3.3.1995

Kosningaferðalag um austfirði

Undanfarna daga hef ég verið á ferðalagi um Austfirði og haldið kosningafundi á Breiðdalsvík, Reyðarfirði og Vopnafirði. Mest var átakið að komast til Vopnafjarðar, því að það tók okkur 8 klukkutíma að aka frá Egilsstöðum þangað 1. mars. Ekki var þó um neina svaðilför að ræða.

Venjulega eru menn innan við þrjá tíma að aka þessa 180 km leið. Við höfðum viðdvöl í Möðrudal og nutum gestrisni húsráðenda þar. Þau Egill Jónsson, efsti maður á lista Sjálfstæðisflokksins á Austurlandi, og Arnbjörg Sveinsdóttir, sem skipar annað sætið voru einnig í ferðinni. Þegar við ætluðum til baka frá Vopnafirði 2. mars, voru fjallvegir lokaðir. Vorum við á leið ofan af fjöllum inn í bæinn aftur, þegar okkur datt í hug að skreppa út á flugvöll til að kanna, hvort von væri á nokkurri vél þangað. Viti menn í þann sama mund var lítil vél frá Flugfélagi Austurlands að búa sig undir lendingu í skafrenningnum. Vorum við fegin að komast um borð í hana og tók flugferðin til Egilsstaða ekki nema 20 mínútur.

Á öllum fundunum þremur bar upplýsingatæknina á góma. Sérstaklega var rætt um símagjaldskrá Pósts og síma í því sambandi. Benti ég á þá staðreynd, að skipting landsins í símagjaldsvæði kynni að vera helsta hindrun fólks utan Reykjavíkur til að nýta sér veraldarvefinn. Kæmust menn hins vegar inn á hann væri sama, hvort þeir væru að skipta við menn í Ástralíu eða næsta húsi við sig, þar sætu allir við sama borð án tillits til gjaldskrár. Er greinilega mikill áhugi á því út um allt land að nýta sér þessa nýju tækni en dæmin um misréttið í gjaldskrármálum vegna símnotkunar eru himinhrópandi. Eins og ég hef áður vakið athygli á, hefur Sjálfstæðisflokkurinn lagt á ráðin um pólitíska stefnumótun í þessu efni. Við hana þarf að taka á uppbygginu á gjaldskrá Pósts og síma, á meðan fyrirtækið er ríkisfyrirtæki verður það að sætta sig við pólitíska stjórn. Hins ber þó einnig að minnast í þessu sambandi, að stjórnendur Pósts og síma hafa hvatt til þess, að hugað verði að skipulagi stofnunarinnar, þannig að hún verði betur í stakk búin en nú til að standast aukna samkeppni og kröfur.

Vegamál eru einnig mikið áhugamál þeirra, sem búa á Austfjörðum. Sjónarmiðin eru nokkuð ólík, eftir því hvort menn eru á suðurfjörðunum eða á Vopnafirði. Þó ættu allir að geta sameinast um nauðsyn þess, að markvisst verði unnið að því að klæða hringveginn allan slitlagi. Stærsti áfanginn í því efni tengist einmitt samgöngum við Vopnafjörð og liggja nú fyrir áætlanir um stórátak til að færa vegamál á þessum slóðum í nútímalegt og viðunandi horf.