18.6.1995

Hátíðir í Barcelona og Bonn

Nokkuð er liðið síðan ég settist síðast niður og skrifaði fréttapistil á þessa síðu, því að síðasti pistill er dagsettur sunnudaginn 28. maí og nú er kominn sunnudagir 18. júní. Ástæðan er fyrir drættinum er einfaldlega sú, að sunnudagana 4. júní og 11. júní var ég í burtu.

Fyrri helgina, það er um hvítasunnuna, var ég á heimleið frá Barcelona. Við Rut fórum þangað fimmtudaginn 1. júní til að taka þátt í hátíðarhöldum daginn eftir, þegar þar hófust norrænir menningardagar, sem fyrr hafði verið efnt til í Madrid. Í tengslum við þessa daga hafði ég þá ánægju að opna í hádeginu föstudaginn 2. júní málverkasýningu eftir Magnús Kjartansson í Barcelona. Sýningin er þar í félagsmiðstöð í einu hverfa borgarinnar. Húsið er gömul verksmiðja og frægt um allan Spán vegna þess að þar skipulögðu sósíalistar andstöðu sína við Franco á sínum tíma. Myndirnar eftir Magnús sýna túlkun hans á píslarsögunni og eru mjög áhrifamiklar.

Síðdegis þennan sama dag var opnuð sýning um norræna aldamótamálara eins og þeir eru nefndir. Hefur hún farið víða og er mjög falleg. Verður þessi sýning opnuð í Listasafni Íslands 10. ágúst nk. Þar er meðal íslenskra mynda gullfallegt Reykjavíkurmálverk eftir Þórarin B. Þorláksson í eigu Sverris vinar míns Þórðarsonar, fyrrv. blaðamanns á Morgunblaðinu. Önnur íslensk málverk eru í eign Listasafns Íslands.

Að kvöldi 2. júní var efnt til norrænna tónleika í tónlistarhúsi Barcelona, sem er gömul en þó ný bygging. Þar söng Rannveig Braga íslensk lög og fórum við og fögnuðum henni baksviðs að tónleikum loknum með sendiherrahjónunum Guðnýju Aðalsteinsdóttur og Sverri Hauki Gunnlaugssyni, en þau eru búsett í París.

Laugardaginn 3. júní fórum við á Íslandstorgið í Barcelona. Þar er gosbrunnur eins og sá sem gýs reglulega eins og hver í Perlunni, er tækjabúnaður í hann smíðaður hér á landi. Þar eru einnig stórar járnplötur, sem eiga líklega að vera fjöll og milli þeirra eru fossar, sem bera íslensk nöfn. Torgið er á mörkum tveggja borgarhluta og vegna þess að hvorugur taldi húsin á mörkunum tilheyra sér voru þau komin í niðurníðslu. Íbúarnir vildu torg og einnig að á því yrði goshver eða geysir. Datt mönnum þá það snjallræði í hug, að skemmtilegt væri að kenna það við Ísland. Fór fram samkeppni um gerð torgsins og þegar það var formlega vígt af forseta Íslands í byrjun apríl 1995, var múgur og margmenni á torginu. Nú er þarna vinalegur reitur og telja forráðamenn borgarhlutans, að fasteignir hækki snarlega í verði við torgið, enda var verið að endurbyggja húsin við það. Ég spurði, hvort algengt væri að kenna torg í Barcelona við lönd. Svarið var, að svo væri alls ekki.

Barcelona er fögur borg, þar sem skammt er milli sjávar og fjalllendis. Við bjuggum á hóteli við Olympíuþorpið frá 1992, en vegna leikanna tók borgin stakkaskiptum og er umferð um hana mjög þægileg. Eftir að hafa skoðað stærstu kirkjuna og meðal annars gengið á þaki hennar og upp í turninn, fórum við í Míró-safnið, þar sem nýr heimur opnaðist, eins og ætíð þegar gengið er um söfn í fylgd þeirra, sem kunna að skýra verkin. Áður en við héldum heim síðdegis sunnudaginn 4. júní fórum við í hvítasunnumessu í hálfsmíðuðu Gaudi-kirkjunni í miðborg Barcelona. Ekki var það til að draga úr aðdáun okkar á borginni að skoða það míkla og sérkennilega mannvirki. Síðast en ekki síst var gestrisni íslenska aðalræðismannsins og ræðismannsins okkur til gleði í þessari stuttu ferð.

