12.2.2023 10:49

Viðreisn vill varnarstefnu

Með þessari ályktun kemur Viðreisn til móts við þá gagnrýni að í þjóðaröryggistillögu forsætisráðherra sé skautað fram hjá varnarmálaþættinum, það er hernaðarlegum þætti þjóðaröryggis. 

Viðreisn hélt landsþing sitt 10. og 11. febrúar. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var sjálfkjörin sem formaður flokksins og naut yfir 90% stuðnings í kosningu á þinginu. Daði Már Kristófersson var endurkjörinn varaformaður og sigra mótframbjóðandann Erling Sigvaldason, forseta Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar. Í nýtt embætti ritara var kjörinn Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar í í suðvesturkjördæmi. Hann kveðst þakklátur fyrir traustið og einsetur sér að efla grasrót Viðreisnar og breikka forystuna. Sigmar hefur t.d. verulega látið að sér kveða sem talsmaður opinna landamæra gagnvart hælisleitendum.

Sigmar var kjörinn á alþingi í september 2021 og hvarf þá úr starfi fréttamanns á ríkissjónvarpinu. Þá fékk Viðreisn fimm menn kjörna og er næstminnsti af átta stjórnmálasamtökum sem eiga fulltrúa á þingi. Viðreisn var stofnuð 24. maí 2016 og fékk sjö þingmenn kjörna þá um haustið.

DSF6195-1024x683Daði Már Kristófersson, varaformaður Viðreisnar, fylgist með þegar formaðurinn, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fagnar nýkjörnum ritara, Sigmari Guðmundssyni, á landsþingi Viðreisnar 11. febrúar 2023 (mynd: vefsíða Viðreisnar).

Hvatinn að stofnun flokksins var óánægja vegna þess að á landsfundi Sjálfstæðisflokksins reyndist ekki meirihluti fyrir stuðningi við aðild Íslands að Evrópusambandinu. Síðan hefur æ minna farið fyrir ESB-aðild í boðskap Viðreisnar og bar hana ekki hátt fyrir kosningarnar í september 2021.

Landsþing flokksins eru haldin á tveggja ára fresti í ályktun sem samþykkt var laugardaginn 11. febrúar og birt er á vefsíðu flokksins segir að Viðreisn leggi „höfuðáherslu á að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið að undangengnu samþykki þjóðarinnar í almennri atkvæðagreiðslu“. Það þýði „að haldin verði fyrst þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald viðræðna og síðar um samningsdrög, þegar þau liggi fyrir“.

Engar tímasetningar eru nefndar í þessu efni enda ljóst að á alþingi nýtur þessi stefna lítils stuðnings. Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefur til dæmis fjarlægst hana en Viðreisn og Samfylking róa á svipuð mið í ESB-málum en núi með ólíkum áherslum á mikilvægi aðildar.

Þetta er athyglisverð þróun í ljósi sögunnar og tilrauna Viðreisnar í upphafi til að sanna tilverurétt sinn með árásum á ESB-stefnu Sjálfstæðisflokksins þar sem allt frá 2009 hefur verið lögð áhersla á að ekkert skref sé stigið til umsóknar um aðild að ESB nem fyrir liggi umboð þjóðarinnar til þess í atkvæðagreiðslu. Þegar Viðreisn talar um að „ljúka aðildarviðræðum“ við ESB er um vísvitandi blekkingu að ræða, þeim lauk árið 2015.

Utanríkismálanefnd alþingis fjallar nú um þingsályktunartillögu forsætisráðherra sem lögð fram í desember á grundvelli matsskýrslu frá 6. desember 2022. Að það taki nefndina meira en tvo mánuði að skila áliti um ályktunina sýnir að á hennar vegum er málið ítarlega rætt.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir situr í utanríkismálanefndinni fyrir hönd Viðreisnar og á landsþinginu nú var samþykkt að unnin yrði sérstök varnarstefna fyrir Ísland. Varnarstefnan yrði hluti af þjóðaröryggisstefnu og uppfærð með reglubundnum hætti. Með stefnunni yrði lagður grunnur að og skýrð framkvæmd, ábyrgð, fyrirkomulag stjórnsýslu og fjármögnun varnarmála Íslands. Varnarstefnan verði á ábyrgð utanríkisráðuneytisins og unnin í samráði við alþingi.

Með þessari ályktun kemur Viðreisn til móts við þá gagnrýni að í þjóðaröryggistillögu forsætisráðherra sé skautað fram hjá varnarmálaþættinum, það er hernaðarlegum þætti þjóðaröryggis. 

Að skjóta sér undan að taka á þeim þætti í þjóðaröryggisstefnu og beina varnarmálum í sérstakt hólf utan þjóðaröryggisráðs með beinum samskiptum utanríkisráðuneytisins og alþingis er óskynsamlegri lausn en að styrkja varnarstefnuþáttinn í þjóðaröryggisstefnunni sjálfri. Það hlýtur að vera meginverkefni utanríkismálanefndar nú þegar hún semur álit sitt á tillögu forsætisráðherra og gerir nauðsynlegar breytingar á henni.