27.4.2018 15:47

Úr Helfarar-safni í Fæðingarkirkju.

Stefán Einar Stefánsson fararstjóri benti okkur til dæmis á að á einni marmarasúlunni á leið inn í Fæðingarkirkjuna má sjá móta fyrir helgimynd af Ólafi helga.

Þriðji dagurinn í Jerúsalem hófst á ferð með léttlest sem kennd er við Herzl-fjall og fer úr miðborginni til Helfarar-safnsins þar sem við dvöldumst fram yfir hádegi.

Safnið er í glæsilegri umgjörð og einstaklega vel gert fyrir þá sem vilja kynna sér örlög gyðinga og helförina sérstaklega. Kapp er lagt á að safna nöfnum allra sem urðu nasistum að bráð og eru nú um 4,5 milljón nöfn í vörslu safnsins. Nokkrar hillur eru enn auðar því að á aðra milljón nafna vantar enn.

IMG_5924Helfarar-safnið.

Allt er gert á einstaklega vandaðan og tákrænan hátt til að sýna minningu hinna látnu virðingu en einnig til að minna okkur sem skoðum safnið á að mikil grimmd getur gripið um sig innan menningarþjóða og mikils virði er að vinna skipulega gegn harðstjórn og einræði.

Frá safninu ókum við sem leið lá til Betlehem sem er í Palestínu. Engin töf var við landamærin og ekki óskað eftir að sýnd væru vegabréf.

Í Betlehem beið okkar leiðsögukona sem fór með okkur í Fæðingarkirkjuna. Þar var tveggja tíma bið eftir að komast niður í hellinn undir henni þar sem María ól Jesú. Þar sem við vorum ekki í beinni pílagrímaför eins og þeir sem biðu í röðinni fórum við þess í stað í skoðunarferð um kirkjuna eða kirkjunnar þrjár og nutum góðrar leiðsagnar kristinnar heimakonunnar.

Fæðingarkirkjan er elsta kirkjan á þessum slóðum, hún hefur staðið frá því á 7. öld. Grísk-orþodoxar ráða sjálfri Fæðingarkirkjunni, þar við hliðina er lítil kirkja Armena og síðan er komið inn í stóra og bjarta kirkju Fransiskumunka. Þeir fá að syngja morgunmessu hvern dag í helli Fæðingarkirkjunnar en annars halda þeir sig í eigin kirkju. Undir henni er hellir sem á sameiginlegan brunn með fæðingarhellinum og er sagt að Jósep hafi fyrst komið þangað en síðan talið betra að búa um Maríu, heitkonu sína, í helli við hliðina og þar fæddist Jesús.

IMG_5963Minningarskjöldur um heilagan Híerónýmus kirkjuföður í hellinum þar sem hann dvaldist í 30 ár.

Í þessum helli dvaldist mikli lærdómsmaðurinn Híerónýmus kirkjufaðir (340?-420) í 30 ár við að þýða Gamla testamentið úr hebresku yfir á latínu, en ásamt Nýja testamentinu, sem hann lauk við að snúa úr grísku áður en hann kom til Palestínu, er það texti Vúlgötu. Er minningarskjöldur um hann þarna og fólk kemur til að votta Híerónýmusi virðingu sína.

Fæðingarkirkjan ber þess glögg merki að þar voru krossfarar. Skraut hennar er þess eðlis. Stefán Einar Stefánsson fararstjóri benti okkur til dæmis á að á einni marmarasúlunni á leið inn í kirkjuna má sjá móta fyrir helgimynd af Ólafi helga sem sýnir hve fljótt hann náði átrúnaði manna og fluttu krossfarar hann með sér til Betlehem fyrir um 900 árum.

IMG_5931IMG_5933Myndin er af súlunni sem talin er bera mynd Ólafs helga

Þá var ekið með okkur í lítið þorp nálægt Betlehem þar sem hirðingjarnir voru og gættu hjarða sinna þegar þeim barst fagnaðarboðskapurinn um að frelsarinn væri fæddur. Var mikil helgi yfir þeim stað sem er í vörslu Fransisku-munka og messuðu þeir víða og mátti heyra sálmasöng úr öllum áttum.

IMG_5991Úr helli hjarðmannanna.

Veðrið var í samræmi við birtuna og vonina sem var yfir ferð okkar til Betlehem.