2.5.2021 10:35

Uppgjör Kjartans við sósíalismann

Raunsætt mat Kjartans á hugsjónum sósíalismans og þeim sem hann boðuðu af trúarhita hér á enn erindi inn í samtímann á Íslandi þótt undarlegt sé miðað við blóðuga reynslu síðustu aldar.

Egill Helgason ræddi við Kjartan Ólafsson, fyrrv. ritstjóra Þjóðviljans og alþingismann, í sjónvarpsþættinum Kiljunni miðvikudaginn 28. apríl 2021. Útdráttur úr samtali þeirra birtist á vefsíðunni ruv.is laugardaginn 1. maí og er stuðst við hann hér.

Tilefni samtals þeirra Egils var að Kjartan sendi á liðnum vetri frá sér bókina Draumar og veruleiki um sögu kommúnistahreyfingarinnar á Íslandi. Sagði Egill að Kjartan væri „eini maðurinn enn á lífi úr innsta hring Sósíalistaflokksins“ sem varð til á grunni Kommúnistaflokksins. Alþýðubandalagið tók við af Sósíalistaflokknum og síðan vinstri-grænir af leifum Alþýðubandalagsins.

GID15OA08Jósep Stalín og Nikita Khrutsjov.

Kjartan segir kommúnistana og sósíalistana hafa verið sannfærða um að draumar þeirra „vísuðu veginn til framtíðarinnar og þessa mikla þjóðfélags jafnréttis og réttlætis“. Veruleikinn birtist hins vegar í Sovétríkjunum og leppríkjum þeirra „eins langt frá þessu upphafi og draumum eins og hægt er að komast“.

Mörgum hafi þó verið erfitt að láta af Sovéttrúnaðinum, þetta „hlyti að lokum að komast í rétta höfn þó eitthvað bæri út af á leiðinni“. Kjartan segist aldrei hafa verið haldinn „þessu trúarlega viðhorfi sjálfur“.

Hreyfingin hafi verið „þrælsterk“ á meðan hún lifði með verkalýðsforystu og menntamenn í broddi fylkingar, skáld og listmálara. Halldór Laxness hafi haldið tryggð við Sovétríkin til ársins 1956 þegar Khrutsjov gerði upp við Stalín og Sovétstjórnin sendi skriðdreka inn í Búdapest til bæla niður byltingu Ungverja.

Þegar Kjartan nefnir sósíalismann segist hann ekkert vera „mikið fyrir hugsjónir“ hann líti frekar til þess sem er:

„Menn hugsuðu sem svo: Ef búið er að útrýma arðráninu og stéttaandstæðunni þá verða allir góðir hver við annan. En það er einu sinni svo að mannskepnan er miklu flóknari en þetta. Hún er hvort tveggja í senn, góð og ill, og þannig mun það ætíð vera hvernig sem þjóðskipulagið kann að vera.

Ég vil ekki gera lítið úr þessum ágætu hugsjónamönnum sem voru mínir lærifeður þegar ég var unglingur, þetta voru að mestu leyti ágætir menn og alveg sérstaklega þetta - að skara aldrei eld að eigin köku og fórna öllu mögulegu fyrir sínar eigin hugsjónir.“

Kjartan segist bera virðingu fyrir þeim sem aðhylltust þessa hugsjón, „en ég hef auðvitað allt annan skilning á manneskjunni en þeir höfðu.“

Raunsætt mat Kjartans á hugsjónum sósíalismans og þeim sem hann boðuðu af trúarhita hér á enn erindi inn í samtímann á Íslandi þótt undarlegt sé miðað við blóðuga reynslu síðustu aldar. Þessu til sönnunar nægir til dæmis að lesa það sem Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar stéttarfélags, hafði fram að færa 1. maí 2021 og endurómar meðal annars hjá Drífu Snædal, forseta ASÍ. Hvort sem hugsjónir ráða hjá þeim eða ekki boða þær gjaldþrota stefnu. Í hópi sósíalista á Íslandi samtímans eru síðan einstaklingar sem nota hugsjónina til að skara eld að eigin köku og skilja sig þannig frá forverunum sem Kjartan Ólafsson þekkti.