6.5.1995

Áhugi á tölvusamskiptum

Eitt af því fyrsta, sem ég óskaði, þegar ég settist í stól menntamálaráðherra, var, að tölvan í skrifstofunni yrði með þeim hætti, að ég gæti notað hana til alhliða samskipta bæði innan ráðuneytis og utan. Kom þá í ljós, að innan ráðuneytisins starfa færir tölvumenn, sem áttu ekki í hinum minnstu erfiðleikum við að uppfylla þessa ósk. Þá var ég einnig kallaður í útvarpsþátt um vefinn og látinn vitna um afnot mín af honum, þannig að það er eins gott að vera vel tækjum búinn á öllum vígstöðvum.

Síðan hef ég ekki farið varhluta af áhuga manna á að senda mér orðsendingar og fyrirspurnir með þessum hætti. Tengingu er þannig háttað, að í ráðuneytinu get ég bæði notað póstkerfi ráðuneytisins, þar sem ég hef pósthólf, og pósthólfið mitt hjá Miðheimum. Er ég viss um, að þessar boðleiðir eiga eftir að auðvelda mér samskipti við menn utan og innan stjórnarráðsins.

Mikill áhugi er á því að hitta menntamálaráðherra, enda mannmargar stofnanir, sem undir ráðuneytið heyra, og margir hafa hagsmuna að gæta á málefnasviðum þess. Má ráðherrann hafa sig allan við, svo að strax í upphafi myndist ekki svo langur listi viðmælenda, að hann verði aldrei tæmdur. Hef ég tekið þá stefnu í að reyna að tala strax við sem flesta í þeirri von, að með því takist að koma í veg fyrir langa biðlistann. Þetta þýðir í senn, að ég verð að gefa mér mikinn tíma til viðtala, og hitt, að ég verð að takmarka tíma þeirra, sem vilja hitta mig að máli.

Fljótlegasta og einfaldasta leiðin er hins vegar sú að senda tölvubréf. Á meðan mér endist kraftur til að opna tölvuna og sjá það, sem hún hefur að geyma, mun ég lesa bréfin og leitast við að svara þeim. Þetta krefst ekki neinna formlegheita og á að tryggja skjót og milliliðalaus samskipti.