30.4.1995

Fyrsta ráðherravikan

Fyrsta vikan í menntamálaráðuneytinu var mjög viðburðarík. Auk margra funda með embættismönnum vildu margir fá tækifæri til að hitta nýja ráðherrann. Er ekki vafi á því, að nauðsynlegt er að halda vel utan um dagbókina til að nýta tímann sem best. Jafnframt er augljóst, að ekki er unnt að sinna skyldunum, sem kalla án góðra samstarfsmanna. Eru þeir margir innan ráðuneytisins og þeirra fjölmörgu stofnana, sem á þess vegum starfa. Hitt er ekki heldur nóg að sitja og ræða málin í ráðuneytinu, æskilegt er að komast í heimsókn í sem flesta skóla og stofnanir.

Fyrsta blaðið, sem átti við mig samtal, eftir að tilkynnt var um ráðherradóminn var Stúdentablaðið. Kom blaðamaður þess heim til mín að morgni sunnudags 23. apríl, áður en formlega var til ríkisstjórnarinnar stofnað. Þegar fulltrúar Stúdentaráðs komu til fundar við mig miðvikudaginn 26. apríl afhentu þeir mér eintak af blaðinu. Í hádegi sunnudag 23. apríl var ég Á slaginu á Stöð 2. Þriðjudaginn 25. apríl var ég í þætti Stefáns Jóns Hafsteins á Stöð 2, daginn eftir var ég síðdegis á Rás 2 hjá Skúla Helgasyni í samtali við Svavar Gestsson. Daginn eftir kom síðan Kristján Ari Arason frá DV og tók við samtal, sem birtist laugardaginn 29. apríl sem yfirheyrsla.

Fyrsti ríkisstjórnarfundurinn var þriðjudaginn 25. apríl en þegar Alþingi situr ekki hittist ríkisstjórnin einu sinni í viku á þriðjudögum.

Ég gekk frá því að ráða mér aðstoðarmann í vikunni. Einnig reyndi ég að koma sem mestri reglu á vinnuhætti mína. Frá því að ég var í blaðamennsku er ég vanur því að þurfa að setja mig inn í mál á skömmum tíma og taka skjótar ákvarðanir, einnig að vinnudagurinn sé langur og fjölbreyttur. Kemur sú reynsla að góðum notum í þessu nýja starfi. Einnig kemur sér vel fyrir mig að hafa starfað fimm ár í forsætisráðuneytinu á sínum tíma, meðal annars sem ritari ríkisstjórnarinnar. Það er því ekki nýmæli fyrir mig að sýsla með mál af því tagi, sem lenda á borði ríkisstjórnarinnar, þótt áður hafi ég ekki setið í sæti þess, sem þarf að taka ákvarðanir og bera ábyrgð á þeim.

Laugardag 29. apríl tók ég fyrstu skóflustungu að Borgarholtsskóla með borgarstjóranum og sveitarstjóranum í Mosfellsbæ, en ríkið og þessi tvö sveitarfélög standa að því að reisa þennan nýja 1000 manna framhaldsskóla. Sama dag snæddi ég hádegisverð um borð í kanadísku herskipi og sótti tvær listsýningar, sem voru að hefjast.

Sunnudag 30. apríl kl. 12.00 hélt ég til Ísafjarðar í flugi með forseta Íslands og fleirum til að taka þátt í athöfn, þegar fyrsta skóflustunga að nýrri Súðavík var tekin, einnig var síðasti áfangi sjúkrahússins á Ísafirði tekinn í notkun. Var hátíðlegt að vera á Súðavík í sól og dúnalogni.