5.4.1995

Fjölmennur fundur í Iðnskólanum

Iðnskólanemar kölluðu fulltrúa stjórnmálaflokkanna til fundar við sig í dag. Var fjölmenni í matsal skólans og umræður líflegar í rúman klukkutíma. Lánamál námsmanna bar auðvitað hátt. Stjórnarandstaðan vegur að okkur sjálfstæðismönnum.



Ég minnti á sjóðasukkið, sem við okkur blasti eftir síðustu vinstri stjórn. Það nam 18 milljörðum króna. Margir sjóðir voru ónýtir þar á meðal Lánasjóður íslenskra námsmanna (LÍN). Við lokuðum verstu sukksjóðunum en gengum til þess verks að byggja aðra upp að nýju þar á meðal LÍN. Það uppbyggingarstarf hefur tekist með sameiginlegu átaki námsmanna og stjórnvalda.



Nú ráðast þeir, sem vilja sukka með opinbert fé, á okkur fyrir aðhaldsaðgerðirnar. Þeir verða ekki lengi að eyðileggja LÍN aftur! Ég er þeirrar skoðunar, að það eigi að rýmka úthlutunarreglur með hliðsjón af fjárhag ríkissjóðs og styrk sjóðsins. Jafnframt ber að huga að uppstokkun á lðánasjóðskerfinu.



Að því er nemendur í Iðnskólanum varðar er óréttlæti, að námskröfur ráuneytisins séu strangari en skólinn býður og nemendur gjaldi þess með lægri lánum. Þetta mál hef ég rætt við menntamálaráðuneytið og fengið þau svör, að þar sé unnið að leiðréttingu. Þetta var fjörugur fundur.



Var ég undrandi á því, hve Svavar Gestsson eyddi miklu púðri í árásir á mig og Sjálfstæðisflokkinn. Er greinilegt að Alþýðubandalagið telur sig vera að tapa fylgi, af því að Jóhanna hóf útilokunarstríð á hendur Sjálfstæðisflokknum og stal þeim glæp af Alþýðubandalaginu.