Fyrsti þingflokksfundurinn
Þingflokkur sjálfstæðismanna kom saman til síns fyrsta fundar eftir kosningarnar klukkan 17 í dag og lauk fundinum um klukkan 18.30. Þar ríkti mikil eindrægni og ánægja yfir úrslitum kosninganna. Fékk Davíð Oddsson, flokksformaður og forsætisráðherra, lof fyrir framgöngu sína í kosningabaráttunni og óskorað umboð til að leiða flokkinn í þeim viðræðum, sem eru framundan við aðra flokka.
Viðbrögð þingmanna, en 25 skipa nú þingflokkinn, voru á sama veg og annarra sjálfstæðismanna að kosningum loknum, að allir eru sáttir og raunar fagnandi yfir úrslitunum. Er langt síðan Sjálfstæðisflokkurinn hefur náð þeirri stöðu, sem hann hefur um þessar mundir. Hitt er ljóst, að alls ekki er auðvelt að spila úr þeim spilum, sem þingflokkur sjálfstæðismanna fékk á hendi á kjördag.
Ríkisstjórnin situr áfram, enda hefur hún meirihluta til þess á þingi. Á morgun munu formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins ræða við formann Alþýðuflokksins að loknum ríkisstjórnarfundi. Þar skýrist hvaða mál það eru, sem sérstaklega þarf að ræða, ef vilji er til þess á annað borð, að flokkarnir haldi áfram samstarfi um landsstjórnina. Stjórn með 32 þingmenn að baki getur setið eins lengi og hún og stuðningsmenn hennar á þingi kjósa.
Framsóknarmenn leggja höfuðkapp á að komast í ríkisstjórn. Halldór Ásgrímsson hefur þegar rætt við Jón Baldvin Hannibalsson en Halldór sagði fyrir kosningar, að hann myndi reyna myndun vinstri stjórnar. Viðræður hans við Jón Baldvin benda til þess, að Halldór sé þegar tekinn til við að undirbúa slíka stjórn.
Fréttamenn hafa leitað eftir áliti mínu á stöðu Jóns Baldvins Hannibalssonar og hvort hann geti verið áfram utanríkisráðherra. Ég hef svarað á þann veg, að stefna utanríkisráðherra verði að vera í samræmi við stefnu Alþingis. Evrópustefna Jóns Baldvins hafi orðið undir í kosningunum. Hann geti ekki fylgt henni fram með meirihluta þingsins að baki sér.