7.9.2008

Stjórnarandstöðuformenn - háskólanám - vinstrivandi.

Athygli hefur beinst að formönnum stjórnarandstöðuflokkanna, Guðna Ágústssyni og Steingrími J. Sigfússyni, síðustu daga vegna sérkennilegrar framgöngu þeirra á alþingi. Steingrímur J. brást reiður við frammíkalli Guðna og skipaði honum að þegja. Guðni breytti orðalagi í ræðu sinni um kristilegt siðgæði, áður en ræðan var endanlega færð í Alþingistíðindi.

Fyrst að Steingrími J. Hvers vegna reiddist hann Guðna? Jú, vegna þess að Guðni minnti Steingrím J. á, að hann (Steingrímur J.) hefði mælt með virkjun í neðri Þjórsá – en Steingrímur J. kaus að skilja orð Guðna á þann veg, að hann hefði sagt Steingrím J. mæla með eignarnámi. Guðni hafði rétt fyrir sér. Steingrímur J. talaði þannig á þingi í nóvember 2005, að hann væri ekki andvígur virkjun neðri Þjórsár.

Hér birti ég annars vegar kafla úr ræðu Steingríms J. 3. september sl., þegar hann skipaði Guðna að þegja og hins vegar úr ræðu Steingríms J. 22. nóvember 2005, þegar hann ræðir virkjanir í neðri Þjórsá.

Steingrímur J. Sigfússon á alþingi 3. september 2008:

„Þá kem ég að virkjunarþættinum því að gangi þessi ósköp öll eftir þarf að virkja og virkja mikið. Er það þá stefna ríkisstjórnarinnar að virkja að fullu í neðri Þjórsá og mun iðnaðarráðherra veita heimildir til eignarnáms ef þær þarf til sem allt bendir til? (GÁ: Þú mæltir með því.) Vegna þess að ? Þegiðu nú Guðni, aldrei nokkurn tíma. Það á ekki að vera með svona fleipur hér, það er allt í lagi að kalla fram í ef það er eitthvert minnsta vit í því sem er sagt. (Gripið fram í.) Já. Hef ég talað fyrir eignarnáminu í Þjórsá? Nei.“

Steingrímur J. Sigfússon á alþingi 22. nóvember 2005:

,, Búðarhálsvirkjun - bráðhagkvæm rennslisvirkjun sem nýtir þær miðlunarframkvæmdir sem komnar eru á Þjórsársvæðinu, sjálfsögð virkjun. Ég er ekki á móti henni, ég styð hana að því gefnu að við þurfum á orkunni að halda til einhverra skynsamlegra nota. Neðri virkjanirnar í Þjórsá eru mjög hagkvæmar vegna þess að þær nýta alla miðlunina sem fyrir er ofar í Þjórsársvæðinu. Núpavirkjun og síðan Urriðafossvirkjun eru að vísu ekki án umhverfisfórna. Það þarf vissulega að fara vel yfir það, en að breyttu breytanda eru þær mjög eðlilegur virkjunarkostur áður en menn ráðast í ný og óröskuð svæði."

Stjórn Sagnfræðingafélags Íslands hefur skrifað forseta alþingis bréf um, að tryggt verði, að þingmenn og starfsfólk alþingis fari í öllu eftir þeim lögum sem gilda um Alþingistíðindi og líti ekki undan þegar þingmenn geri efnisbreytingar umfram auðsæjar og sannanlegar villur, sem kveðið er á í lögum um þingsköp. Tilefni bréfsins er, að sagt var frá því í fjölmiðlum, að Guðni Ágústsson hefði breytt „merkingu ummæla, sem hann lét falla í ræðustól“ á alþingi. Í bréfi sagnfræðinganna segir:

 „Að það skuli tíðkast að þingmenn breyti efni og merkingu ummæla sinna eru slæmar fréttir fyrir sagnfræðinga og annað fræðafólk sem notar þingtíðindi sem heimildir. Það gefur auga leið að ummæli sem raunverulega féllu á þingi eru allt annars eðlis en þau ummæli sem þingmenn hefðu viljað látið falla eftir umtalsverð umhugsun og sjálfsritskoðun. Þessi eðlismunur hefur grundvallaráhrif á þær ályktanir sem fræðimenn draga af þessum heimildum. Það jaðrar því við sögufölsun þegar þingmenn gera efnis- og merkingarlegar breytingar á orðum sínum í trássi við lög og reglur sem eiga einmitt að tryggja að slíkt eigi sér ekki stað.“

