17.9.1995

Á vit nýrrar tækni - og nokkur orð um varnarsveitir

Fimmtudaginn 14. september fór ég í sex tíma heimsókn í Ríkisútvarpið ásamt Ásdísi Höllu. aðstoðarmanni mínum, og Gunnlaugi Sævari Gunnlaugssyni, formanni útvarpsráðs. Var fróðlegt að skoða bæði sjónvarp og útvarp, húsakynni og tækni, auk þess sem gagnlegt var að hitta starfsfólk þessara stofnana, en í lok dagskrárinnar, sem stóð frá 09 til 15, áttum við klukkustundarfund með fulltrúum starfsmanna.

Hér er ekki tilefni til þess að rekja það, sem fór á milli mín og starfsmanna Ríkisútvarpsins. Mín skoðun er sú, að stöðu þessa öfluga ríkisfyrirtækis hlýtur að þurfa að skoða í ljósi þess, að keppinautar þess í fjölmiðlaheiminum eru allir að laga sig að breyttum aðstæðum með samruna, bæði hér og erlendis. Stöð 2 hefur ekki aðeins verið að endurfjármagna sig með samningi við Chase Manhattan, heldur einnig að færa sig inn í blaðaútgáfu með eignaraðild að DV. Yfirlýst markmið þeirrar fjárfestingar var að búa í haginn fyrir nýtingu á margmiðlunartækninni.

Þá er verið að koma á fót nýrri sjónvarpsstöð með þátttöku kvikmyndahúsa, tölvufyrirtækis og Morgunblaðsins. Þessi fyrirtæki eru ekki einungis að fara út í þennan rekstur til að hagnast á sjónvarpsstöð. Þau eru ekki síður að hugsa um leiðir til að halda í við þróunina innan eigin veggja, vera þátttakendur í tækni- og upplýsingabyltingunni.

Við þessar aðstæður getur ekki verið skynsamlegt fyrir Ríkisútvarpið að sitja með hendur í skauti og álíta ónauðsynlegt fyrir sig að huga að breytingum á starfsemi sinni og rekstrarformi. Ég hef ekki verið talsmaður þess, að íslenska ríkið dragi sig út úr rekstri útvarps og sjónvarps, af því að ég hef þá sannfæringu, að hlutur ríkisins sé nauðsynlegur til að halda menningarlegri reisn. Um þetta sjónarmið má vafalaust deila, sérstaklega ef eignarhald ríkisins verður til þess, að fyrirtæki staðna eða geti ekki tekið þátt í þeirri starfsemi, sem er nauðsynleg til að þróast í samræmi við kröfur tímans.

Ríkið stundar ýmsan rekstur á þeirri forsendu, að um menningarstarfsemi sé að ræða. Þar má nefna Sinfóníuhljómsveitina, Listasafn Íslands, Þjóðminjasafn og Námsgangastofnun auk Þjóðleikhúss og Listdansflokks. Starfsemi allra þessara stofnana breytist vegna nýrrar tækni og vinnubragða á upplýsingaöld. Er skynsamlegt fyrir ríkið að huga að breytingum á rekstrarformi þessara stofnana eða starfsháttum í samræmi við nýjar kröfur? Falla hugmyndir um slíkar breytingar að þörf Ríkisútvarpsins til að finna kröftum sínum nýtt viðnám við nýjar og gjörbreyttar aðstæður? Sinnir ríkiðsvaldið betur stuðningi sínum við menningu og list með því að samhæfa krafta þessara stofnana og nýta þá til að leggja fram efnivið til margmiðlunar eða annarra tækninýjunga, sem krefjast framlags frá skapandi og túlkandi listamönnum auk tæknimanna?



