23.7.1995

Farið um Þingvöll

Þótt mál hefðu farið á þann veg, að ég tæki við starfi menntamálaráðherra, var jafnframt ákveðið af þingflokki sjálfstæðismanna, að ég héldi áfram störfum í Þingvallanefnd. Þingmennirnir Össur Skarphéðinsson, Alþýðuflokki, og Guðni Ágústsson, Framsóknarflokki, völdust einnig til setu í nefndinni. Var ég einróma endurkjörinn formaður hennar á fyrsta fundi. Við fórum síðan í kynnisferð um þjóðgarðinn á Þingvöllum 18. júlí með Sigurði Oddssyni, sem er framkvæmdastjóri Þingvallanefndar. Hann stjórnar framkvæmdum og annast mannahald og fjármál nefndarinnar. Sr. Hanna María Pétursdóttir er sóknarprestur á Þingvöllum og þjóðgarðsvörður. Þar til Sigurður var ráðinn nú í vor, féll verksvið hans einnig undir þjóðgarðsvörð. Fyrrverandi Þingvallanefnd samdi hins vegar um nýjan starfssamning við sr. Hönnu Maríu og í starfi þjóðgarðsvarðar felst nú að sinna fræðslu á Þingvöllum og sérstök umsjá með þinghelginni. Sr. Sigurður Árni Þórðarson, eiginmaður Hönnu Maríu, var einnig starfsmaður Þingvallanefndar. Hann lætur nú af störfum fyrir nefndina og hefur sótt um starf á Biskupsstofu.

Í ferð okkar Þingvallanefndarmanna um þjóðgarðinn var rætt um stefnu næstu fjögurra ára. Er að mörgu að hyggja á þessum merka stað. Einnig þarf að huga að lögum um þjóðgarðinn, sem eru síðan 1928 og ekki í takt við þá stjórnsýsluhætti, sem nú tíðkast. Munum við vinna að endurskoðun þeirra. Þingvelli þarf að varðveita og vernda en jafnframt auðvelda sem flestum að njóta þjóðgarðsins. Áform eru um að merkja allt betur og setja upp skilti með upplýsingum fyrir ferðamenn, jafnt innlenda sem erlenda. Það er ekki aðeins sagan, sem gefur staðnum gildi, heldur hin einstaka náttúra hans.