16.7.1995

Víða tölvuvinir

Víða þar sem ég kem, hitti ég þá, sem hafa verið í sambandi við mig í gegnum tölvuna. Kom þetta í hugann, þegar ég velti atburðum síðustu viku fyrir mér.

Í Varðarferð austur í Hjörleifshöfða laugardaginn 15. júlí kom maður að máli við mig, sem sagðist hafa sent mér tölvupóst. Í heimsókn í Stöð 2 fimmtudaginn 13. júlí fékk ég tækifæri til að hitta einn starfsmanna þar, sem ég þekkti ekki í sjón en við höfðum skipst á fleiri en einu bréfi. Á frumsýningu í Borgarleikhúsinu að kvöldi 14. júlí hitti ég tölvumann, sem hafði hjálpað mér í vandræðum mínum hér heima fyrir, en hann vann við að setja upp sýninguna á Jesús Kristi Superstar.

Æ fleiri senda mér bréf til að spyrja um eitthvað eða leita eftir viðtalstíma. Formleg erindi til mín sem ráðherra eða í menntamálaráðuneytið verða hins vegar að berast eftir formlegum leiðum og fara í skjalasafn til þess, að þeim sé sinnt á þann veg, sem ber.

Ég var hins vegar einnig minntur á það, að efni hér á veraldarvefnum á tæplega heima annars staðar, þótt auðvitað eigi ekki að hindra neinn í að nota það með þeim hætti, sem viðkomandi sýnist. Höfundarrétt hljóta menn þó að virða og spurning, hvort ekki beri að greiða fyrir það efni, sem tekið er til handargagns annars staðar. Í málgagni Alþýðubandalagsins, Vikublaðinu, sem aðeins er gefið úr fyrir innvígða og þá, sem fá blöð á kostnað ríkisins eins og þingmenn, voru birtar nokkrar glefsur úr því, sem hefur birst í þessum pistlum mínum. Þá mun Stefán Jón Hafstein hafa lesið í sunnudagsþætti á Bylgjunni það, sem ég sagði á dögunum um hátíðarhöldin 17. júní.

Áminningin, sem ég fékk, fólst í því, að kunningi minn sagðist hafa hitt mann, sem þótti nóg um, hvað ég hleypti almenningi nærri mér með upplýsingum um einkalíf mitt. Ég kom fyrst af fjöllunum, því að ég minntist þess ekki að hafa verið að flíka þeim á nokkurn hátt. Síðan rann upp fyrir mér það ljós, að auðvitað hefði verið átt við það, sem stæði hér á vefnum og af minni hálfu er aðeins skrifað fyrir þá, sem koma sérstaklega í heimsókn til mín.