--------------------------------------------------------------------------------

Umræðurnar um hugmyndina um íslenskar varðsveitir halda áfram. Er greinilegt, að menn skiptast í tvær fylkingar eða fleiri vegna málsins. Ég verð var við, að ýmsir góðir stuðningsmenn mínir hafa af því áhyggjur, að með því að hreyfa málinu, hafi ég valdið mér skaða almennt og skapað trúnaðarbrest í minn garð. Við því verður ekki gert. Mér var þessi áhætta ljós. Láti maður stjórnast af því að vera allra vinur, sem ekki er hægt, er hætt við, að maður skapi sér sjálfur óbærilega lítið svigrúm. Ef málstaður er góður, er óþarft að láta undir höfuð leggjast að kynna hann.
Hér hefur dvalist undanfarna daga Sir Dudley Smith, þingmaður Íhaldsflokksins í Bretlandi og forseti þings Vestur-Evrópusambandsins (VES), þar sem þrír íslenskir þingmenn eiga nú sæti. Ég þekki Sir Dudley frá því að við störfuðum saman á þingi Evrópuráðsins og sátum þar saman í stjórn þingflokks European Democratic Union. Hann er ekki á því, að VES verði hluti af Evrópusambandinu (ESB) heldur starfi sjálfstætt áfram. Um það mál verður meðal annars tekist á ríkjaráðstefnu ESB, sem hefst á næsta ári. Á dagskrá hennar er að taka afstöðu til þess, hvort móta beri sameiginlega stefnu ESB-ríkja í utanríkis- og öryggismálum.

Þegar ég hóf máls á því fyrir nokkrum árum, að Íslendingar ættu að huga að aðild að VES, var því ákaflega illa tekið af mörgum. Vafalaust hafa einhverjir áhrifamenn látið orð falla á þann veg, að slíka vitleysu væri óþarfi að hugleiða. Hún væri ögrun við Bandaríkjamenn og kæmi aldrei til álita. Þegar tekist var á um málið á Alþingi vorið 1993, snerist stjórnarandstaðan harðar gegn VES-aukaaðild en þátttöku í Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Nú vill enginn, að þessi andstaða við aukaaðildina að VES sé rædd. Þannig er um mörg fleiri mál, sem hreyft hefur verið og snerta aukna þátttöku Íslendinga í alþjóðlegu varnarsamstarfi eða í vörnum eigin lands. Með þetta allt í huga hef ég ekki miklar áhyggjur af því, þótt nú komi fjölmargir fram og segi hugmyndina um íslenskar varðsveitir út í hött.

Athyglisvert var að heyra Sir Dudley Smith lýsa áhyggjum sínum af þeim nýju viðfangsefnum, sem blasa við stjórnvöldum allra landa, ef þau vilja tryggja borgurum sínum sem best öryggi. Það er ljóst, að mörkin milli almennrar löggæslu og verkefna, sem talin eru í höndum herafla, eru alltaf að verða óljósari, vegna þess að öryggi borgaranna er ógnað með öðrum hætti en áður. Skipulögð glæpastarfsemi færist í vöxt, hryðjuverk og alls kyns hótanir í garð lögmætra stjórnvalda. Til þess að vera trúverðug verða stjórnvöld að hafa vald til að bregðast við slíkri ógn. Á sínum tíma var talið, að íslenska ríkinu kynni að stafa hætta af ofbeldisstefnu kommúnista í landinu sjálfu. Var um þetta rætt við Bandaríkjamenn en tekið fram, að þessa þáttar öryggis síns ætluðu Íslendingar að gæta sjálfir. Þegar kommúnistar gerðu árásina á Alþingishúsið 30. mars 1949, var kallað út lið almennra borgara til að verja húsið og tókst það. Allt frá því varnarsamningurinn var gerður 1951 hefur verið ljóst, að Íslendingar ætluðu að sinna öryggisgæslu innan lands sjálfir. Spurningin er þessi: Gerum við það nægilega vel með núverandi mannafla og tækjum? Svarið við þessari spurningu fæst ekki nema við skilgreinum hættur, sem hugsanlega gætu að okkur steðjað.