reykholts

Þessi tími einkennist af því hjá stjórnmálamönnum, að styttist í þingsetningu. Í ráðuneytum eru menn að velta fyrir sér frumvörpum, sem flutt verða á vegum ríkisstjórnarinnar. Einnig hefur verið unnið að svonefndri verkefnaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem er útfærsla á stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar frá því að hún var mynduð 23. apríl síðastliðinn.

Mörgu, sem snertir menntamálaráðuneytið, verður ekki breytt nema með lagasetningu. Ég hef litið á það sem forgangsmál að undirbúa frumvarp til framhaldsskólalaga, sem áður hefur verið flutt. Þá var það gert, þegar Sjálfstæðisflokkurinn var í samstarfi við Alþýðuflokkinn. Nú hafa framsóknarmenn komið í stað krata. Í sumar hefur eðlilega verið unnið að því að stilla saman strengi nýrra samstarfsflokka að því er varðar framhaldsskólafrumvarpið eins og mörg önnur mál. Tóku þau Sigríður Anna Þórðardóttir, alþingismaður og formaður menntamálanefndar Alþingis, og Hjálmar Árnason, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrv. skólameistari í Fjölbrautarskóla Suðurlands, að sér að fara yfir frumvarpið í sumar. Er skemmst frá því að segja, að eftir vinnu þeirra og ýtarlega yfirferð yfir málið af embættismönnum ráðuneytisins, sýnist mér, að niðurstaða sé fengin, sem tryggi málinu framgang innan stjórnarflokkanna. Bind ég vonir við, að málið fáist afgreitt á þingi í vetur. Óvissa um stöðu framhaldsskólans fer að bitna á starfi hans, ef hún varir of lengi.--------------------------------------------------------------------------------

Í byrjun vikunnar gafst mér tækifæri til að heimsækja fyrirtækið Oz og líta inn í þann undraheim, sem þar er að sjá. Fyrir þá, sem hafa aðgang að vefnum er óþarft að fara mörgum orðum um það, því að fyrirtækið er vel kynnt á honum. Það kom fram, að um 20.000 gestir koma í heimsókn til Oz á viku hverri, þar af 12.000 nýir. Sýnir þetta, að fyrirtækið hefur náð góðri fótfestu í heimi okkar, sem getum nýtt þessa undraverðu tækni. Þetta hefur það meðal annars gert, af því að það hefur forvitnlegra efni að bjóða en fáir eða engir aðrir. Á veraldarvefnum skipta fjarlægðir eða fámenni ekki máli heldur, hvað er í boði.
Um miðja vikuna gafst mér kostur á að kynnast þeirri vinnu, sem unnin hefur verið á vegum Námsgagnastofnunar og Rafhönnunar við að setja Íslandshandbókina á margmiðlunardisk. Var nokkrum gestum boðið að sjá afrakstur þessa brautryðjendastarfs, sem opnar Ísland með nýjum og áður óþekktum hætti.

Loks brá ég mér í gær, laugardag, upp í Borgarfjörð og í Reykholt. Þar fékk ég tækifæri til að kynnast skólastarfi undir leiðsögn nýrra stjórnenda. Margir nemenda voru í helgarfríi, en þeir, sem ég hitti létu vel af sér. Var eins og áður ánægjulegt að koma í Reykholt en höfuðerindið að þessu sinni var að taka þátt í athöfn, sem lagði grunnin að sjálfseignarstofnun um Snorrastofu. Dagurinn 23. september var valinn með tilliti til ártíðar Snorra Sturlusonar, en við hann er stofan kennd og verður hún í nýjum og glæsilegum húsakynnum, tengdum nýrri kirkju á staðnum. Hafa séra Geir Waage og heimamenn staðið vel að þeim framkvæmdum öllum.

Þegar ég lít yfir vikuna dettur mér í hug, hvort þeir, sem starfa í Oz við Snorrabraut í Reykjavík eigi á tímum nýrrar tækni eftir að halda nafni Íslands á loft með sama hætti og Snorri hefur gert með ódauðlegum ritverkum sínum. Hvort gróskan í íslenskri tölvumenningu sé jafn mikil á alþjóðlegan mælikvarða og í bókmenningunni fyrir sjö til átta öldum? Við skulum ekki útiloka neitt. Ætli þeir, sem vógu Snorra Sturluson í Reykholti 23. september 1241, hafi getað ímyndað sér, að 754 árum síðar væru menn á sama stað að leggja grunn menningarsetri í nafni hans?--------------------------------------------------------------------------------

Í viðtali, sem Helgapósturinn birti við mig nú í vikunni, kemur fram hjá blaðamanni, að honum þyki ég kannski of sjálfhverfur í þessum pistlum, af því að ég lýsi um of eigin högum og fjölskyldu minnar. Um þetta er ég ekki fær að dæma. Ég minni hins vegar á, að við köllum þetta heimasíðu og hingað geta þeir komið í heimsókn, sem vilja. Allt gefur þetta til kynna persónulegan tón, sem mér finnst sjálfsagt að slá öðru hverju. Umtalið og fyrirspurnir gefa mér til kynna, hvar draga á mörkin. Þetta er tilraunastarf af minni hálfu og kann að taka langan tíma að finna hinn rétta tón, sé hann á annað borð finnanlegur.
Þetta gefur mér tilefni til að fjalla um aðra spurningu, sem ég fékk í vikunni, þar sem vikið er að því, að ég hafi áður sagt hér, að mér þætti óþægilegt, þegar vitnað væri í öðrum miðlum í það, sem stæði hér á síðunni. Þetta átti einkum við hið persónulega efni. Eins og áður segir er þetta heimasíða, gestir koma hingað í heimsókn til mín, næstum eins og á heimili mitt eða skrifstofu. Engum er vel við, að gestir fari úr húsum þeirra og skýri frá því í blöðum eða útvarpi, sem fram kom í heimsókninni. Slíkum gestum sýnir maður ekki sama trúnað aftur. Sama tilfinning sækir á mig, þegar heimasíðan er annars vegar. Á hinn bóginn eru almennu reglurnar um netið þannig, að ég verð að sætta mig við hvers konar notkun á efninu þar.