27.8.1995

Vinir í heimsókn - fjárlagaraunir

Undanfarið hafa dvalist hjá okkur góðir vinir frá Englandi: Kenneth East, sem var sendiherra Breta hér á áttunda áratugnum (1975 til 1981), þegar síðasta þorskastríðið var háð vegna útfærslunnar í 200 mílur, og dóttir hans Helen, sem eru story-teller eða sagnakona. Kenneth hefur haldið góðu sambandi við fjölskyldu mína allt frá því að hann fór héðan fyrir fjórtán árum, þegar hann hætti einnig störfum í utanríkisþjónustunni fyrir aldurs sakir. Við kynntumst vegna þorskastríðsins, en ég starfaði í forsætisráðuneytinu sem skrifstofustjóri, þegar hann kom hingað. Ræddum við þá oft mörg viðkvæm málefni og vorum meðal annars saman úti í London í ársbyrjun 1976, þegar Geir Hallgrímsson fór þangað í því skyni að reyna að semja við Harold Wilson, forsætisráðherra Breta. Ekki náðust samningar á þeim fundum og fór svo, að stjórnmálasambandi landanna var slitið og Kenneth vísað úr landi. Minnist ég þess, að daginn áður en hann hélt utan buðum við Rut honum í kvöldverð á heimili okkar. Þótti honum vænt um það, því að hann tók það nærri sér, hve samskipti ríkisstjórnanna voru slæm á þessum árum og efa ég ekki, að hann átti ríkan þátt í sinnaskiptum Breta, sem leiddu til samninganna í Ósló vorið 1976. Eftir að þeir náðust kom hann aftur og fórum við í margar ánægjulegar gönguferðir á fjöll hér í nágrenni Reykjavíkur á þeim árum, sem síðan fóru í hönd. Var hann óþreytandi við að fá mig með sér í slíkar ferðir. Hann eignaðist marga góða vini hér og hefur komið hingað nokkrum sinnum síðan 1981 og þá búið hjá okkur. Er hann mjög duglegur við að rækta samband við vini sína og kunningja hér, sem taka honum fagnandi, enda er hann hvers manns hugljúfi. Hann á fimm börn og Helen, sem nú var með honum, var meðal annars að kynna sér íslenskar huldusögur til að bæta í sagnasafn sitt. Eins og áður segir er hún story-teller að sagnakona. Vinsældir sagnafólks eru vaxandi í Bretlandi og ferðast það um og segir sögur og ævintýri.

Vegna skyldustarfa gat ég ekki sinnt þessum gestum eins mikið og ég hefði kosið. Meðan þau dvöldust hér þurfti ég meðal annars að vera einn dag á Akureyri og Sauðárkróki til að flytja ræður. Var ánægjulegt að koma í Verkmenntaskólann á Akureyri, sem er í einu glæsilegasta skólahúsi landsins. Hitt var ekki síður gleðilegt að koma í hið nýja bóknámshús fjölbrautarskólans á Sauðárkróki. Smíði þess er ekki fulllokið en allt er þar með miklum glæsibrag. Sérstaka athygli vekur í báðum þessum skólum, að þar fara nemendur úr útiskóm, áður en þeir fara inn á ganga eða stofur. Er hreinlæti því mjög mikið og ekki sést neitt á gólfefni. Þótti mér umgengni og yfirbragð þarna nokkuð annað en í sumum gömlu skólunum hér í Reykjavík. Þar hef ég stundum orðið undrandi, ef ég komið í kennslustundir til að láta ljós mitt skína, að svo virðist sem nemendur fari ekki einu sinni úr yfirhöfnum sínum utan skólastofu hvað þá heldur skóm. Einnig sýnist mér, að nemendur hafi leyfi til að drekka eða matast á meðan kennsla fer fram. Í viðræðum við Kenneth bar meðal annars á góma, að í sumum skólum að minnsta kosti tíðkast ekki, að kennarar bjóði góðan dag eða kasti kveðju á nemendur í upphafi kennslustundar. Er þetta ekki uppeldisatriði? Erlendis þykir hinn mesti dónaskapur að bjóða manni ekki góðan dag eða taka undir kveðju hans. Útlendingum, sem hitta hóp íslenskra ungmenna, bregður oft vegna kuldalegrar framkomu, þegar kveðju þeirra er fálega tekið.

Í dag, sunnudag, gat ég ekki fylgt þeim út á flugvöll við brottför þeirra, þar sem ríkisstjórnin var á fundi frá klukkan 9 f.h. fram undir kl. 14.00. Var jafnvel búist við, að fundurinn yrði lengri, því að fjárlagagerðin var til umræðu. Verður erfitt að ná endum saman í einstökum ráðuneytum í samræmi við hið sameiginlega markmið ríkisstjórnarinnar, að hallinn verði ekki meiri en 4 milljarðar króna á næsta ári og þurrkist út árið 1997. Menntamálaráðuneytið er gjarnan kallað útgjaldaráðuneyti en ég hef viljað breyta því og fá menn til að viðurkenna menntun sem fjárfestingu en ekki eyðslu eða útgjöld. Raunar er ég þeirrar skoðunar, að menntamálaráðuneytið sé stærsta atvinnumálaráðuneytið. Besta fjárfesting okkar um þessar mundir sé í menntun, rannsóknum og vísindum. Þessi skoðun mætir að sjálfsögðu skilningi víða, en hann má sín lítils andspænis hinum hörðu gildum efnahags- og fjármála. Einnig er til þess að líta, að hér á landi eins og annars staðar á það ekki að vera stjórnmálamönnum kappsmál að spenna bogann til hins ýtrasta í útgjöldum. Frekar ættu þeir að fá viðurkenningu fyrir að stíga á bremsurnar. Ekki er víst, að félagar mínir líti þannig á, að til þessa hafi ég verið á bremsunum í umræðum um hlut menntamálaráðuneytisins. Þegar að því kemur að loka dæminu, verð ég auðvitað að hægja á ferðinni eins og hinir til að lenda ekki í ógöngum.