Þrír útvarpsþættir
Verkefnin í starfi mínu eru fjölbreytt. Viðmælendurnir mjög margir og þarf að halda vel á spöðunum til að biðlisti eftir viðtali verði ekki of langur. Hitt er ekki síður mikilvægt og fróðlegt að reyna að heimsækja sem flestar þeirra stofnana, sem starfa á vegum eða í tengslum við menntamálaráðuneytið. Hef ég komist til að fara í eina eða tvær á viku.
Í síðustu viku fór ég að Keldum og kynntist rannsóknarstarfseminni þar og í Listasafn Íslands.
Laugardaginn 22. júlí fór ég til Víkur í Mýrdal til að taka þátt í útvarpsþættinum Helgi í héraði og ræða við heimamenn um skóla- og menningarmál auk þess sem ég leit inn hjá kunningja mínum í sumarbústað í Reynishverfi. Veðrið var einstaklega bjart og fagurt.
Sunnudaginn 23. júlí fórum við Rut á Skálholtshátíðina, sem hófst með messu kl. 11, klukkan 13.30 voru tónleikar og kl. 16.00 fyrirlestrar um Pál biskup Jónsson. Þetta var ánægjulegur og fróðlegur dagur.
Páll Heiðar Jónsson útvarpsmaður hringdi inn á símsvarann um síðustu helgi. Erindið var að biðja mig að vera í þætti sínum Hin dýra list í dag, 23. júlí. Gat ég ekki neitað honum um það, enda höfum við lengi setið saman í stjórn Samtaka um vestræna samvinnu, auk þess sem Páll Heiðar er frá Vík. Nokkur síðkvöld sat ég og valdi tónlist í þáttinn. Var notalegt að fá þetta tækifæri til að endurnýja kynni við þau verk, sem mér eru kær. Þátturinn var tekinn upp að morgni fimmtudags.
Þegar ég var í hugrenningum um tónlistina í útvarpshúsinu við Efstaleiti, kom fréttamaður og vildi ræða framtíð NATO. Settist hann í stól Páls Heiðars og spurði mig um NATO fyrir Fréttaauka á laugardögum, sem ég heyrði ekki, því að ég var í Vík.
Af þessu má ráða, að ég hafi verið í þremur ólíkum þáttum á Rás 1 laugardag og sunnudag 22. og 23. júlí. Ef einhverjir halda, að ég hafi verið að misnota aðstöðu mína sem menntamálaráðherra, er það hinn mesti misskilningur. Hins vegar hlýtur brátt að draga að því, að ég hafi lokið því af að verða gestur í öllum fastaþáttum útvarpsins, því að á dögunum var ég meira að segja fenginn til að segja frá bók, sem ég hefði nýlega lesið.