10.3.2017

Ný áskorun í varnarmálum vegna útþenslu rússneska flotans

Morgunblaðið, föstudagur, 10. mars 2017

Breska hugveitan og rannsóknastofnunin RUSI kynnti mánudaginn 6. mars grein eftir norska flugforingjann og herfræðinginn John Andreas Olsen undir fyrirsögninni: NATO og Norður-Atlantshaf: Endurlífgun sameiginlegra varna. Í útdrætti greinarinnar segir meðal annars:

„Þótt rússneski flotinn sé ekki sambærilegur sovéska flotanum fyrrverandi þróast hann á þann veg að langdræg geta hans kann hugsanlega að duga til að trufla siglingar og láta að sér kveða á Atlantshafi auk þess að koma í veg fyrir að floti NATO-ríkjanna geti nýst til aðgerða á hernaðarlega mikilvæga svæðinu milli Grænlands, Íslands, Bretlands og Noregs.

Rússar hafa gert það að herstjórnarlegu forgangsatriði að eignast að nýju sóknarflota til aðgerða á Norður-Atlantshafi, sóknarstefna Pútíns nýtur mikilla vinsælda meðal rússnesks almennings; í augum margra er hann mótvægið við Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra í Evrópu.  Rússar hafa einsett sér að blása nýju lífi í brjóstvarnar-stefnuna og hún verður ráðandi þáttur þegar NATO gerir varnaráætlanir fyrir norðurslóðir um fyrirsjáanlega framtíð. Stefna Kremlverja sem miðar að því að geta beitt valdi sínu á fjarlægum slóðum felur í sér mikla áskorun fyrir aðila NATO og samstarfsríki þeirra. Þessi „endurkoma“ á Norður-Atlantshafi boðar nýjan hernaðarlegan veruleika í evrópskum öryggismálum: í víðara samhengi „nýtt eðlilegt ástand“.“ 

Á ráðstefnu sem Varðberg efndi til 17. nóvember 2016 sagði einn erlendra sérfræðinga sem þar talaði að í störfum sínum fyrir bandaríska flotann árið 2004 hefði sér verið sagt að ekki væri lengur litið á N-Atlantshaf sem „strategic space“, það er svæði sem skipti máli í stóru hernaðarlegu myndinni. Tveimur árum síðar lokuðu Bandaríkjamenn síðan varnarstöðinni í Keflavík. Mat norska herfræðingsins lýsir í hnotskurn breytingunni sem orðið hefur síðan.

Hernaðarleg þýðing og lánalína

Háskólakennararnir Ásgeir Jónsson og Hersir Sigurgeirsson kynntu á dögunum nýja bók sína um hrunið 2008 og þó einkum endurreisnina eftir það. Í pallborðsumræðum í Háskóla Íslands um bókina vakti Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur máls á fundargerð háttsettra bandarískra embættismanna frá haustinu 2008 þar sem hafnað var beiðni Íslendinga um lánafyrirgreiðslu sem hugsanlega hefði lengt líf íslenskra banka á heljarþröm.  Á mbl.is laugardaginn 4. mars sagði:

„Við Íslend­ing­ar verðum að skilja stöðu okk­ar í heim­in­um,“ seg­ir Kristrún og vís­ar til þess að óháð því hvernig ör­ygg­is- og varn­ar­sam­starf hafi verið milli Íslands og Banda­ríkj­anna sýni fund­ar­gerðin að það var létt­vægt þarna þegar á reyndi. „Lær­dóm­ur­inn af þessu er þörf­in fyr­ir að gera 360 gráðu heild­rænt stöðumat fyr­ir Ísland. Efna­hags­mál og ut­an­rík­is­mál eru eitt og sama málið[…]  Lær­dóm­ar hruns­ins hvað varða alþjóðasam­skipti skipta hér miklu máli. Það skipti höfuðmáli þegar fram í sótti í end­ur­reisn­inni hér­lend­is að Banda­rík­in studdu Ísland í stjórn AGS en við búum ekki við al­menna og ör­ugga vernd annarra í þess­um nýja heimi.“

Það sem þarna segir má túlka á þann hátt að þrátt fyrir öryggis- og varnarsamstarf Íslendinga og Bandaríkjamanna hafi bandarískir ráðamenn ákveðið að rétta Íslendingum ekki hjálparhönd með lánalínu haustið 2008.

Hafi embættismennirnir leitað álits bandaríska varnarmálaráðuneytisins áður en þeir tóku ákvörðun sína á þessum tíma var svarið vafalaust að N-Atlantshaf væri ekki „strategic space“ og þess vegna þyrfti ekki að taka sérstakt tillit til herstjórnarlegra hagsmuna við ákvarðanir um bankafyrirgreiðslu til Íslendinga. 

Ný áskorun í varnarmálum

Íslendingum hefur tekist að tryggja ytra öryggi sitt á hernaðarlega mikilvægu svæði án þess að leggja sjálfir stund á hermennsku. Nú þarf enn að ræða hvort það sé í raun forsvaranlegt. 

Útdrátturinn sem birtur er hér að ofan minnir á það sem var fyrir 40 árum þegar spennan magnaðist ár frá ári á N-Atlantshafi vegna vaxandi hernaðarumsvifa Sovétmanna. Varð sovéska útþenslan þá til að Bandaríkjamenn endurnýjuðu allan tækjakost í varnarstöðinni á Keflavíkurflugvelli á níunda áratugnum og NATO reisti nýtt ratsjárkerfi á öllum landshornum.

Norðurfloti Rússa er enn sem fyrr höfuðfloti þeirra og burðarás langdræga kjarnorkuheraflans. Öryggi kafbáta þar vill herstjórn Rússa tryggja með öllum ráðum. Brjóstvörn kafbátaflotans og vernd hennar teygir sig til Íslands. 

Þegar til þess er litið má rifja upp hve mikla áherslu Rússar leggja á fótfestu við innhöfin í og við Evrópu:

Rússneska hólmlendan Kaliningrad á landamærum Litháens og Póllands er flotastöð og víghreiður við Eystrasalt. Innlimun Krímskaga í Rússland fyrir þremur árum tryggði not rússneska Svartahafsflotans af flotastöðinni í Sevastopol. Hernaður Rússa í Sýrlandi tryggði Miðjarðarhafsflota Rússa aðstöðu í Tartus-höfn þar sem þeir geta nú haft 11 herskip samtímis.

Norður-Atlantshaf er innhaf NATO og meginleið milli Evrópu og N-Ameríku. Viðvera á þessu innhafi er lykilatriði í herstjórnarstefnu Rússa og skiptir öryggi kjarnorkuflota þeirra höfuðmáli. John Andreas Olsen segir raunar að Sevasatopol og Tartus, það er innlimun Krímskaga og aðild að stríðinu í Sýrlandi, styrki úthald rússnesks flota á Atlantshafi.

Ný áskorun í varnarmálum blasir við íslenskum stjórnvöldum. Orð og yfirlýsingar duga ekki einar. Innan ramma NATO verður að huga að öryggismálum af aukinni festu og efla hernaðarlegt samstarf við Norðmenn, Breta, Bandaríkjamenn og Kanadamenn til að vernda og tryggja öryggi Íslands og á innhafi NATO, Norður-Atlantshafi.