22.7.2009

Ísland, Þýskaland og ESB.

 

 

Nokkrar umræður hafa orðið um afstöðu þýskra stjórnvalda og stjórnmálamanna til umsóknar Íslands um aðild að Evrópusambandinu (ESB). Umræðurnar endurspegla ólík viðhorf meðal þýskra stjórnmálamanna til framvindu mála innan ESB. Þýskir fræðimenn á sviði Evrópumála ræða um ESB-aðild Íslands í ljósi þróunar á Norðurskautinu og telja landið geta orðið brúarsporð fyrir ESB inn á heimskautasvæðið. Þá er bent á, að með stuðningi við aðild Íslands að ESB kunni Þjóðverjar að ná langþráðu markmiði sínu, að Noregur gangi í Evrópusambandið.

Stjórnlagadómstóllinn um Lissabon-sáttmálann.

Þýski stjórnlagadómstóllinn dæmdi hinn 30. júní sl. í máli, sem höfðað var af þýskum þingmönnum undir forystu Peters Gauweilers, þingmanns CSU, kristilegra demókrata í Bæjaralandi. Vildu þeir hafa vissu fyrir því, að þýska sambandsþingið væri ekki að brjóta gegn þýsku stjórnarskránni með því að staðfesta Lissabon-sáttmálann.

Dómstóllinn taldi þýska þinginu heimilt að staðfesta sáttmálann, þó með þeim fyrirvara, að fest yrði í þýsk lög, að sambandsþingið ætti aðild að ESB-ákvörðunum í Brussel til að tryggja að þær væru teknar á lýðræðislegan hátt. Í framhaldi af þessari niðurstöðu kröfðust þingmenn frá Bæjaralandi þess, að sambandsþingið staðfesti Lissabon-sáttmálann með því skilyrði, að hann gilti í Þýskalandi „í samræmi við ákvörðun þýska stjórnlagadómstólsins“. Þingmennirnir krefjast þess ekki, að þýska ríkisstjórnin fái umboð sambandsþingsins vegna allra ákvarðana, sem teknar eru í Brussel. Hún verði hins vegar að leita eftir þingumboði í meiriháttar málum og síðan sjá til þess, að ákvörðun þingsins standi.

CSU, Steinmeier og Ísland.

Í fréttinni í Süddeutsche Zeitung 18. júlí, þar sem sagt var frá andstöðu CSU við aðild Íslands að ESB segir Alexander Dobrindt, framkvæmdastjóri flokksins, að fyrst verði að huga að innra skipulagi ESB og ljúka við breytingar á því, áður en fleiri ríki bætist í hópinn. Hið sama sagði Markus Ferber, forystumaður í þinghópi CSU á ESB-þinginu. Hann sagði einnig: „Die EU kann nicht den Retter spielen für die isländische Wirtschaftskrise,“ það er að ESB geti ekki orðið bjargvættur vegna íslensku fjármálakrísunnar.

Blaðið segir, að í sameiginlegri kosningastefnuskrá CDU/CSU fyrir sambandsþingskosningarnar 27. september nk. sé á óbeinan hátt lagst gegn frekari stækkun ESB, þó er Króatía þar undanskilin. ESB verði að koma varanlegri skipan á innri mál sín, áður en nýtt stækkunarskref sé stigið.

Frank-Walther Steinmeier, leiðtogi þýskra jafnaðarmanna (SPD), utanríkisráðherra Þýskalands, sat fyrir svörum hjá Peter Frey, stjórnmálafréttaritara ZDF-sjónvarpsstöðvarinnar, sunnudaginn 19. júlí og þar urðu þessi orðaskipti:

Nú skulum við ræða aftur um núverandi samsteypustjórn [þ.e CDU/CSU og SPD]. Nú um helgina efndi CSU til flokksþings og mótaði sér sérstöðu í Evrópumálum. Hún snýst um þessa spurningu: Getur Ísland orðið umsóknarríki, nýtt aðildarríki ESB? Ætla mætti að utanríkisráðherrann mótaði ekki þýska utanríkisstefnu, heldur Seehofer, leiðtogi CSU.

Stefnan er mótuð af utanríkisráðherranum, og þannig hefur það verið í fjögur ár, hún er góð og hefur reynst vel að mínu mati. Að CSU hafi aðra skoðun er þeirra söluvara. Þeir verða standa fyrir henni opinberlega. Ég segi aðeins, þeir eru á rangri leið, og ég vænti þess, að frú Merkel sjái til þess, að í hennar verslun, CDU/CSU, verði lag á hlutunum og henni takist að koma CSU aftur á evrópska braut.

Þér hafið gefið Íslandi grænt ljós?

