14.5.1995

Sérstakt eðli netfrétta

Þegar ég fór af stað með þessa heimasíðu fyrir nokkrum mánuðum, var ég að velta því fyrir mér, hvort gera ætti einhverjar ráðstafanir til að vekja á henni athygli utan veraldarvefsins. Ræddi ég málið meðal annars við vini mína í Miðheimum vegna þjónustu þeirra við mig. Niðurstaðan varð sú að gera ekkert í málinu og leyfa síðunni að þróast eftir eigin lögmálum. Þótti mér þá eins og enn, að hér sé um sjálfstæðan miðil að ræða og eigi að umgangast hann á sinn sérstaka hátt. Hann er að ýmsu leyti persónulegri en greinarskrif í blöð eða framkoma í útvarpi og sjónvarpi, þótt tölvan sé eini viðmælandinn.

Fyrir nokkrum vikum varð ég var við, að fréttamenn höfðu fengið áhuga á síðunni. Var meðal annars lesið af henni í fréttatíma hljóðvarps ríkisins, þegar fjallað var um stjórnarmyndun. Þá var ég spurður um hana í viðtölum við blaða- og fréttamenn. Hef ég forðast að ræða annars staðar efni, sem hér birtist. Nokkur þáttaskil urðu svo fyrir nokkrum dögum, þegar Morgunblaðið birti úr frétt á síðunni, þar sem ég sagði frá óskum margra um að fá að hitta menntamálaráðherra og bauð mönnum að hafa við mig tölvusamskipti. Þann dag fékk ég fjölda bréfa, þar sem menn fögnuðu framtakinu. Eiga tölvusamskipti vel við, þegar fjallað er um skólamál, því að innan skólastofnana hefur notkunin á upplýsingahraðbrautinni orðið hvað mest hér á landi. Í skólum starfa margir brautryðjendur á þessu sviði.

Vegna fréttar Morgunblaðsins greip Guðrún Helgadóttir til pennans og gaf til kynna í Morgunblaðsgrein, að nú gæti enginn haft samband við menntamálaráðherra nema sá, sem ætti mótald og tölvu. Svaraði ég þessum útúrsnúningi Guðrúnar og er þá grein mína að finna á öðrum stað hér á síðunni. Í svari mínu til Guðrúnar lét ég þess ógetið vegna vinsamlegra kynna okkar á meðan hún var þingmaður, að fáir hefðu hlaupið eins mikið á sig og hún á síðasta kjörtímabili, þegar hún kvartaði undan því, að ekki væri til ríkisdagblað hér á landi, sem rekið væri á svipuðum nótum og Ríkisútvarpið. Úreltur hugsunarháttur af þessu tagi samrýmist vel þeirri skoðun, að ámælisvert sé fyrir stjórnmálamenn að nota tölvuna til samskipta við umbjóðendur sína.

Hafi ég haft einhverjar áhyggjur af því, að heimasíða mín týndist í allri upplýsingamiðluninni á veraldarvefnum, eru þær horfnar. Þvert á móti verð ég að segja eins og er, að mér þykir frekar óþægilegt, þegar vísað er til þess, sem hér er skrifað, utan tölvuheimsins. Þetta sannar mér, að samskipti af þessu tagi og netfréttirnar eru sérstaks eðlis og hafa líklega einnig sérstakt gildi.