Ég er sammála þessum orðum sagnfræðinganna og að óreyndu hefði ég talið, að þingmenn skiptu ekki um skoðun á milli ræðu og birtingar hennar í þingtíðindum, hvað þá að hin nýja skoðun birtist aðeins í leiðréttum texta þingtíðinda en væri ekki kynnt þingheimi í ræðustól alþingis. Stundum hnika ég orðaröð, ef ég les ræður mínar fyrir birtingu. Efni þingræða má ekki breyta heldur aðeins snurfusa texta.

Kolbrún Bergþórsdóttir vék að þessu í samtali við Guðna Ágústsson í Morgunblaðinu 6. september 2008 og spurði:

Nú ert þú gagnrýndur fyrir að hafa breytt ræðu þinni í þinginu um kristilegt siðgæði fyrir birtingu í Alþingistíðindum. Af hverju gerðir þú það?

Guðni svarar:

„Ég á mína barnstrú og það væri fáránlegt af manni sem hefur verið gæfusamur að þakka ekki forsjóninni og einhverju afli sem maður finnur í kringum sig. Það finna margir að yfir þeim er vakað. Umrædd ræða í þinginu var þannig að ég gekk fulllangt og það hefði verið auðvelt að stimpla mig öfgamann. Ég sagði þar að í rauninni væri ekkert annað siðgæði til en kristið siðgæði. Ég breytti svo textanum og sagði að ekkert hefði bætt heiminn jafn mikið og kristið siðgæði.

Auðvitað eiga ýmsar trúarhreyfingar og trúlausir menn með sér göfuga siðgæðisvitund. Ég vildi sýna þeim þá virðingu að níða ekki þeirra lífsskoðanir, en hins vegar er ég sannfærður um að ekkert siðgæði hefur breytt veröldinni jafnmikið og kristið siðgæði. Þetta er það sem ég vildi sagt hafa og leyfði mér að breyta ræðunni samkvæmt því.“

Að mínu mati hefði Guðni átt að beita því ráði í þessu máli að taka til máls í upphafi þingfundar, segjast hafa kveðið of fast að orði og óska leiðréttingar á orðum sínum – allir eiga rétt á leiðréttingu orða sinna.

Háskólanám.

Þess var minnst á hátíðlegan hátt  4. september, að 10 ár voru liðin frá því að Háskólinn í Reykjavík (HR) tók til starfa. Var skemmtilegt að taka þátt í afmælinu og  hlýða á ræður manna um hin miklu þáttaskil í háskólastarfi í landinu með háskólalögunum frá 1997.  Að margra mati var síður en svo sjálfsagt, að ríkið afsalaði sér einkarétti á að reka háskóla. Breytingin varð ekki aðeins sú, að til sögunnar komu nýir háskólar, heldur einnig að þeir, sem fyrir voru litu í eigin barm til að standa sig betur í samkeppni um nemendur.

Í sömu andrá og HR fagnaði afmæli sínu birti Hagstofan tölur um fjölda innritaðra nemenda í háskólanám. Í upphafi þess skólaárs, sem nú er að hefjast eru 20.300 nemendur skráðir í háskólanám á Íslandi og hafa þeir aldrei verið fleiri. Árið 1997 voru um 7000 háskólanemendur í landinu.

Þegar HR hóf göngu sína fyrir 10 árum voru nemendur þar 317 en nú eru tæplega 3100 nemendur skráðir í skólann og er hann næstfjölmennasti háskólinn. Í Háskóla Íslands eru nú 13.600 skráðir nemendur.

Þessi miklu umskipti og gróska í háskólastarfi staðfesta enn og aftur gildi þess, að afnema einokun ríkisins. Í raun er undarlegt, hve mikil tregða er í nágrannalöndum okkar að feta í fótspor okkar að þessu leyti. Sömu sögu er að segja um hræðsluna við að taka upp skólagjöld og gera þau að almennri reglu á háskólastigi. Tvískinnungur meðal starfsmanna Háskóla Íslands í því efni hefur löngum vakið undrun mína.