Íslenski forsætisráðherrann var fyrir skömmu hjá mér, á einum af síðustu fundunum í Brussel. Ég gaf honum signal um, að við myndum styðja aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Ísland er, það vita auðvitað allir, komið mun lengra en öll önnur umsóknarríki. Ég get ekki ímyndað mér, að frú Merkel líti þetta öðrum augum.

Af  orðnotkun Steinmeiers er augljóst, að hann hefur ekki hitt Jóhönnu Sigurðardóttur, því að hann notar orðið Premierminister um forsætisráðherra en ekki Premierministerin eins og hann hefði gert, ef hann hefði hitt konu að máli. Steinmeier hefur verið utanríkisráðherra síðan 2005 og ef til vill hitt einhvern forsætisráðherra Íslands að máli. Hvað sem því líður er ljóst af orðum hans, að hann vill að Angela Merkel sjái til þess, að CSU verði ekki með sérskoðanir í Evrópumálum.

Evrópumálin verða meðal átakaefna í þýsku kosningabaráttunni. Ísland gegnir þar aukahlutverki. Kannanir benda til, að Steinmeier og jafnaðarmenn almennt verði utan ríkisstjórnar að kosningum loknum og frjálsir demókratar (FDP) komi í þeirra stað sem samstarfsflokkur CDU/CSU.

Ísland: Fengur ESB en tap BNA.

Hinn 16. júlí birtist grein á vefsíðunni PoliticalMavens.com eftir Judith A. Klinghoffer undir fyrirsögninni: Iceland: EU Gain is U.S. Loss, það er Ísland: Fengur ESB er tap BNA. Hún telur Barack Obama ekki sýna forystu heldur sé hann sporgöngumaður á alþjóðavettvangi.  Komi það hvað best í ljós, þegar Íslendingar ákveði að hefja aðildarviðræður að ESB. Íslendingar hafi valið evruna í stað dollars, þótt þar með hafi þeir kastað sjálfstæði sínu fyrir róða og auk þess stofnað mikilvægum fiskveiðihagsmunum sínum í voða.

Í greininni er minnt á hernaðarlegt mikilvægi Íslands í síðari heimsstyrjöldinni og landið hefði verið meðal stofnaðila NATO. Nýlega hafi Friedrich-Naumann stofnunin, sem sé í tengslum við frjálsa demókrata (FDP) í Þýskalandi, gefið út greinargerð undir heitinu Bridgehead to the Arctic (Brúarsporður til Norðurskautsins). Þar komi fram, að Þjóðverjar og líklega Evrópumenn hafi áhuga á að ná tangarhaldi á Íslandi.

Brúarsporður að Norðurskautinu.

Greinargerðin, sem Klinghoffer nefnir birtist á vefsíðunni German-Foreign-Policy.com  hinn 13. maí 2009. Hún hefst á þessum orðum:

„Ráðgjafar ríkisstjórnarinnar í Berlín líta á Ísland sem „strategískan brúarsporð“ að Norðurskautinu innan vébanda ESB og vona að landið gangi í ESB. Þýska alþjóða- og öryggismálastofnunin (Stiftung Wissenschaft und Politik – Deutsches Institut für Internationale Politik und Sicherheit, SWP) styður þá kenningu, að hagstætt yrði að Ísland gengi í ESB vegna þess að Norður-Íshafið muni skipta miklu vegna auðlinda og siglinga vegna bráðnunar heimskautaíssins. Sérfræðingar spá því, að hart verði tekist á um áhrif (nýr Stórleikur) og skjóta hervæðingu á Norðurskautinu, en eyþjóðin á land að því. Ísland er NATO-ríki. Hernaðarlega var það, fram á síðustu ár, einkum tengt Bandaríkjunum. Frá því að fjármálakerfi Íslands hrundi hafa íslenskir stjórnmálamenn rætt heitt um aðild að ESB. Hugmynd er um að taka upp aðildarviðræður með hraði. Í greinargerð SWP er bent á, að beita verði „samræmdu átaki“ stjórnmálamanna og fjölmiðla til að fá Íslendinga ofan af efnasemdum sínum um ESB og til að aðild verði samþykkt í  óhjákvæmilegri þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Óraunsæi ríkisstjórnar Jóhönnu.

Í stuttu máli er greinargerðin, sem birtist á German-Foreign-Policy.com endursögn á því, sem segir í skýrslu SWP, sem samin er af dr. Carsten Schymik, sem sérhæfir sig í rannsóknum á samrunaþróun ESB. Hann segir ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur segja, að Ísland geti orðið aðili að ESB innan fjögurra ára og þá komi evra einnig til sögunnar. Þessi tímaáætlun geti staðist fræðilega en hún í raun byggð á óskhyggju.

