22.12.2021 9:22

Vonin um hjarðónæmið

Í maí fór tala nýsmitaðra yfir 400.000 á dag á Indlandi nú er talan rúmlega 5.000 á dag. Sérfræðingar segja að þarna gæti áhrifa bólusetninga og hjarðónæmis.

Í franska blaðinu Le Figaro mátti fyrr í vikunni lesa ítarlega frétt um stöðu heimsfaraldursins á Indlandi þar sem hann er á miklu undanhaldi. Fyrir nokkrum mánuðum bárust þaðan hrikalegar fréttir um að heilbrigðiskerfið hefði sligast undan fjölda veikra, geigvænlegur skortur væri á öndunarvélum og ráðaleysi ríkti meðal þess 1,4 milljarðs manna sem þarna býr. Í maí fór tala nýsmitaðra yfir 400.000 á dag á Indlandi nú er talan rúmlega 5.000 á dag. Sérfræðingar segja að þarna gæti áhrifa bólusetninga og hjarðónæmis.

Hér skal ekkert fullyrt um framhald veirumála á Indlandi. Þar eiga menn ef til vill enn eftir að kynnast ómikron-afbrigðinu sem nú setur allt á annan endann hér og í nágrannalöndum. Ísraelar, sem gjarnan eru nefndir sem fyrirmynd við bólusetningar, bjóða nú 60 ára og eldri fjórða Pfizer-skammtinn. Hér skal heldur ekkert fullyrt um hvort líta megi til Indlands og draga bjartsýnar ályktanir af því sem þar gerist. Um leið og ómikron var greint í S-Afríku hringdu viðvörunarbjöllur í Evrópu – og ekki að ástæðulausu – en þegar fréttir bárust frá S-Afríku um að ekki væri mikið að óttast vegna þess að ómikron-afbrigðið væri mildara en fyrri afbrigði var okkur sagt að taka ekki mikið mark á því. Það væri lýðfræðilegur munur á okkur og S-Afríkubúum.

Af ótta við ómikron ákvað ríkisstjórnin síðan á styðsta degi ársins, 21. 12. 2021, að skella hér í lás að nýju í von um betri tíma. Þegar afbrigðið fannst í S-Afríku var okkur sagt að bíða í að minnsta kosti tvær vikur til að heyra nánar um það. Sá tími er liðinn og nú er okkur sagt að halda í okkur andanum hér heima í þrjár vikur til að sjá hvort slá megi á áhrif afbrigðisins.

IImagesÁ indlandi hefur smitum fækkað frá yfir 400.000 á dag í maí fækkað í 5,000 í desember.

Eftir Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, var haft 21. desember á visir.is að lokun landamæranna nú mætti líkja við að hænsnahúsi væri lokað eftir að minkurinn væri kominn inn í það. Til þess ráðs ætti ekki að grípa. Kári taldi hins vegar að nýjustu ákvarðanir ríkisstjórnarinnar myndu minnka þann fjölda sem smitaðist á næstu dögum, kæmi til með að fletja kúrfuna, og minnka líkurnar á því að heilbrigðiskerfið sykki.

Hann sagði ómikron-afbrigðið væri að ná yfirhöndinni hér. Það góða við að afbrigðið dreifði sér hratt væri að innan tiltölulega skamms tíma yrðu allir búnir að sýkjast. Það liti út fyrir að vera „eina leiðin til þess að við losnum við þetta að allflestir sýkist. Við þurfum að losna. Ég held að sá möguleiki sé fyrir hendi að núna náum við loksins þessu hjarðónæmi sem menn eru búnir að vera að tala um í tvö ár og hefur reynst vera svona eins og blautt sápustykki, það kemur enginn hönd á þetta almennilega,“ sagði Kári Stefánsson á Bylgjunni 21. desember.

Þegar daginn tekur að lengja á ný vex enn einu sinni von um unnt verði að ná taki á veirunni og gera út af við hana. Til þess erum við reiðubúin enn einu sinni að laga okkur að sóttvarnakröfum. Enginn veit þó frekar en fyrri daginn hvar við dönsum næstu jól.