11.4.2023 9:40

Vilhjálmur forseti ASÍ?

Það má draga þá ályktun af þessari atburðarás allri að Vilhjálmur Birgisson verði kjörinn forseti Alþýðusambands Íslands undir lok þessa mánaðar.

Fréttir um að Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, stefni nú með félagið úr Starfsgreinasambandinu koma ekki á óvart. Henni mistókst að knýja verkalýðshreyfinguna til stuðnings við sig þegar hún hafnaði samflotinu með Starfsgreinasambandinu undir forystu Vilhjálms Birgissonar, verkalýðsleiðtoga á Akranesi, 3. desember 2022.

1381483Vilhjálmur Birgisson (t.h) og Halldór Benjamín Þorbergsson, fráfarandi framkvæmdastjóri SA, við gerð kjarasamninga í desember 2022 (mynd: mbl.is/Eggert Jóhannesson).

Stefna Vilhjálms til lausnar kjaradeilunni naut yfirgnæfandi stuðnings meðal launþega þegar hún var borin undir þá í atkvæðagreiðslu. Samningur Vilhjálms og Samtaka atvinnulífsins (SA) skapaði einnig grundvöll fyrir miðlunartillögu sáttasemjara. Tillagan leysti Sólveigu Önnu frá því að þurfa að semja. Eflingarfélagar samþykktu samning Vilhjálms og SA eins og aðrir.

Þetta allt er eitur í beinum Sólveigar Önnu og ráðið sem hún sér núna til að ná sér niðri á Vilhjálmi er að segja Eflingu úr Starfsgreinasambandinu og kannski Alþýðusambandi Íslands líka.

Það má draga þá ályktun af þessari atburðarás allri að Vilhjálmur Birgisson verði kjörinn forseti Alþýðusambands Íslands undir lok þessa mánaðar.