Aðildarumsóknin sé send til ESB á óhentugum tíma. Til viðræðna við Ísland yrði stofnað í kapphlaupi við Króatíu og Tyrkland, en þær myndu einnig rekast á umsóknir frá Makedóníu, Svartfjallalandi og Albaníu. Samkvæmt reglum um jafnræði verði Ísland að skipa sér í röð á eftir þessum ríkjum. Þá verði ESB að líta til Lissabon-sáttmálans og hvort hann hlýtur staðfestingu, því að án þess leggist einhver ESB-ríki gegn stækkun sambandsins.  

Enn óraunsærri virðist sú hugmynd, að unnt verði að taka upp evru á Íslandi árið 2013. Schymik ræðir efnahagsástandið á Íslandi og segir ekkert benda til þess, að þetta tímamark náist. Hann bendir á, að takist að ráða fram úr fjármálavandanum, standi tvær hindranir eftir: Fiskur og ESB-andúð.

Hann segir, að Íslendingar hafi ekki áhuga á pólitískri hlið ESB heldur efnahagslegri þá þyrsti í nýjan gjaldmiðil. ESB hafi lagst gegn einhliða upptöku evru. Spurt hafi verið: Hve mikinn fisk þarf að borga fyrir evru? Þetta sé grundvallarspurning fyrir Íslendinga vegna mikilvægis sjávarútvegs. Erfiðast verði að ná sameiginlegri niðurstöðu um framtíð hans í viðræðum Íslendinga við ESB. Þar sé lítið svigrúm, því að ESB muni krefjast þess, að yfirráðasvæði Íslendinga verði opnað fyrir öllum ESB-ríkjum og Íslendingar verði að samþykkja það, eins og Norðmenn urðu að gera á sínum tíma. Telur dr. Carsten Schymik, að evran kosti meiri fisk en Íslendingar vilji reiða af hendi.

Hann segir, að mjög erfitt verði að leiða ESB-aðild til pólitískra lykta á Íslandi. ESB eigi hins vegar að taka umsókn Íslendinga vel vegna hagsmuna sinna á Norðurskautinu. Farsæl niðurstaða í viðræðum við Íslendinga gæti einnig dregið Noreg inn í ESB. Dr. Carsten Schymik leggur til, að ríkisstjórn Þýskalands verði virk í stuðningi sínum við aðild Íslands að ESB og rifjar upp áhuga Þjóðverja á að Noregur verði ESB-ríki.

Niðurstaða.

Sjónarhorn Íslendinga á þróun mála innan Evrópusambandsins gefur ekki rétta mynd af því, sem þar er að gerast. Innan ESB togast á sjónarmið um framtíð sambandsins. Þessi ágreiningur hefur ekkert með Ísland að gera, þótt umsókn Íslendinga geti tengst honum. Gerist það á sama hátt og nokkrir þingmenn Borgarahreyfingarinnar lögðu stein í götu ríkisstjórnarinnar í ESB-aðildarmálinu til að ná sínu fram í Icesave-málinu.

Þjóðverjar telja í sjálfu sér gott, að Ísland verði aðili að ESB. Ekki vegna íslenskra hagsmuna heldur viðleitni Þjóðverja og ESB til að koma ár sinni betur fyrir borð í Norður-Íshafinu, þar sem vænta má olíu og gass. Í þessu sambandi ber að minnast orða Carls Bildts, utanríkisráðherra Svía, að hann ætli að selja ESB aðild Íslands með vísan til hagsmuna á Norðurskautinu.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hefur rætt aðildarmál Íslands á allt annan veg en Þjóðverjar gera. Honum eru tímasetningar og skipulagsleg úrlausnarefni ofar í huga en efnið sjálft. Í áliti meirihluta utanríkismálanefndar alþingis, sem á að vera vegvísir, í aðildarumræðunum eru engin skýr og ótvíræð rök nefnd fyrir nauðsyn aðildar. Þar eru þrjú léttvæg atriði nefnd: EES-samningurinn verður sífellt „þyngri í vöfum“, Samband íslenskra sveitarfélaga getur fengið aðild að héraðanefnd ESB eftir aðild og Íslendingar verða betur settir í umhverfismálum.

Þegar þessi yfirborðsrök eru borin saman við þau sjónarmið, sem búa að baki vangaveltum manna í Þýskalandi um ESB í tengslum við aðild Íslands, sést fljótt, hversu mikil fljótaskrift er á því, sem frá íslenskum stjórnvöldum kemur um þetta mál.

Hér skal því haldið fram að lokum, að mikil skammsýni fælist í því, að Íslendinga köstuðu frá sér áhrifum og stefnumörkun varðandi Norður-Íshafið í hendur Evrópusambandsins. Íslensk utanríkisstefna á að byggjast áfram á sama grunni og reynst hefur bestur, nánum tengslum við ríki Norður-Ameríku og Evrópu, þar sem Íslendingar eiga sjálfir síðasta orð um ráðstöfun auðlinda á yfirráðasvæði sínu í hafinu umhverfis landið.