4.9.1995

Ferðir til Lauga, Húsavíkur og Akureyrar

Á undanförnum dögum hef ég farið tvisvar sinnum til Lauga í Reykjadal, S-Þingeyjarsýslu. Í fyrra sinnið fimmtudaginn 31. ágúst og hið síðara sunnudaginn 3. september.

Bandalag kennara á Norðurlandi eystra bauð mér að flytja ræðu á þingi þess og Fræðsluskrifstofu NE 31. ágúst um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna. Hófst fundurinn klukkan 10 um morgunin og gátum við Ásdís Halla Bragadóttir aðstoðarmaður minn tekið flugvél til Akureyrar þennan sama morgun og síðan ekið í bílaleigubíl þaðan til Lauga. Stóð á endum, að við náðum þangað klukkan 10 og gengum í þéttsetinn sal íþróttahússins, þar sem fundarmenn stóðu og sungu Fyrr var oft í koti kátt til að hita sig upp fyrir fundarstörfin. Við Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, fluttum ræður fyrir hádegisverð. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Samtaka ísl. sveitarfélaga, átti að vera þriðji framsögumaður, en fyrir mistök kom hann ekki til þingsins þennan morgun. Var mér síðar sagt, að hann hefði flutt erindi sitt daginn eftir.

Að loknum hádegisverði sat ég fyrir svörum í starfshópi þingsins um menntamál. Í hópnum voru rúmlega hundrað manns, en hátt á þriðja hundrað sátu þingið. Spurningar snerust meðal annars um það, hvernig menntamálaráðuneytið ætlaði að sinna gæðaeftirliti með grunnskólastarfi eftir flutninginn og hvaða matsreglur myndu gilda. Um þetta hafa enn ekki verið teknar neinar ákvarðanir, en þær eru hluti af heimavinnu ráðuneytisins vegna flutningsins. Klukkan rétt fyrir 14 urðum við Ásdís Halla að yfirgefa staðinn, þar sem við höfðum lofað að vera í Framhaldsskólanum á Húsavík kl. 15.

Á leiðinni út á Húsavík gátum við litið inn í gamla bæinn að Grenjaðarstað, þannig að okkur gafst tækifæri til að bregða okkur í gervi ferðamannsins.

Guðmundur Birkir Þorkelsson skólameistari tók á móti okkur á Húsavík á slaginu 15.00. Heimsóttum við nokkrar kennslustofur, þar sem vetrarstarfið var hafið af krafti, en á Húsavík urðu þeir fyrstir framhaldsskóla til að fara af stað. Þá fengum við te og kökur á kennarastofunni, ræddum við kennara, tókum síðan þátt í busavígslu, skoðuðum skólahúsið hátt og lágt og sátum síðan fund með skólanefnd. Var klukkan rúmlega 18.00 þegar við kvöddum og héldum út á flugvöll, þar sem við skildum við bílinn og tókum vél Flugfélags Norðurlands suður, en í Reykjavík lentum við rúmlega 20.00

Skoðunarferðin um Framhaldsskóla Húsavíkur var fróðleg og ánægjuleg. Þar eins og á þingi grunnskólakennaranna eru menn með hugann við umræður um aukna samkeppni í skólastarfi og upplýsingamiðlun. Hvaða mælikvarða á að nota? Á aðeins að miða við árangur í prófum? Einnig var rætt um stöðu skólans og aðgang nemenda að framhaldsskólum.

Það sannaðist enn frekar í seinni ferð minni til Lauga, að ekkert jafnast á við slíkar heimsóknir til að átta sig á stöðu skólastofnana frekar en annars, sem maður þekkir ekki af eigin raun. Við Rut héldum fljúgandi norður á Akureyri síðdegis laugardaginn 2. september. Fór vélin í loftið kl. 14.30 en kl. 14.00 setti ég Friðriksmótið í Þjóðarbókhlöðunni (ávarpið birti ég annars staðar á heimasíðunni) og lék fyrsta leik fyrir Friðrik Ólafsson. Hafði ég áhyggjur af því, að geta ekki staðið við loforð um að gera það vegnar Akureyrarflugsins. Allt gekk þetta þó upp og gátum við verið við opnun þriggja listsýninga í Listagili kl. 16.00. Rut lék síðan í Marienvesper eftir Monteverdi í Akureyrarkirkju um kvöldið. Síðan gistum við á Hótel KEA.

