1.7.2021 10:32

Umferðarhnútar hér og þar

Æki ég með erlenda gesti austur fyrir fjall núna er staðan önnur vegna flöskuhálsins sem myndast á milli Hveragerðis og Selfoss.

Fyrir nokkrum árum ók ég með franskt vinafólk austur fyrir fjall. Þau spurðu hvað við yrðum lengi á leiðinni á áfangastað. Ég upplýsti þau um það. Að ferð lokinni höfðu þau sérstaklega á orði að tímasetningar hefðu staðist. Í Frakklandi væru umferðarhnútar algengir og ekkert unnt að fullyrða um lengd ferðatíma í bíl. Æki ég með erlenda gesti austur fyrir fjall núna er staðan önnur vegna flöskuhálsins sem myndast á milli Hveragerðis og Selfoss og hve langan tíma tekur að komast yfir Ölfusárbrúna og austur í gegnum Selfoss.

Í Morgunblaðinu í dag (1. júlí) birtist grein eftir Bjarna Reynisson skipulagsfræðing um umferð og umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir frá könnun sem MMR gerði fyrir samtökin Samgöngur fyrir alla í maí með þátttöku 611 svarenda.

Samkvæmt henni ferðast 79% höfuðborgarbúa 18 ára og eldri yfirleitt með einkabíl, 8% fara gangandi, 5% nota strætó, 6% nota ýmsar gerðir hjóla og 2% nota aðra ferðamáta. Meðalferðatími frá heimili til vinnu var tæplega 12 og hálf mínúta. Með bíl tók ferðin um 11 mínútur, strætó tók 28 mínútur, 10 mínútur tók að fara gangandi og hjólreiðaferðin tók 15 mínútur. Þegar spurt var um umferðartafir töldu 64% svarenda sem tóku afstöðu að umferðartafir væru mikið vandamál en aðeins 36% töldu þær ekki mikið vandamál.

Bjarni Reynarsson segir greinilegt af niðurstöðum könnunarinnar að þegar svarendur standi frammi fyrir upplýsingum um umferðartafir og hindranir fyrir umferð bíla minnki stuðningur þeirra verulega við borgarlínuverkefnið. Um 75% þeirra sem tóku afstöðu töldu að til væru ódýrari og jafn hagkvæmar lausnir til að bæta almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu og borgarlína. Um 62% þeirra sem tóku afstöðu töldu að þeir myndu aldrei, mánaðarlega eða sjaldnar, nota borgarlínuna.

Merkilegt er að sjá að stuðningsmenn Samfylkingarinnar töldu að þeir tefðust ekki nema um 5 mínútur í umferðinni á virkum degi en stuðningsmenn Miðflokksins um 18 mínútur, en meðaltalið var 11 mínútur! segir Bjarni.

Borgarlínumenn eiga erfitt verk fyrir höndum við að sannfæra skattgreiðendur á höfuðborgarsvæðinu um réttmæti þess að verja fé þeirra í þessa dýru framkvæmd.

Forsida_Olfusarbru_2Á þessari mynd má annars vegar sjá gömlu brúna yfir Ölfusá sem leiðir alla umferð beint inn í bæinn og hins vegar teikningu af nýju brúnni austar og ofar í ánni. Hún á að verða gjaldskyld og sögð koma árið 2024 - stenst það?

Ráði flokkspólitísk viðhorf mati á tímatöfum í umferðinni verður seint sameinast um hve lengi vegfarendur tefjast vegna aksturs um Ölfusárbrúna og Selfoss. Sjálfur hef ég kynnst 15 til 20 mínútna töf og heyrt um allt að 45 mínútum.

Miklar vegaframkvæmdir eru nú fyrir vestan Selfoss. Þeim á verða lokið 2023 – en hvað um nýja, gjaldskylda brú? Verður henni lokið árið 2024 eins og boðað hefur verið? Hve lengi þessi brýna framkvæmd hefur tafist er óskiljanlegt.

Þar til nýja brúin kemur ætti að setja skilti í Svínahrauni á vegamótum Þrengslavegar sem sýnir biðtíma á veginum vestan við Selfoss. Það mundi auðvelda ökumönnum að ákveða hvort þeir fari yfir Hellisheiðina eða um Þrengslin og yfir Ölfusá við neðri brúna skammt frá Þorlákshöfn. Í því fælist sjálfsögð þjónusta.