30.7.2019 9:44

Um áherslur í orkupakkastríði

Í tilefni af öllu þessu skal hér ítrekuð spurningin: Hvert er valdaframsalið?

Tvær aðsendar greinar birtast í Morgunblaðinu í dag (30. júlí) og snúast báðar um baráttumál blaðsins, andstöðuna gegn þriðja orkupakkanum.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, skrifar grein þar sem hann hrærir öllu saman, Icesave, orkupakkanum og frystu kjöti. Úr verður ófrýnileg skepna sem á ekkert skylt við efni þriðja orkupakkans en þjónar pólitískum tilgangi Miðflokksins: Ófreskja herjar á þjóðina. Aðeins einn hópur manna snýst gegn skrímslinu, Klausturriddararnir fræknu.

Við hlið grein Bergþórs á miðopnu Morgunblaðsins dregur Friðrik Daníelsson, stjórnarmaður í Frjálsu landi, upp aðra hryllingsmynd. Hún lýsir þróun orkumála innan ESB. Hann segir „orkukreppu“ fara dýpkandi innan Evrópusambandsins. Lokaorðin eru:

„Ísland hefur vegna EES verið að dragast með inn í orkukreppu ESB og versnar ástandið með hverju nýju valdboði, „orkupökkum“, frá ESB.“

Engin rök eru færð fyrir þessari fullyrðingu frekar en sleggjudómum almennt. Frjálst land er félag fáeinna manna sem berjast opinberlega gegn aðild Íslands að EES og eiga samleið með norsku samtökunum Nei til EU sem hafa beitt sér hér á landi meðal annars með tilstyrk Friðriks og félaga.

Í Staksteinum blaðsins er vitnað í Styrmi Gunnarsson sem í krafti þriðja orkupakkans leggur áherslu á gamalkunna skoðun sína um að mál séu ekki rædd nógu mikið á vettvangi Sjálfstæðisflokksins, efna beri til fleiri funda til að skiptast á skoðunum.

Orkupakkinn-printFullyrðingar um að ráðherrar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi ekki rætt um þriðja orkupakkann á fundum með flokksmönnum standast ekki. Fundirnir hafa verið fjölmennari en útifundir Orkunnar okkar á Austurvelli.

Í lok Staksteina áréttar blaðið þá skoðun sína að með stuðningi við þriðja orkupakkann hafi þingflokkur sjálfstæðismanna ályktun landsfundar að engu og að Bjarni Benediktsson hafi horfið frá yfirlýsingum sínum „á þingi um orkupakkann og enn skýringarlaust“ eins og segir í ritstjórnardálkinum.

Ályktun landsfundarins sem þarna er nefnd snerist um andstöðu við framsal á valdi. Ekkert slíkt felst í tillögum sem nú liggja fyrir alþingi frá ráðherrum Sjálfstæðisflokksins og þingflokkur þeirra hefur samþykkt.

Bjarni Benediktsson hefur oftar en einu sinni skýrt umræddar yfirlýsingar sínar á þing. Hann gaf þær á alþingi þegar hann svaraði fyrirspurn Þorsteins Víglundssonar, þingmanns Viðreisnar, um hvað fælist í landsfundarályktun sjálfstæðismanna. Bjarni skýrði efni ályktunarinnar og þar með andstöðuna við framsal á valdi í orkumálum. Stuðningur við þriðja orkupakkann gengur hvorki gegn orðum flokksformannsins né ályktun landsfundarins. Það hefur margsinnis verið skýrt á skilmerkilegan hátt.

Í tilefni af öllu þessu skal hér ítrekuð spurningin: Hvert er valdaframsalið? Þrjár greinar í Morgunblaðinu þriðjudaginn 30. júlí 2019 geyma því miður engar skýringar á þessu lykilatriði. Ein er til stuðnings upprisu Miðflokksins, önnur um andstöðu við EES og sú þriðja um skort á umræðum innan Sjálfstæðisflokksins. Það leynist margt í þriðja orkupakkanum en þó ekkert valdaframsal.