20.5.1995

Heimsókn í skóla í Borgarfirði

Staða Reykholtsskóla hefur verið mjög til umræðu undanfarið vegna yfirvofandi skólastjóraskipta. Á árinu 1980 veitti menntamálaráðuneytið Ólafi Þ. Þórðarsyni, þingmanni Framsóknarflokksins, leyfi frá skólastjórastörfum í Reykholti, á meðan hann gegndi þingmennsku. Ólafur er ekki lengur þingmaður og sneri sér því til ráðuneytisins, sem sagðist standa við bréfið frá 1980. Þá blossuðu upp deilur, sem meðal annars snúast um starfið í Reykholtsskóla.

Vegna málsins komu fulltrúar nemenda í Reykholti á minn fund hinn 11. maí og afhentu mér bréf, þar sem þess er farið á leit við mig, að fá Ólaf Þ. Þórðarson til að endurskoða ákvörðun sína, “ef ekki fyrir núverandi nemendur þá fyrir komandi kynslóðir" eins og það er orðað. Hinn 13. maí kom skólanefnd Reykholtsskóla saman til fundar undir formennsku sr. Geirs Waage, sóknarprests í Reykholti. Sendi hún mér bókun af fundi sínum, þar sem lýst er þeirri skoðun, að menntamálaráðuneytið leggi mat á árangur skólastarfs í Reykholti undanfarin ár. Þá segir í bókuninni: “Vegna þeirrar stöðu, sem nú er uppi um málefni skólans, ítrekar skólanefndin, að fyrr ber að taka afstöðu til stöðu skólans og starfsemi hans, en að tekin verði afstaða til einstakra manna, sem stjórnenda skólans."

Í ljósi þessara erinda og umræðna um skólann ákvað ég að láta gera úttekt á skólastarfi í Reykholti. Áður en frá málinu yrði gengið vildi ég þó ræða við skólanefnd, kennara og nemendur í Reykholti. Ákvað ég að gera það í dag á leið minni í Samvinnuháskólann í Bifröst, þar sem voru skólaslit.

Við Rut kona mín lögðum land undir fót með Garðari bílstjóra í morgun og komum í Reykholt um hádegi, þar sem við snæddum í boði sr. Geirs og konu hans Dagnýjar, áður en fundur með skólanefndin hófst. Var hann hinn gagnlegasti og vorum við sammála um nauðsyn úttektarinnar og úrræði, á meðan hún færi fram. Héldum við síðan í matsal skólans, þar sem Oddur Albertsson skólastjóri, kennarar og nemendur tóku á móti okkur. Kynntum við Geir niðurstöðu okkar og ég las efni bréfs, sem ráðuneytið myndi senda Hagsýslu ríkisins með ósk um úttektina. Spurningar komu frá fulltrúa kennara og nemenda. Var góður andi á fundinum en alvara, því að allir gera sér ljóst, að framtíð skólans kann að vera í húfi.

Frá Reykholti héldum við rúmlega 14 til að vera við skólaslit í Samvinnuháskólanum í Bifröst kl. 15. Þar var í fyrsta sinn verið að útskrifa nemendur með Bs-gráðu í rekstrarfræðum. Starfið í skólanum er hið merkasta en meðalaldur nemenda er tæplega 30 ár. Er ánægjulegt að fylgjast með því, hvernig hefur tekist að byggja upp öflugan skóla við nýjar aðstæður í Bifröst. Í starfi til undirbúnings Listaháskóla Íslands kynnti ég mér meðal annars skipulag skólans í Bifröst. Í stuttu ávarpi við skólaslitin lét ég þess getið, að kynni listaháskólanefndarinnar af skólanum í Bifröst hefði haft mikil áhrif á niðurstöðu hennar.

Að loknum ræðum var boðið upp á kaffi í Bifröst með glæsilegum tertum - er greinilegt, að í þessu starfi þarf að huga vel að kílóunum, freistingar eru á hverju strái. Er þá gott að minnast fordæmis forsætisráðherra, sem þrátt fyrir annir sínar, hefur tekið að fækka kílóunum um á annan tug.