7.3.1995

Frá Stykkishólmi til Lækjartorgs

Frá Stykkishólmi til Lækjartorgs
7. mars 1995

Að kvöldi mánudagsins 6. mars var ég á fundi í Stykkishólmi með efstu mönnum á lista Sjálfstæðisflokksins þar. Fundurinn var haldinn í hótelinu og var salurinn troðfullur, þrátt fyrir kulda og snjó. Töldu heimamenn, að 80 til 100 manns hefðu sótt fundinn.

Umræður vour málefnalegar og þar var ekki frekar en annars staðar erfitt að gera grein fyrir forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins á kjörtímabilinu og fara fram á endurnýjað umboð fyrir okkur þingmenn flokksins. Ég fór einnig með Sturli Böðvarssyni, fyrsta þingmanni Vesturlands, í heimsókn í ýmis fyrirtæki í Stykkishólmi. Þar standa skelfiskfyrirtækin vel, enda hefur verð á rækju hækkað mjög. Einnig var ánægjulegt að koma í skipamíðastöðina, sem berst ekki í bökkum. Þá var ekki síst fróðlegt að heimsækja sjúkarhúsið og ræða við príorinnuna, en nunnurnar í Stykkishólmi hafa eins og annars staðar unnið þrekvirki. Loks fórum við í grunnskólann og ræddum við skólastjórann og þá kennara, sem við hittum þar í verkfallinu.

Kennaraverkfallið bar á góma á fundinum í Stykkishólmi og gerðum við grein fyrir áhyggjum okkar vegna þess, hve það dregst á langinn að finna þar sáttaleið. Við þingmenn töldum, að við afgreiðslu grunnskólafrumvarpsins og samkomulagsins, sem tókst í tengslum við hana við kennara, hefði verið ýtt undir sáttaumleitanir í kjaradeilunni. Því miður hefur sú von okkar ekki átt við rök að styðjast.

Frá Stykkishólmi var mér ekið af tveimur vöskum piltum að morgni þriðjudagsins. Var sagt, að Heydalur væri ófær öðrum en jeppum og stórum bílum, en Kerlingaskarð er lokað. Við vorum á jeppa en festum okkur þó í Heydal og höfðu piltarnir rétt lokið við að moka bílinn lausan, þegar rúta kom á staðinn og dró hún okkur yfir síðasta skaflinn. Á Mýrunum var svo mikill skafrenningur að ekki sást milli stika við veginn en að öðru leyti gekk ferðin vel til Reykjavíkur.

Kosningaskrifstofa okkar sjálfstæðismanna við Lækjartorg verður miðstöð funda um ýmis málefni í kosningabaráttunni og hófst fundaröðin í dag, þirðjudag, með ræðu Davíðs Oddssonar. Bjuggust skipuleggjendur við, að 20 til 30 manns kæmu en fundarmenn urðu nær 200 og því troðfullt út úr dyrum. Var gerður góður rómur að máli Davíðs. Hann svaraði meðal annars þeim áróðri Jóhönnu Sigurðardóttur, að ekki beri að starfa með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn að kosningum loknum. Sagði Davíð, að slík útilokun á einum stjórnmálaflokki væri móðgun við kjósendur og lýðræðið í landinu, hún tíðkaðist ekki nema gagnvart öfgaflokkum, sem hefðu til dæmis kynþáttahatur á stefnuskrá sinni eins og nasistum. Hér væri Jóhanna að tala um að útiloka flokk, sem samkvæmt könnunum nyti stuðnings um 40% kjósenda.

Fyrsta spurningin til Davíðs snerist um vinstri áróður í Ríkisútvarpinu. Taldi fyrirspyrjandi, að Ríkisútvarpið væri markvisst notað til að ófrægja Sjálfstæðisflokkinn. Davíð rifjaði upp, að fjölmargir starfsmenn Ríkisútvarpsins hefðu orðið að taka sér frí frá störfum fyrir borgarstjórnarkosningarnar vegna stuðnings við R-listans. Eftir kosningar hefði þetta fólk komið aftur til starfa og tæki nú málstað R-listans, eins og þegar það mátti vart mæla af hneykslan, þegar dreift var til Reykvíkinga miða með upplýsingum um holræsagjaldið og skattahækkanir R-listans á borgarbúa. Davíð sagði, að sjálfstæðismenn myndu ekki hlutast til um efnistök starfsmanna Ríkisútvarpsins í kosningabaráttunni, á hinn bóginn segði það sína sögu um áhrif þessara ríkistarfsmanna, að fylgi Sjálfstæðisflokksins hefði ekki mælst meira í könnunum á kjörtímabilinu. Þess vegna væri líklega best, að þeir héldu iðju sinni áfram átölulaust af sjálfstæðismönnum!