11.3.2017 14:00

Laugardagur

Í Morgunblaðinu föstudaginn 10. mars birtist viðtal við eistneska ESB-þingmanninn Urmas Paet sem var hér og flutti erindi á vegum Varðbergs.

Í viðtali Stefáns Gunnars Sveinsson við þingmanninn segir meðal annars:

„Paet skrifaði skýrslu um varnarmál fyrir Evrópuþingið og segir að þar hafi komið í ljós að ESB gæti gert margt betur í varnarmálum, og jafnvel komið með hluti að borðinu sem Atlantshafsbandalagið getur síður sinnt. Hann nefnir sem dæmi „tvinnhernað“ (e. hybrid warfare), eins og sést hafi í Úkraínu, þar sem óreglulegum hernaði er beitt í bland við hefðbundnari aðferðir. „Evrópusambandið gæti mótað sér öfluga stefnu til varnar gegn slíkum hernaði, jafnvel betur en NATO.“ Líku máli gilti um tölvuhernað.“

Talað er um tvinnbíla hybrid cars – bensín (dísel) og rafmagn. Í tilvitnuðu orðunum hér að ofan talar blaðamaðurinn um „tvinnhernað“. Í skrifum mínum um öryggismál hef ég notað orðið „blendingshernaður“ um hybrid warfare. Í fyrirlestri þýðingarfræðings notaði hann orðið „sambræðingur“ til að lýsa hybrid tungumáli.

Við nánari umhugsun tel ég best að íslenska hybrid warfare með tveimur orðum „blandaður hernaður“. Þetta er gegnsætt án þess að vera framandi. Hvað felst í þessum hernaði?

Hann er frábrugðinn „óblönduðum“ hernaði að því leyti að ekki er aðeins tekist á með vígtólum heldur beita aðilar átakanna einnig öðrum aðferðum, áróðri, undirróðri og ítökum sem þeim skapa sér þar sem þeir vilja koma ár sinni fyrir borð.

Í gær birti ég grein í Morgunblaðinu þar sem lýst er sókn rússneska hersins, flota og flughers, út á N-Atlantshaf, sjá greinina hér. Þegar hugað er að þessari þróun og reynslu annarra þjóða vaknar spurningin um hvaða blandaðri hernaðaraðferð Rússar beita til að hafa áhrif á umræður hér á landi. Þrjú nýleg dæmi koma í huga: (1) innantómt boð Rússum lánveitingu í hruninu október 2008, (2) ákvörðun Pútíns um að setja bann við innflutningi á íslenskum fiski eftir að Evrópuríki settu viðskiptaþvinganir á Rússa vegna innlimunar þeirra á Krímskaga fyrir þremur árum og (3) yfirlýsing rússneska sendiráðsmannsins í Reykjavík í september 2016 um að reynt væri að blása lífi í Rússagrýluna með því að vekja máls á óvarlegu flugi rússneskra hervéla undir íslenska farþegavél á leið til Stokkhólms.