27.2.1995

Grunnskólafrumvarpið afgreitt

Áður en Alþingi lauk störfum að kvöldi laugardags 25. febrúar tókst víðtæk samstaða um afgreiðslu á frumvarpi til nýrra grunnskólalaga. Frumvarpið hefur verið til meðferðar á þingi í allan vetur. Í því felst sú megin stefnumörkun, að grunnskólarnir skuli fluttir frá ríki til sveitarfélaga. Einnig eru ýmsar kennslu- og skólafræðilegar breytingar í frunvarpinu.

Við, sem stóðum að afgreiðslu frumvarpsins úr menntamálanefnd Alþingis, töldum brýnt, að þetta skref yrði stigið nú, svo að unnt væri að skapa forsendur fyrir viðræðum um nýja tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og um réttindamál kennara hjá nýjum vinnuveitanda. Minnihluti menntamálanefndar stóð gegn þessari afgreiðslu og var málið tekið í ágreiningi út úr menntamálanefnd, þar sem Sigríður Anna Þórðardóttir, Sjálfstæðisflokki hefur verið formaður, en hún var einnig formaður þeirrar nefndar, sem samdi frumvarpið.

Samband íslenskra sveitarfélaga var tregt til að fallast á afgreiðslu málsins, án þess að einhver tenging yrði milli þess og gildistöku annarra laga, svo sem um tekjuskiptinguna. Eftir að við í meirihlutanum höfðum sett slíka tengingu inn í bráðabirgðaákvæði í frumvarpinu féll Samband ísl. sveitarfélaga frá anfstöðu sinni.

Kennarar blésu til orrustu vegna réttindamála sinna og tóku þau sérstaklega inn í deilur sínar við ríkið um kaup og kjör í verkfallinu, sem enn stendur. Aðfaranótt laugardags hélt Davíðs Oddsson forsætisráðherra fundi með Eiríki Jónssyni, formanni Kennarasambands Íslands, og Svavari Gestssyni, fulltrúa Alþýðubandalagsins í menntamálanefnd Alþingis. Eftir þá fundi tók forsætisráðherra frumkvæði að því að breyta bráðabirgðaákvæði frumvarpsins á þann veg, að þar er sagt, að kennarar muni ekki missa neins í rétti sínum við tilfærsluna, þó verði þeim ekki tryggð æviráðning, enda tíðkast hún ekki hjá sveitarfélögunum.

Síðdegis á laugardag kom menntamálanefnd Alþingis saman til fundar. Náðist þar sátt í málinu og stuðningur allra við framangreint bráðabirgðaákvæði. Síðan rann málið hrindrunarlaust í gegnum þingið og varð að lögum á laugardagskvöld, en stjórnarandstaðan sat hjá við lokaatkvæðagreiðsluna.