Í afmæli HR var birt myndband með viðtölum við 10 ára nemendur í grunnskólum um menntun og framtíðaráform þeirra. Þar sagðist einn nemendanna ætla að leggja sig fram um nám í grunnskóla og síðan velja hraðbraut í framhaldsskóla til að komast sem fyrst í háskóla, gott ef hann hafði ekki sett sér það markmið að verða prófessor.

Þegar nemandinn nefndi hraðbrautina, rifjuðust upp deilur á þingi, þegar ég lagði þar fram tillögu um, að unnt yrði að ljúka stúdentsprófi á tveimur árum í einkareknum framhaldsskóla. Tillagan var samþykkt, þrátt fyrir andstöðu og úrtöluraddir og 2003 tók einkarekinn, tveggja ára framhaldsskóli til starfa undir heitinu Hraðbraut. http://is.wikipedia.org/wiki/Menntask%C3%B3linn_Hra%C3%B0braut

Vinstrivandi.

Vinstrimenn á þingi snerust gegn öllum skólatillögum mínum, sem miðuðu að því að draga úr einokun ríkisins og leyfa frelsi undan henni að njóta sín. Í því viðhorfi endurspeglaðist úrelt afstaða, sem veldur því, að sósíalistar eða skoðanabræður þeirra eru aðeins við völd í fjórum Evrópulöndum, það er í Bretlandi, Noregi, Portúgal og á Spáni. Þeir eiga aðild að samsteypustjórnum í Þýskalandi og hér.

Í nýjasta hefti vikuritsins The Economist er sagt frá því, að „the mainstream left“ eigi undir högg að sækja alls staðar í Evrópu. Síðan segir blaðið frá vandræðum sósíalista í Frakklandi og sósíaldemókrata í Þýskalandi.

Allt logar í illdeilum meðal franskra sósíalista í aðdraganda flokksþings þeirra í nóvember, þegar François Hollande, formaður flokksins, lætur af formennskunni eftir 11 ár. Ríkir enn óvissa um, hver verður kjörinn í hans stað og innan flokksins eru átök á borð við þau, sem sjá má innan breska Verkamannaflokksins, þar sem harði sósíalistakjarninn hefur aldrei getað sætt sig við hinn nýja Verkamannaflokk, sem Tony Blair mótaði og leiddi oftar en einu sinni til sigurs í kosningum. Vinsældir Verkamannaflokksins hafa snarminnkað eftir brotthvarf Blairs og enginn spáir því, að Gordon Brown, forsætisráðherra og flokksleiðtogi, leiði hann til sigurs í næstu kosningum.

Þegar The Economist veltir fyrir sér ástæðunum fyrir því, að sósíalistum og jafnaðarmönnum farnist svona illa í Evrópu, eru tvær grundvallarbreytingar nefndar til sögunnar. Hnignun verkalýðshreyfingarinnar, sem hafi kippt undirstöðunum undan flokkunun. Flokkarnir hafi jafnframt hneigst til að bera aðeins hag opinberra starfsmanna og þeirra, sem hafa tekjur frá ríkinu fyrir brjósti – þeirra hópa, sem eru tregastir til að samþykkja breytingar og samdrátt í opinberum umsvifum og afskiptum. Flokkarnir geti því ekki lagað stefnu sína að kröfum alþjóðavæðingarinnar.

Í öðru lagi sé nauðsynlegt að hafa í huga, að aldursskipting sé að breytast í Evrópu. Hinum eldri fjölgi og menn verði almennt íhaldssamari með aldrinum. Eldri borgarar hafi einnig meiri áhyggjur en hinir yngri af innflytjendum, Islam og öryggismálum – málaflokkum,  sem eigi ekki upp á pallborðið hjá vinstrimönnum en einkenni stefnu hægri flokka.

Meginvandi evrópskra vinstrimanna felist þó í því, að þeir hafi ekki getað mótað sér neina stefnu í samræmi við alþjóðavæðinguna eða hnattvæðinguna. Þeir hafi hallmælt henni og látið eins og unnt væri að sigla fram hjá breytingum vegna hennar. Í þessu tilliti sé breski Verkamannaflokkurinn undantekningin, sem sanni regluna. Vilji vinstrimenn ekki aðeins vera talsmenn óbreytts, verndaðs opinbers rekstrar verði þeir að bregðast við hnattvæðingunni á opnari hátt.

