Farið víða
Fimmtudaginn 29. júní fór ég með Árna Johnsen, formanni bygginganefndar Þjóðleikhússins, í kynnisferð um húsið. Var Guðrún Guðmundsóttir, framkvæmdastjóri Þjóðleikhússins, leiðsögumaður okkar í fjarveru Stefáns Baldurssonar leikhússtjóra. Fórum við bæði um Íþróttahús Jóns Þorsteinssonar, sem Þjóðleikhúsið hefur á leigu (þar er Litla sviðið) og Þjóðleikhúsið sjálft. Vorum við tvo tíma í leiðangrinum.
Verið var að æfa Kardemommubæinn og verk, sem sett verður upp á Litla sviðinu. Á stóra sviðinu var verið að hanna ljósastillingar fyrir nýtt leikrit eftir Ólaf Hauk Símonarson. Í Smíðastofunni fræddumst við hið sérstaka andrúmsloft, sem skapast þar.
Enn þarf að verja stórfé til Þjóðleikhússins til koma aðstöðu þar í viðunandi horf. Ekkert hefur verið gert til að bæta aðbúnað leikara og aðstaða í mötuneyti er afar bágborin. Þá þarf að tæknivæða húsið og gera starfsmönnum kleift að nýta til fullnustu tæknina, sem þegar er fyrir hendi í húsinu.
Alþingishús
--------------------------------------------------------------------------------
Þess var minnst laugardaginn 1. júlí, að 150 ár voru liðin frá endurreisn Alþingis. Af því tilefni var þingmönnum stefnt í Alþingishúsið milli kl. 12 og 16 til að taka á móti gestum í opnum þinghúsi. Ég var kominn á staðinn rétt fyrir 12 og á slaginu tóku gestir að ganga í húsið.
Er ljóst, að þeir, sem koma í þinghúsið, bera mikla virðingu fyrir því, hvað sem líður álitinu á okkur þingmönnum. Flestir verða undrandi, þegar þeir koma inn í þingsalinn, yfir því, hve lítlill hann er. Raunar gera menn sér almennt ekki grein fyrir því, að Alþingishúsið er ekki lengur annað er fundarstaður þingheims alls annars vegar og fjögurra þingflokka hins vegar. Allt annað starf þingmanna og fundir þingnefnda eru utan þinghússins í sjálfs.
Mér finnst ánægjulegt að fara með fólk um þinghúsið og sýna því, hvað þar er að finna. Yfir húsinu er sérstakur blær, sem hefur góð áhrif á gesti.
Skálholt
--------------------------------------------------------------------------------
Ég gat ekki verið lengi þennan laugardag í þinghúsinu, því að mér hafði verið boðið að koma í Skálholt síðdegis, þar sem þess var minnst, að 20 ár eru liðin síðan Helga Ingólfsdóttir semballeikari hóf að halda þar Sumartónleikana svonefndu, sem nú hafa áunnið sér traustan sess, virðingu og vinsældir.
Var fjölmenni í Skálholtskirkju þetta síðdegi, þar sem Hljómeyki frumlutti meðal annars nýtt verk eftir Jón Nordal, Requiem.
Laugarvatn
--------------------------------------------------------------------------------
Á milli tónleika í Skálholti skruppum við Rut kona mín, sem lék á barokkfiðlu á einum tónleikanna þennan laugaradag, að Laugarvatni og skoðuðum listsýningu, sem nefndist Gullkistan.
Þar var um auðugan garð að gresja enda meira en 100 myndlistarmenn, sem áttu verk á sýningunni. Ber þetta framtak vott um mikinn áhuga og dugnað, eins og svo víða setur svip sinn á íslenskt listalíf um þessar mundir.
Seyðisfjörður
--------------------------------------------------------------------------------
Sunnudaginn 2. júlí héldum við öll fjölskyldan í Háuhlíð 14 klukkan 7.45 flugleiðis í átt til Seyðisfjarðar til að taka þátt í 100 ára afmæli kaupstaðarins.
Fórum við þar um með Arnbjörgu Sveinsdóttur, alþingismanni og formanni menningarmálanefndar bæjarins, og Garðari Rúnari Sigurgeirssyni, eigimanni hennar, um bæinn og skoðuðum hinar fjölbreyttu listsýningar, sem þar eru. Einnig sóttum við hátíðarmessu og tókum þátt í hátíðarhöldum á hinu nýja glæsilega torgi bæjarins, sem hannað er af Þóru Guðmundsdóttur arkitekt. Hún býr á Seyðisfirði og rekur þar Farfuglaheimilið með syni sínum Dýra. Í frístsundum hefur Þóra ritað Húsasögu Seyðisfjarðarkaupstaðar, sem kom út í tilefni af afmælinu, hina glæsilegustu bók.
Var eftirminninlegt að fara um Seyðisfjörð á þessum fagra og hlýja sumardegi og kynnast mann- og listalífinu. Er fjölbreytnin mikil og margt, sem kemur skemmtilega á óvart. Þá er einnig gleðilegt að verða var við það, að áhugi Seyðfirðinga á varðveislu gamalla húsa hefur skotið rótum og á vonandi eftir að vaxa. Þar eru mörg virðuleg og sérstök hús, sem alls ekki mega hverfa. Í tilefni afmælisins gaf ríkisstjórnin bænum 1,5 millj. kr. til verndar gömlum húsum.