13.8.1995

Rúmlega vikufrí í Frakklandi

Við Rut fórum í rúmlega vikufrí til Frakklands um mánaðamótin júlí/ágúst. Komum heim á frídegi verslunarmanna 7. ágúst. Fórum við í franska sveitasælu í hjarta Frakklands nokkru fyrir sunnan borgina Limoges i Corréze-héraði, en þar var þingkjördæmi Jacques Chiracs, nýkjörins forseta Frakklands, samtímis því sem hann var borgarstjóri í París. Finnist mönnum nóg um miðstýringu í íslensku stjórnmálalífi, má benda á Frakkland henni til afsökunar. Þar eru menn þingmenn, borgarstjórar og ráðherrar samtímis auk þess sem ráðamennirnir koma flestir úr sömu skólunum og hafa fikrað sig upp hinn pólitíska metorðastiga innan kerfis, sem er í senn lokað og fjarlægt hinum almenna borgara.

Við fórum ekkert inn í París, heldur tókum bílaleigubíl á Orly-flugvelli og héldum beint suður á bóginn. Í fyrsta litla bænum þar sem við stöðvuðum rákumst við á tímarit með flennistórri mynd frá Íslandi á kápunni. Við keyptum tímaritið, sem heitir GEO og er sambærilegt í franska menningarheiminum við National Geographic í hinum enska. Eru Íslandi gerð ótrúlega góð skil í þessu blaði. Ef greinar, myndir og kynning af því tagi, sem þarna er að finna, hefur einhver áhrif á ákvarðanir ferðamanna, er enginn vafi á því, að frönsku mælandi ferðamönnum á eftir að fjölga hér. Raunar voru Flugleiðavélarnar út og heim troðfullar af Frökkum, þannig að þeir virðast nú þegar koma hingað í stórum hópum.

Þetta var ekki í fyrsta sinn, sem við fórum í frí á þessar slóðir. Við vissum því að hverju við gengum og vorum sammála um það á heimleiðinni, að betri hvíld hefðum við ekki getað fundið fjarri ys og þys hins daglega amsturs, hvorki dagblöð né sjónvarp. Ég hlustaði aðeins á vasaútvarpið mitt í nokkrar mínútur á hverjum degi.

Áður en ég fór hafði ég spurt hjá Pósti og síma, tvisvar frekar en einu sinni, hvort það þýddi að nota íslenskan GSM-síma í Frakklandi. Svörin voru nei, en þó óljós, kannski yrði það hægt í sömu viku og við yrðum þar, það færi eftir sumarleyfum! Ég stakk símanum í töskuna og viti menn, þegar ég kveikti á honum komu inn stafirnir FT fyrir France Telecom og ég gat hringt heim, þar sem ég stóð undir plómutrjánum úti í sveitakyrrðinni - símtölin urðu sárafá.

Veðrið var yndislegt allan tímann, sól og hiti. Síðustu sólarhringana kom þó banvænt þrumuveður, því að eldingu laust niður í þrjár hjólreiðastúlkur, sem höfðu leitað skjóls undir tré með reiðskjóta sína og týndu þar lífi sínu. Minnumst þess, að séum við utan dyra í slíku veðri er best að leggjast flatur á bersvæði og bíða þess að veðrið gangi yfir.