17.11.2004

Prag – Sakleysingjarnir - Interpol

Margt hefur gerst meðan ég fór til Prag með fjölskyldu minni til að fagna sextugsafmæli mínu og síðan til Lyon til að heimsækja Interpol og fræðast um starfsemi þessarar mikilvægu alþjóðalögreglu. Þegar ég segi, að margt hafi gerst á ég bæði við atburði á heimavelli, lög til að leysa kennaraverkfallið og hækkun útsvars og fasteignaskatta í Reykjavík, og á alþjóðvettvangi, þar sem Colin Powell hefur sagt af sér embætti utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Condoleezza Rice verið tilnefnd í hans stað. Ég sé það einnig, að Davíð Oddsson telur eftir samtal sitt við Powell í Washington í gær (16. nóvember), að viðræður okkar við Bandaríkjastjórn séu komnar í viðunandi farveg og viðurkenning liggi fyrir um nauðsyn loftvarna á Íslandi, unnið verði að útfærslu í upphafi næsta árs.

 

Ég hafði ekki verið í Prag síðan í janúar 1990, þegar ég varð vitni að þeim pólitíska ákafa og áhuga, sem leystist úr læðingi eftir flauelisbyltinguna svonefndu fyrir réttum 15 árum í nóvember 1989, nokkrum dögum eftir að Berlínarmúrinn féll, 9. nóvember 1989. Í aðsetri gamla kommúnistaflokksins í hjarta Prag er nú að finna minjsasafn um kommúnismans, innreið hans í Tékkóslóvakíu, áhrif hans og hrun. Er eftirminnilegt að fara í þetta safn, sem er á hluta úr hæð í stórhýsi, þar sem einnig er nú að finna spilavíti, tískuvöruverslanir og Mcdonald’s en sú keðja er mjög áberandi alls staðar í Prag.

 

Okkur þótti makalaust að sjá allan ferðamannafjöldann í borginni, ef hann er svona mikill á þessum árstíma, hvernig er hann þá, þegar veður er hlýrra? Hvarvetna þar sem gengið var um gömlu borgina eða á kastalahæðinni, þar sem forsetahöllinn er, streymdu ferðamenn í fylgd leiðsögumanna og hlustuðu á lýsingu á því, sem fyrir augu bar.

 

Þegar ég var þarna fyrir fimmtán árum með góðum félögum, fórum við meðal annars á blaðamannafund hjá Vaclav Havel, nýkjörnum forseta landsins, í forsetahöllinni og sagði ég frá þeim fundi í Morgunblaðinu á sínum tíma og er greinarflokkurinn um ferðalag mitt endurbirtur í bókinni Í hita kalda stríðsins.

 

Ég sá það í Le Monde, eftir að ég hafði verið í Prag, að einmitt fyrstu daga okkar í borginni 12. og 13. nóvember hefðu verið kosningar til öldungadeildar tékkneska þingsins. Ferðamaðurinn varð ekki var við þetta, því að hvergi kom ég auga á auglýsingar eða kosningaspjöld. Í Le Monde sagði, að úrslit kosninganna hefðu orðið reiðarslag fyrir Stanislav Gross forsætisráðherra og flokk hans, sósíal-demókrata, því að þeir hefðu ekki fengið neinn mann kjörinn. Flokkur Vaclavs Klaus, forseta Tékklands, borgaralegi lýðræðisflokkurinn, hefði hins vegar unnið stórsigur. Klaus er frjálshyggjumaður, sem varð fjármálaráðherra eftir flauelsbyltinguna, og þakka menn honum, hve Tékkum hefur vegnað vel á marga lund við að laga sig að nýjum stjórnmála- og efnahagsháttum eftir hrun kommúnismans. Klaus er mjög gagnrýnin á Evrópusambandið og lagðist ekki á þá sveif, að Tékkum væri fyrir bestu að ganga í það.

 

Prag er einstök borg og ánægjulegt að hafa heimsótt hana að nýju.

 

*

 

Í ferðinni las ég hina nýju bók Ólafs Jóhanns Ólafssonar,  Sakleysingjarnir, þar sem hann lætur söguhetju sína berast frá einum stóratburði til annars og einu landi til annars, einum lækni til annars, einni konu til annarrar. Ólafur Jóhann heldur sig við persónur, sem lifa margföldu lífi og vita kannski ekki sjálfar að lokum, hverjar þær eru, raunar virðist ekkert sem sýnist. Hann sníðir söguefni sitt á þann veg, að bókin geti bæði höfðað til íslenskra og erlendra lesenda. Skáldaleyfið gerir honum kleift að færa alkunna atburði í stílinn og búa til persónur, sem bera með sér að eiga einhverja fyrirmynd, þótt hún sé aðeins kveikja að einhverjum allt öðrum. Bókin er rúmlega 500 blaðsíður og er oft fljótt farið úr einu sviði í annað og verður þá þráður sögunnar bæði þunnur og næsta ólíkindalegur. Auðvitað má elta ólar við það, hvort höfundurinn bregður góðu eða vondu ljósi á þá atburði, sem hann velur sér og hetju sinni sem viðfangsefni, en það verður ekki gert hér.

 

*

 

Ég hafði aðra mynd í huganum af Interpol en við mér blasti, þegar ég fékk tækifæri til að hitta Ronald K. Noble forstjóra og samstarfsmenn hans í höfuðstöðvunum í Lyon í Frakklandi. Interpol hefur haft þar aðsetur síðan 1989, þegar stofnunin fluttist frá París. Hélt ég, að Interpol væri frekar skrifræðisleg stofnun en hinni virki þátttakandi í lögregluaðgerðum, sem hún er.

 

Í samtölum og á kynningarfundum kom fram, að undanfarin 4 ár hefur Interpol tekið stakkaskiptum, meðal annars með því að færa sér upplýsingatæknina í nyt og þar er nú að finna risastóra gagnabanka yfir stolna bíla, ferðaskilríki og fingraför, svo að dæmi séu nefnd. Þá þjónar Interpol einnig aðildarríkjunum 182 með vefsíðu, þar sem slegið er upp tilkynningum um einstaklinga, sem leitað er, svo að dæmi sé tekið. Má svo að segja á svipstundu miðla slíkum upplýsingum um heim allan og virkja þannig lögreglulið aðildarríkjanna til gagnaðgerða.