10.2.2023 9:48

Úrganginn til útlanda

Hvarvetna þar sem borið er niður núna, ef marka má fréttir, blasa við stjórnsýsluleg vandamál sem rekja mál til þess hve stjórnkerfi eru óskilvirk, hægfara og flækjufótar margir.

Umhverfisstofnun segir heildarmagn úrgangs á Íslandi árið 2021 hafa verið 1,3 milljónir tonna og 54% af öllum úrgangi nýtist sem fyllingarefni innanlands. Næst mest, 20%, fer í endurvinnslu til útlanda, til dæmis plast og pappír. 13% eru urðuð hér á landi. 8% lenda í flokknum önnur endurnýting innanlands, meðal annars endurnýting á timbri og malbiki. 2% fara í moltugerð hér innanlands, 1% er brennt með orkunýtingu erlendis og loks er 1% brennt án orkunýtingar hér á landi.

Helga Ósk Eggertsdóttir, fjármála- og flutningafulltrúi hjá norska auðlindastjórnunarfyrirtækinu Geminor AS, segir í grein í Morgunblaðinu í dag (10. febrúar) að skortur á úrgangi sé nú meiri en nokkru sinni fyrr hjá fjölmörgum sorpbrennslustöðvum til orkuframleiðslu í Skandinavíu og ESB. Flest lönd innan ESB „leiti“ eftir meiri úrgangsauðlindum, aukin eftirspurn skapi nýjar markaðsaðstæður.

Meirihluti urðaðs úrgangs hentar vel til orkunýtingar og er verðmæt vara að mati Helgu Óskar. Ódýrara sé að flytja íslenskan úrgang til Evrópu en urða hann. Flytja megi ballaðan úrgang í gámum sem annars færu tómir til Evrópu. Þessi skilaflutningur sé ekki bara ódýrari en venjulegur flutningur heldur minnki hann CO 2 -fótspor skipafélaganna og geri flutninginn sjálfbærari. Eftir standi pólitískur vilji til að senda meira af íslenskum úrgangi til útlanda.

Lesandinn spyr sig: Af hverju pólitískur vilji? Jú, vegna þess að sveitarstjórnarmenn ráða þarna mestu og ákveða að lokum hvað gert skuli við sorpið.

1246123Mynd mbl.is

Á aðventunni var samþykkt og undirrituð ný sameiginleg svæðisáætlun fjögurra sorpsamlaga og 32 sveitarfélaga á suðvesturhluta landsins og gildir hún til ársins 2033. Í ár taka ný „hringrásarlög“ gildi sem krefjast svæðisáætlana um meðferð á úrgangi og úrgangsstjórnun.

Hvarvetna þar sem borið er niður núna, ef marka má fréttir, blasa við stjórnsýsluleg vandamál sem rekja mál til þess hve stjórnkerfi eru óskilvirk, hægfara og flækjufótar margir.

Frétt Morgunblaðsins í dag af viðskiptaþingi sem haldið var 9. febrúar hefst á þessum orðum:

„Vandséð er hvort Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar og markmið um kolefnishlutleysi. Seinleg stjórnsýsla, skortur á regluverki og hömlur á erlendri fjárfestingu eru allt hindranir sem ryðja þarf úr vegi svo markmiðin standist.“

Stjórnsýsla vegna sjókvíaeldis er dæmd ónýt og ríkisendurskoðandi segir að hér hafi skort hæfni til að móta viðunandi lög og reglur um atvinnugreinina. Þetta er þungur áfellisdómur.

Færeyingar hafa skapað eitt besta regluverk á þessu sviði og framleiða besta sjóeldislax í heimi. Fyrir tæpu ári fór fjölmennur hópur fiskeldisfólks og embættismanna undir forystu Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra í fræðsluferð um fiskeldi og opinbert regluverk til Færeyja.

Hér er eindregið mælt með því að sveitarfélögin 32 á suðvesturhluta landsins grípi tillögu Helgu Óskar Eggertsdóttur á lofti og hefji strax úrgangsútflutning.