18.3.1995

Skemmtileg viðbrögð við heimasíðu

Nú hef ég haft heimasíðu hjá Miðheimum á veraldarvefnum í nokkrar vikur. Í stuttu máli hafa viðbrögðin við þessu framtaki orðið mun meiri en ég vænti. Margir hafa skrifað mér tölvubréf af þessu tilefni og einnig haft orð á síðunni í samtölum. Er ég undrandi á því, hve margir leggja leið sína inn á upplýsingahraðbrautina og kynna sér, hvað þar er að finna.

Rétt er að fram komi, að hvergi hefur, svo ég viti, verið minnst á það utan vefsins, að þessi síða sé aðgengleg fyrir þá, sem hafa áhuga. Fjölmiðlar líta ef til vill á það, sem samkeppni við sig, að stjórnmálamenn geti þannig haft samband beint við kjósendur sína án milligöngu þeirra og án þess að skoðanir þeirra fari í gegnum mismunandi fínriðið sigti blaða- og fréttamanna?