1.1.2023 11:24

Vandræði hátignanna og veröldin

Að fjölskylduvandræðin séu básúnuð og mun stærri málefni í áramótaboðskapnum hverfi í skuggann er síður en svo heppilegt.

Vandræði í konungsfjölskyldu Danmerkur setja svip á fréttir um áramótaávarp Margrétar 2. drottningar. Hún sagði vandræði og sundurþykkju geta orðið í öllum fjölskyldum, einnig hennar sjálfrar. Það tæki hana sárt að snurða hefði hlaupið á þráðinn í samskiptum við Jóakim prins og Maríu prinsessu.

DrMargrét drottning hefur ákveðið að fjögur börn Jóakims skuli frá 1. janúar 2023 ekki lengur vera prinsar og prinsessa. (Mynd: Philip Davali/Ritzau Scanpix) (Foto: © Philip Davali, Ritzau Scanpix)

Danska ríkisútvarpið DR ræddi við Cecilie Nielsen, sagnfræðing og sérfræðing um konungsfjölskylduna, sem segist undrandi á því hve nákvæm drottningin hafi verið þegar hún nefndi Jóakim og Maríu, sjálf hefði hún búist við almennari ummælum.

Annar sérfræðingur í málefnum konungsfjölskyldunnar Thomas Larsen á Radio4 segir það hafa verið „ótrúlega klókt“ af drottningunni að ganga svona hreint til verks og viðurkenna ósamkomulagið, öll þjóðin hafi fylgst með því sem gerðist innan fjölskyldunnar haustið 2022.

Þessum kafla ræðu sinnar lauk Margrét drottning með þeim orðum að innan fjölskyldunnar hefði nú gefist tóm til að hugsa málið og hún væri viss um að þau gengju með trúnaðartrausti, skilningi og nýju hugrekki inn í nýtt ár.

Að þetta skuli talið helsti fréttapunkturinn í ávarpi drottningar sýnir enn að allt sem snýst um hana og fjölskyldu hennar snertir mjög tilfinningar Dana.

Sé litið til Bretlands og á fréttir þaðan á liðnu ári falla tíð skipti á forsætisráðherrum og vandræði Íhaldsflokksins í skuggann á öllu sem snertir konungsfjölskylduna. Allur heimurinn fylgdist með andláti Elísabetar 2. og útför hennar. Að áhuginn sé jafnmikill á uppátækjum Harrys og Megan skal dregið í efa. Þau eru of sjálfhverf. Karl 3. Bretakonungur getur ekki eins og Margrét 2. Danadrottning gefið vonir um sættir innan fjölskyldu sinnar á nýbyrjuðu ári.

Að ræða vandræði hátignanna kann að skapa þeim samúð en líklegt er að yfirþyrmandi fréttaflutningur af þeim verði til þess að fleiri en áður spyrji sig hvort þetta prjál og dramað í kringum það gangi sér til húðar. Fjölskyldurnar þoli ekki nálægð fjölmiðlanna og hnýsnina.

Að fjölskylduvandræðin séu básúnuð og mun stærri málefni í áramótaboðskapnum hverfi í skuggann er síður en svo heppilegt.

Margrét 2. ræddi um þróun heimsmála í ávarpi sínu og vék að sríðinu í Úkraínu og afleiðingum þess. Hún sagði:

„Öryggisleysið sem setur svip á heiminn birtist einnig á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum (d. Arktis). Bæði í Færeyjum og Grænlandi fylgist fólk spennt með þróuninni alveg eins og við gerum hér í Danmörku. Lýðræðislegu gildin og samstaðan meðal þjóða okkar er öflug. Það er ef til vill mikilvægara nú en nokkru sinni.“

Þarna fer ekkert á milli mála og er í samræmi við þá skoðun að hér á Norður-Atlantshafi sé okkur nauðsynlegt að fylgjast náið með framvindu öryggismála, íhuga og grípa til nýrra ráðstafana til að verja lýðræðislegu gildin og treysta samvinnu við friðsama og frelsisunnandi nágranna okkar.

Gleðilegt ár!