Sunnudagurinn 3. sept. var einstaklega fagur og notuðum við morguninn til að heimsækja Nonnahús og Lystigarðinn. Upp úr hádeginu héldum við frá Akureyri af stað til Lauga. Lögðum lykkju á leið okkar út í Grenivík en rétt fyrir 16.00 lagði ég bílaleigubíl aftur við íþróttahús Laugaskóla. Þar var að hefjast skólasetning, sem var með meiri hátíðarbrag en ella, vegna þess að 70 ár eru liðin síðan samfellt skólastarf hófst á Laugum. Flutti ég ávarp af þessu tilefni (birtist annars staðar á heimasíðunni). Það sem gerði þessa athöfn meðal annars eftirminnilega var, að kínversk kona, sem gengið hefur í hjúskap þarna í sveitinni og kennir þar tónlist, söng íslensk ættjarðarlög af mikilli innlifun. Er erfitt að ímynda sér, að stofendur skólans hefðu séð slíkan atburð fyrir sér, þegar þeir ýttu úr vör.

Okkur var síðan boðið til kaffisamsætis og þá gekk Hjalti Jón Sveinsson skólameistari með okkur um húsakynni skólans og sýndi okkur þau. Klukkan var langt gengin í 19.00 þegar við héldum frá Laugum og frá Akureyri flugum við rúmlega 22.00

Frá Laugum hafa mér borist tilmæli eins og Húsavík um að gerð verði úttekt á stöðu skólans. Ég hef fullan hug á því að verða við þessum tilmælum. Við fyrstu sín kann mönnum að virðast undarlegt og óþarft, að tveir framhaldsskólar séu starfandi svo nálægt hvor öðrum á þessum slóðum. Staðreynd er hins vegar, að skólarnir keppa ekki um nemendur. Húsavíkurskólinn fær sína nemendur úr bænum og byggðinni næst honum. Til Lauga koma nemendur alls staðar af landinu en Reykdælir sækja gjarnan til Akureyrar! Ég er þeirrar skoðunar, að það þjóni nauðsynlegri fjölbreytni í skólastarfi, að Laugaskóli starfi áfram. Á hinn bóginn þarf að skilgreina betur sess skólans auk þess sem æskilegt væri, að Þingeyingar tækju höndum saman um báða skólana.

Þegar skóla- og félagsstarf fer á fulla ferð fjölgar óskum um að ég komi og flytji ræður við ýmis tækifæri. Auk þeirra þriggja, sem nefndar hafa verið hér að framan, vil ég einnig nefna ávarp á 50 ára afmæli Gideonfélagsins á Íslandi. Afmælisins var minnst með hátíðarfundi í húsi KFUMog KFUK við Holtaveg að kvöldi 30. ágúst. Þetta ávarp verður einnig unnt að lesa á heimasíðunni. Stundum dettur mér í hug, að menn telji ráðherra ekki koma á mannamót nema þeir séu beðnir um að flytja ræður. - Vill ekki ráðherrann segja nokkur orð, er gjarnan sagt. Hafi ég ekki verið beðinn um það fyrirfram, svara ég á þann veg, að helst kjósi ég að fá að hlusta á aðra. Raunar hef ég aldrei haft sérstaka þörf fyrir að troða upp á mannamótum eða talið mig í hópi ræðumanna, þannig að það er nýmæli að taka til máls við jafnmörg tækifæri og ég hef reynt á undanförnum mánuðum.