Alvarleg niðurstaða
Niðurstaða í Gallup-könnuninni í dag, sem sýnir Sjálfstæðisflokkinn með minnsta fylgi í slíkri könnun á öllu kjörtímabilinu, er að sjálfsögðu mikið áhyggjuefni fyrir okkur sjálfstæðismenn. Verst er þó, að erfitt er fyrir okkur að greina ástæðuna fyrir þessu. Ekkert hefur gerst í kosningabaráttunni að okkar mati, sem réttlætir það, að fylgið detti niður með þessum hætti. Þvert á móti hefur okkur virst, að fólk hafi skilning á málflutningi okkar og kunni að meta það, sem áunnist hefur á kjörtímabilinu.
Í dag hef ég farið á þrjá fjóra vinnustaðafundi hjá Póstgíró, Fönn, Prenstsmiðjunni Odda og á ávaxtalager Hagkaups auk þess sem ég hef heimsótt marga aðra, einkum í Skeifunni, og kemur þessi niðurstaða Gallup mér algjörlega í opna skjöldu eftir viðtökur á þessum stöðum. Að sjálfsögðu flytja menn ekki lofræður um Sjálfstæðisflokkinn en skilningur er góður á þeim árangrinum og augljós ótti við það, sem verður undir margflokka vinstri stjórn.