Meðal þeirra sem ég hitti var Pujol, forsætisráðherra Katalóníu, sem vill styrkja menningarlegt sjálfstæði Katalóníu, þótt ekki vilji hann stíga skerfið til fulls póltískt og krefjast algjörrar sjálfstjórnar. Hann er valdamikill á Spáni, því að Gonzales, forsætisráðherra í Madrid, styðst við Katalóníumenn á spænska þinginu, þar sem hann hefur ekki meirihluta án þeirra. Pujol er áhugamaður um norræna menningu og vel að sér.

Bonn

Hafi verið vel á móti okkur tekið í Barcelona var það ekki síður gert í Bonn. Áður en ég tók við ráðherrastörfum hafði Rut verið beðin að koma fram á íslensku menningarhátíðinni í Nordrhein Westfalen, þar sem um meira en 60 íslenska listviðburði er að ræða í ýmsum borgum fram til 1. september. Var rætt um að hún léki einleik á fiðlu við upphaf menningarhátíðarinnar í Bonn 13. júní en þar hafði verið gert ráð fyrir að menntamálaráðherra Íslands flytti ræðu. Lá því beint við, að við hjónin yrðum saman í Bonn þessa daga og kæmum fram við sama tækifæri. Ekki dró það úr ánægju okkar að fá tækifæri til að hitta vini okkar sendiherrahjónin í Bonn, Valgerði Valsdóttur og Ingimund Sigfússon, sem við höfðum ekki séð í marga mánuði. Bjuggum við heima hjá þeim, þar sem þau hafa komið sér fallega fyrir með búslóð sína í hinum glæsilega sendiherrabústað í Bad Godesberg, útborg Bonn.

Hér ætla ég ekki að fara mörgum orðum um hinar glæislegu móttökur í Bonn og Köln, þar sem mér gafst tækifæri til að ræða við borgaryfirvöld um menningar- og stjórnmál. Einnig hitti ég forráðamenn menningarmála í öðrum borgum, sem taka þátt í þessari miklu hátíð. Þá ræddi ég við menntamálaráðherra Nordrhein Westfalen, en sambandslöndin fara með menningar- og menntamál og finnst því gott að nota þann málaflokk til að efla samskipti sín út á við. Finnst mér við eiga að notfæra okkur þetta vel í samskiptum við Þýskaland, þar sem áhugi á íslenskri menningu er mikill og einlægur.

Í Köln hitti ég dr. Max Adenauer, son Konrads kanslara, en Max er nú á níræðisaldri mjög ern og minnugur. Hann hefur í rúm 30 ár verið í forystu Íslandsvina í Köln og er ræðismaður Íslands þar. Hingað hefur hann komið oft og ætlar að koma enn á ný í sumar með fjórar dætur sínar og barnabörn. Hann var borgarstjóri stjórnsýslu og verklegra framkvæmda í Köln. Hafði ég gaman að hitta hann, því að hann mundi eftir föður mínum og áhuga föður síns á Íslandi. Rifjuðum við upp, að sonur sendiherrahjónanna, Valur, hefði nýlega birt ritgerð, þar sem hann sannaði, að ákvörðun Kondrads Adenauers um að láta ekki vinstri stjórn fá lán, sem hann lofaði Ólafi Thors, hefði leitt til þess, að Bandaríkjastjórn samdi við þessa vinstri stjórn um áframhaldandi dvöl varnarliðsins og lét hana hafa fé að láni.

Tveir meistarakokkar frá frönsk-íslensku eldhúsi bjuggu einnig í sendiherrabústaðnum og undirbjuggu mat í móttöku í tengslum við setningarhátíðina 13. júní. Er óhætt að segja, að hátíðin hafi tekist mjög vel. Milli 200 og 300 manns komu á hana meðal annars menntamálaráðherra Nordrhein Westfalen, sem sagði slíkt fjölmenni við tækifæri af þessu tagi sjaldgæft í Bonn og sanna einlægan áhuga á Íslandi og íslenskri menningu.

14. júní hélt ég heim en að kvöldi 15. júni efndi Rut til tónleika í Köln. Var hún ánægð með þá og kom heim 16. júní til að halda stórhátíð hinn 17. Frásögn af henni er efni í aðra frétt.