11.12.2020 9:34

Varúð á lokametrum farsóttar

Hér hefur oftar en einu sinni verið vakið máls á því að í hvert sinn beri að vega og meta hvort of langt sé gengið við að hefta frelsi borgaranna til athafna með sóttvörnum.

Á undanförnum árum hefur Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra haft forystu um ný vinnubrögð við gerð fjárlaga. Þau draga úr fyrri spennu við afgreiðslu þeirra og dreifa ákvörðunum á lengri tíma. Það reyndist happasælt við kollsteypu efnahags- og atvinnulífsins snemma árs að ríkissjóður stóð vel og Ísland hafði endurnýjað traustið á alþjóðafjármálamörkuðum eftir áfallið 2008 og vinstri stjórnina fram til 2013.

Í áliti meirihluta fjárlaganefndar alþingis við fjárlagafrumvarpið 2021 fyrir aðra umræðu þess sem nú stendur á þingi segir meðal annars:

„Allar meginforsendur fjármálastefnu [sem mótuð var við upphaf kjörtímabilsins 2017] brustu á vormánuðum [2020] og í nýrri stefnu er lögð ofuráhersla á að mæta þeirri niðursveiflu og djúpu kreppu sem fylgdi [COVID-19-faraldrinum]. Fjárlagafrumvarpið 2021 markast mjög af viðbrögðum stjórnvalda við áhrifum kreppunnar og þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir. Markmið stjórnvalda er að beita ríkisfjármálunum af fullum þunga til þess að vinna bug á þeim erfiðu aðstæðum sem þjóðin stendur andspænis. Áhrifin koma skýrt fram á bæði tekju- og gjaldahlið.

Markmið ríkisfjármálastefnunnar eins og þau birtast í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021 eru af þrennum toga. Í fyrsta lagi að grípa til kröftugra mótvægisaðgerða til að vega upp á móti efnahagslegum áhrifum sóttvarnaaðgerða. Í öðru lagi að leyfa svokölluðum sjálfvirkum sveiflujöfnurum að virka til fulls til mótvægis við niðursveiflu í hagkerfinu. Það gerist m.a. með auknum útgjöldum vegna atvinnuleysis og í formi minni skatttekna. Í þriðja lagi hefur ekki verið dregið úr opinberri þjónustu þrátt fyrir tekjutap ríkissjóðs. Þvert á móti hefur stuðningur við ýmis úrræði verið aukinn. Leiðarljósið við stefnumörkunina er að stuðla að efnahagslegum stöðugleika sem er meðal grunngilda um opinber fjármál.“

Engum blöðum er um það að fletta að stig af stigi hefur ríkisstjórnin gripið til aðgerða sem halda þjóðlífinu á réttum efnahagslegum kili þrátt fyrir farsóttina. Undan því verður ekki vikist að áhrif sóttarinnar koma misjafnlega niður á atvinnugreinum, fyrirtækjum og einstaklingum. Mestu munar þar um að ferðalög milli landa hafa að tekið á sig þann svip að aðeins brýnustu ferðir eru farnar.

106717234-16010338652020-09-25t020728z_2132933524_rc2e5j92ltke_rtrmadp_0_health-coronavirus-usaHér hefur oftar en einu sinni verið vakið máls á því að í hvert sinn beri að vega og meta hvort of langt sé gengið við að hefta frelsi borgaranna til athafna með sóttvörnum, ekki megi beita svo hörðum aðgerðum að lækningin verði sjúklingnum þungbærari en sjúkdómurinn.

Þarna getur meðalhófið verið vandratað og vafatilvik valdið deilum eins og nú um hvort opna skuli líkamsræktarstöðvar þegar sundstaðir hafa verið opnaðir. Raunar telur Kári Stefánsson of mikla áhættu tekna með því að hleypa mönnum í sund. Varnaðarorð hans um það efni urðu meðal annars til þess að halda aftur af mér.

Mestu skiptir að fara sér í engu óðslega á lokametrunum heldur leggja höfuðkapp á að fá bóluefni hingað sem allra fyrst. Eftir hverju er beðið? Af hverju er ekki farið að fordæmi Breta?