8.3.2022 10:13

Varanleg viðvera þá og nú

Almenn skynsemi segir að breytingin í okkar heimshluta sé í þá átt að nú þurfi jafnvel meiri stöðuga viðveru herafla á Íslandi en Albert Jónsson fór fram á fyrri helmingi annars áratugar aldarinnar.

Í Morgunblaðinu í dag (8. mars) er vitnað í Albert Jónsson, fv. sendiherra og sérfræðing í varnar- og öryggismálum, sem segi enga beina stríðsógn vofa yfir Íslandi og ólíklegt að það gerist nema þriðja heimsstyrjöldin brytist út. Tal um fasta viðveru varnarliðs hér á landi sé óþörf og mögulega óþarfleg.

Á sínum tíma fór Albert Jónsson fyrir viðræðum við Bandaríkjastjórn til að fylgja fram þeirri stefnu ríkisstjórnar Íslands að ekki yrði bundinn endir á fasta viðveru bandaríska varnarliðsins í Keflavíkurstöðinni. Rökin þá voru þau að hvað sem liði samstarfi við Rússa á vettvangi NATO og engum hernaðarlegum mætti Rússa til að láta að sér kveða á Norður-Atlantshafi væri nauðsynlegt með vísan til íslenskra öryggishagsmuna að á Keflavíkurflugvelli væru bandarískar orrustuþotur og mannafli til að sinna þeim.

Íslensk stjórnvöld höfðu ekki erindi sem erfiði þrátt fyrir rökfestu og harðfylgi Alberts. Varnarliðið hvarf héðan 30. september 2006. Síðan hafa samningamenn Bandaríkjastjórnar og aðrir talsmenn hennar sagt að skammtímasjónarmið hafi ráðið í Washington, brottförin héðan hafi verið misráðin.

Nú er staðan í öryggismálum Evrópu allt önnur en á árunum 2002 til 2006, stríð geisar í austurhluta álfunnar, allar bandalagsþjóðir NATO telja nauðsynlegt að endurskoða stefnu sína og áætlanir. Norrænu ríkisstjórnirnar taka hver um sig ákvarðanir sem marka vatnaskil: Svíar og Finnar færast sífellt nær NATO-aðild, Danir verða við óskum Bandaríkjastjórnar um land undir herstöð og vilja eiga fyrirvaralaust varnarsamstarf við önnur ESB-ríki; Norðmenn taka í notkun nýjar orrustuvélar og kafbátaleitarvélar í norðri og heimila Bandaríkjaher viðveru í landi sínu sem ekki var áður.

Almenn skynsemi segir að breytingin í okkar heimshluta sé í þá átt að nú þurfi jafnvel meiri stöðuga viðveru herafla á Íslandi en Albert Jónsson fór fram á fyrri helmingi annars áratugar aldarinnar. Nú telur hann hins vegar óþarft eða jafnvel óþarflegt að ræða fasta viðveru varnarliðs í landinu!

Safe_image.php_1646734179719Baldiur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

Í Morgunblaðinu segir að Albert Jónsson svari með orðum sínum skoðunum sem Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ, hefur hreyft. Baldur segir á Facebook-síðu sinni í dag:

„Það er mikið vanmat að telja að öryggismál á Íslandi hafi ekki breyst frá því að varnarliðið fór árið 2006 og að Ísland þurfi bara varnarlið komi til þriðju heimsstyrjaldar. Auk þess að það er enginn að spá að til hennar komi. Mikilvægast í vörnum landsins er að fæla óvinasveitir frá því að ráðast á landið. Þar er allt undir. Fæla þarf óvinasveitir frá því að klippa á sæstrengi, gera allsherjar netárás, koma í veg fyrir birgðaflutninga til landsins eða gera litlar sem stórar árásir með vopnum. Eru menn búnir að gleyma hryðjuverkaógninni?“

Hér skal tekið undir þessi orð Baldurs.

Endurmat á hættum og stefnu í öryggismálum er nauðsynlegt. Leiði slíkt mat nú til þess að minni þörf sé á varanlegri viðveru herafla á Íslandi en fyrir 20 árum er nauðsynlegt að spyrja um forritið.