14.5.2020 9:33

VG gegn NATO-steinsteypu

Þessi höfnun á mikilvægri og varanlegri mannvirkjagerð sem nýtast mun þjóðinni og bandamönnum hennar um langan aldur er líklega dúsa.

Í bókinni Hreyfing rauð og græn – saga VG 1999-2019, opinberri sögu Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs (VG) eftir Pétur Hrafn Árnason er lýst þjáningu og klofningi sem það veldur innan flokksins að treysta forystu sinni fyrir setu í ríkisstjórn og neyðast þess vegna til að standa að ákvörðunum sem brjóta gegn gömlum kreddum sem lifa innan flokksins eins og ódrepandi veirur og fá líf við ólíklegustu aðstæður. Ein af þessum kreddum er andstaða við þátttöku Íslendinga í samstarfi lýðræðisríkjanna við Norður-Atlantshaf í öryggis- og varnarmálum undir merkjum NATO.

Andstöðuna má rekja til 1949, 71 ár til baka, þegar kommúnistar gerðu atlögu að Alþingishúsinu vegna afgreiðslu NATO-aðildarinnar. Sumir VG-menn rökstyðja meira að segja andstöðu sína nú við NATO með því að þeir vilji heiðra minningu þeirra sem hlutu dóma fyrir árásina á þinghúsið!

1202339Séð yfir Helguvíkurhöfn. (Mynd: mbl.is.)

Allar götur frá 1949 hafa kommúnistar, alþýðubandalagsmenn og VG-fólk hrakist undan straumi tímans og gjörbreyttra aðstæðna með þessa afstöðu sína. Flokkurinn tók í fyrsta sinn árið 1978 þátt í ríkisstjórn án þess að setja brottför bandaríska varnarliðsins sem skilyrði. Síðan hafa flokksmenn beitt sér gegn ýmsum steinsteypu framkvæmdum sem eru til þess fallnar að auka öryggi þjóðarinnar en þeir líta á sem ögrun við sig og úrelta stefnu sína. Um miðjan níunda áratuginn sáu þeir til dæmis ofsjónum yfir að reist skyldi ný flugstöð á Keflavíkurflugvelli í samvinnu við Bandaríkjastjórn og sættu sig ekki við hana nema hún yrði minnkuð!

Á forsíðu Morgunblaðsins birtist í dag (14. maí) frétt um að vegna andstöðu innan VG hefði verið hætt við að ráðast í „stórfelldar framkvæmdir á vegum Atlantshafsbandalagsins á Suðurnesjum“. Segir blaðið um 12-18 milljarða kr. framkvæmdir að ræða meðal annars „uppbyggingu stórskipahafnar, nýrra gistirýma og vöruhúsa“. Hundruð starfa hefðu skapast vegna þessa, fyrst tímabundið vegna framkvæmda og síðan „tugir ef ekki hundruð varanlegra starfa,“ segir í frétt blaðsins.

Þessi höfnun á mikilvægri og varanlegri mannvirkjagerð sem nýtast mun þjóðinni og bandamönnum hennar um langan aldur er líklega dúsa fyrir Kolbein Óttarsson Proppé, þingmann VG, sem gegnir nú hlutverki varðmannsins gegn steinsteypu í þágu NATO innan flokksins án þess að hafa klofið sig frá meirihluta þingflokks VG eins og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, varaformaður utanríkismálanefndar alþingis, sem styður ekki ríkisstjórnina nema að eigin duttlungum.

VG-menn eru í raun hættir að færa nokkur rök opinberlega fyrir and-steinsteypustefnu sinni á Suðurnesjum. Þeir ganga líklega að því sem vísu að þeim sé sýnd meðaumkun vegna flokksveirunnar sem lifnar við ólíklegustu aðstæður. Lækningin er þó sáraeinföld og án sársauka: að leyfa heilbrigðri skynsemi að ráða.