Dagbók: desember 2008

Föstudagur, 26. 12. 08. - 26.12.2008 2:59

Á andriki.is stendur hinn 25. desember:

Ef Ísland á ekki heima með evrópuþjóðum innan Evrópusambandsins að þínu mati hvar á Ísland þá heima í alþjóðasamfélaginu ef litið er til efnahagslegra, menningarlegra, pólitískra og stjórnskipulegra þátta ?

- Spurt á fundi einnar af Evrópunefndum Sjálfstæðisflokksins 22. desember 2008.

Spurningunni hér að ofan var beint til Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra sem var einn af gestum fundarins í Valhöll. Vefþjóðviljinn hefur svör Björns ekki á takteinum enda er það spurningin sjálf sem er klassík og mikilvægt sýnishorn um hugarheim forræðishyggjunnar. Hún skýrir svo vel þá nauðhyggju og trú á miðstýringu sem einkennir marga ESB-sinna.“

Ég svaraði á þann veg, að ég teldi Ísland ekki einangrað eins og málum væi nú komið. Við erum þátttakendur í alþjóðasamfélaginu á grundvelli fjölmargra alþjóðasamninga og þar á meðal við Evrópusambandið um viðskiptafrelsi og landamærafrelsi.

Styrmir Gunnarsson ritar grein á vefsíðuna www.evropunefnd.is og ræðir það hugsanleg friðkaup sjálfstæðismanna við Samfylkinguna um Evrópumálin. Styrmir segir:

„Í þeim fróðlegu umræðum, sem nú fara fram á vettvangi Sjálfstæðisflokksins um málefni Íslands og Evrópusambandsins hefur það sjónarmið komið fram, að þar sé á ferðinni friðþæging (appeasement) gagnvart Samfylkingunni til þess að koma í veg fyrir stjórnarslit. Með þeirri orðanotkun er raunverulega spurt, hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé á leið til Munchen en nú í haust voru liðin 70 ár frá því að Neville Chamberlain sneri sigri hrósandi heim til Bretlands frá Munchen með pappírsblað, sem þeir höfðu sett nafn sitt á, hann og Adolf Hitler og Chamberlain taldi að mundi tryggja frið í heiminum um okkar daga.“

Egill Helgason tók kipp, þegar hann las þetta eftir Styrmi og segir:

Björn Bjarnason hefur skrifað, oftar en einu sinni að mig minnir, að umræðu um málefni ljúki sjálfkrafa þegar annar aðilinn fer að líkja hinum við Hitler eða nasista.

Skyldi þetta líka eiga við Styrmi Gunnarsson þegar hann líkir hugsanlegum aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið við samningana í München 1938?“

Lesa meira