22.7.2009

Miðvikudagur 22. 07. 09.

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna og hann var einnig birtur á amx.is. Þar ræði ég umræður um ESB-mál í Þýskalandi og hvernig Ísland tengist þeim.

Engu er líkara en hvorki Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, né Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, átti sig á því, að með umsókn um ESB-aðild eru skilin á milli utanríkismála og innanríkismála að verða að engu á milli Íslands og ESB-ríkjanna. Þeir láta báðir eins og krafa hollenska utanríkisráðherrans um, að Íslendingar axli ábyrgð vegna Icesave sé eitthvert hollenskt innanríkismál. Svo er ekki, það er ESB-mál og lausn þess er forsenda aðildar Íslands að ESB.

Þeir Össur og Steingrímur J. hafa komið sér saman um að svara á þann veg, að hollenski ráðherrann hafi ekki verið að ræða við Össur heldur kjósendur sína í gegnum Össur til að styrkja eign stöðu á heimavelli!

Spunameistarar Samfylkingarinnar láta berast til fjölmiðla, að efasemdir um Icesave-samningana séu að aukast meðal þingmanna Samfylkingarinnar. Af fréttunum má álykta, að þá megi Steingrímur J. fara að gæta sín. Skyldi hann grípa til sömu ráðstafana og Jóhanna Sigurðardóttir á dögunum, þegar hún hótaði Steingrími J. stjórnarslitum, hefði hann ekki hemil á andstæðingum ESB-aðildar meðal þingmanna vinstri-grænna?

Lilja Mósesdóttir, þingmaður vinstri-grænna, valdi þann kost, að taka ekki þátt í fundi efnahags- og skattanefndar alþingis, þar sem hún er varaformaður, þegar Icesave-samningarnir voru afgreiddir úr nefndinni. Þetta er sérkennileg aðferð til að skjóta sér undan þingmannsábyrgð. Lilja afsakaði sig með því, að hún væri ný á þingi. Hvergi er þess getið í lögum, að ábyrgð nýrra þingmanna sé önnur en hinna eldri.