Sambandsþingskosingar verða í Þýskalandi eftir eitt ár, en þar hefur Angela Merkel, kanslari og leiðtogi kristilegra demókrata (CDU), leitt samstjórn með sósíaldemókrötum í þrjú ár. Merkel nýtur vinsælda og virðingar, þótt það endurspeglist ekki í vaxandi fylgi flokks hennar og nú bíða menn spenntir eftir sambandslandskosningum í Bæjaralandi eftir fáeinar vikur, en þar hefur systurflokkur kristilegra, kristilegi sósíalflokkurinn (CSU) farið með meirihlutavöld í áratugi og fékk síðast um 60% atkvæða. CSU glímir nú við forystuvanda, sem þykir hafa veikt hann.

Forystuvandi CSU er þó barnaleikur í samanburði við sama vanda og annan hjá sósíaldemókrötum (SPD).  Fylgi SPD hefur snarminnkað undandarin misseri og Kurt Beck, formaður flokksins, nýtur lítils trausts og er ákveðið, að Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra, verði kanslaraefni SPD í komandi kosningum. Hann var handgenginn Gerhard Schröder sem embættismaður og ráðgjafi, höfundur umbóta Schröders, en hefur aldrei verið í framboði og þykir nokkuð djarft að tefla fram manni til að leiða kosningabaráttu, sem aldrei hefur háð slíka baráttu áður.

SPD glímir við nýjan andstæðing vinstra megin við sig Die Linke, eða vinstriflokkinn, þar sem óánægðir jafnaðarmenn og gamlir kommúnistar frá A-Þýskalandi hafa tekið höndum saman. Mælist flokkur þeirra nú þriðji stærsti flokkur Þýskalands með stuðning um 15% kjósenda. Die Linke og SPD mynda meirihluta á landsþinginu í Berlín og hefur það ekki valdið miklu umróti í stjórnmálalífinu, þar sem Berlín hefur ávallt haft nokkra sérstöðu. Hitt hefur skapað SPD miklu meiri tilvistarvanda, að í sambandslandinu Hessen hefur leiðtogi flokksins þar, Andrea Ypsilanti, ákveðið að mynda meirihlutastjórn með stuðningi Die Linke, í fyrsta sinn í sambandslandi í vesturhluta Þýskalands.

Séu brugðið íslenskri stiku á þessar hræringar meðal evrópskra vinstrimanna, er augljóst, að vinstri/græn má bera saman við Die Linke í Þýskalandi og innan Samfylkingarinnar er veruleg hræðsla við, að vinstri/græn nái að útmála samfylkingarfólk sem svikara við vinstrisinnaðan málstað. Hér á landi brýst þetta einkum fram í átökum um það, hver sé helsti talsmaður þess, að ekki sé virkjað auk þess sem flokkarnir telja sér einnig skylt að standa sem lengst vörð um einokun hins opinbera á flestum sviðum.

Þetta birtist meðal annars í andstöðu flokkanna við afnám ríkiseinokunar á skólarekstri. Til þessa má rekja, hve seint og illa hefur gengið að leyfa einkaframtakinu að njóta sín við rekstur grunnskóla. Ég hef ítrekað lýst þeirri skoðun, hve óheppilegt var, að R-listinn tók við grunnskólanum úr hendi ríkisins á sínum tíma.

Þá má greina keppni á milli vinstri flokka hér, þegar rætt er um öryggismál, hvort sem um er að ræða hervarnir í þágu Íslands eða aukinn viðbúnað lögreglu. Vinstri/græn vilja draga upp þá mynd af lögreglunni, að hún gangi á rétt borgarannar og innan þingflokks Samfylkingarinnar er lagst gegn tillögum, sem miða að því að styrkja innviði lögreglunnar.

Loks vekur athygli, hve vinstrimenn á alþingi eiga auðvelt með að koma hver öðrum í uppnám með því að slá um sig sem talsmenn andstöðu gegn heimilisofbeldi, nauðgunum, vændi og hvers kyns kynferðislegri áreitni. Gengur þessi samkeppni þeirra í milli svo langt, að spillir fyrir framgangi þingmála um allt önnur efni. Er þetta þeim mun einkennilegra, þegar til þess er litið, að alþingi hefur nýsamþykkt tillögur frá mér um hertar refsingar á þessum sviðum.