21.1.2023 11:30

Úkraínuklemma Þjóðverja

Scholz og áhrifamenn innan hans eigin Jafnaðarmannaflokks og annarra þýskra flokka vilja í raun frekar friðmælast við Rússa en sýna þeim í tvo heimana.

Olaf Scholz Þýskalandskanslari var á fundi stjórnmála- og fjármálamanna í alpabænum Davos í Sviss í vikunni. Orð hans þar voru túlkuð á þann veg að þýska stjórnin ætlaði að senda Úkraínumönnum Leopard 2 skriðdreka.

Reyndi á vilja Þjóðverja í þessu efni föstudaginn 20. janúar í bandarísku flugherstöðinni í Ramstein í Þýskalandi þar sem fulltrúar um 50 ríkja áréttuðu stuðning sinn við Úkraínu með fleiri og þyngri vopnum.

Það dró athygli frá niðurstöðunni í Ramstein að Þjóðverjar hika enn þegar kemur að Leopard 2 skriðdrekunum. Neitun þeirra er óskiljanleg öðrum en Þjóðverjum sem glíma við drauga úr eigin sögu. Einn netvinur sendi bréf:

„Nú er komin fjórða stoðin undir þýska utanríkismálastefnu. Í viðbót við Zumutung, Hochmut und Heuchelei, er nú komin hin fjórða, Feigheit: Heimtufrekja, hroki, hræsni og hugleysi.“

Út á við lætur Scholz eins og þýsku skriðdrekarnir hreyfist ekki nema Bandaríkjaher sendi Abrams skriðdreka sína á vettvang. Um 3.000 Leopard 2 skriðdrekar eru í 13 Evrópulöndum, smíðaðir á sínum tíma til að takast á við rússneska skriðdreka innrásarhers Pútins nú í Úkraínu.

Scholz og áhrifamenn innan hans eigin Jafnaðarmannaflokks og annarra þýskra flokka vilja í raun frekar friðmælast við Rússa en sýna þeim í tvo heimana. Segjast óttast stigmögnun átaka.

Úkraínumenn svara og spyrja: Hvaða stigmögnun? Hvernig er unnt að ganga lengra en senda dögum, vikum og mánuðum saman sprengjur á almenna borgara og grunnvirki samfélagsins, sjúkrahús, leikskóla og íbúðahverfi? Þetta geri Rússar nú þegar.

230120a-002Þórdís Kolbrún, Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Jens Stoltenberg, frkvstj. Atlantshafsbandalagsins, og Oleksii Reznikov, varnarmálaráðherra Úkraínu. (mynd: NATO)

Timothy Garton Ash, breskur sagnfræðingur, rithöfundur, álitsgjafi og prófessor í Evrópufræðum við Oxford háskóla, birti í vikunni grein í breska blaðinu The Guardian sem lesa má hér. Fyrirsögn hennar er: If Germany has truly learned from its history, it will send tanks to defend Ukraine – Hafi Þjóðverjar í raun lært af eigin sögu eiga þeir að senda skriðdreka til varnar Úkraínu.

Prófessorinn verður seint sakaður um að sýna Þjóðverjum óvild. Honum er hins vegar nú nóg boðið vegna hiksins og vandræðagangsins í Berlín. Hann segir:

„Lærdómurinn sem draga má af þeirri sögu [framgöngu hers nazista í Úkraínu] er ekki sá að aldrei eigi aftur að beita þýskum skriðdrekum gegn Rússum, sama hvað Kremlverjar taka sér fyrir hendur, heldur að þeim eigi að beita til varnar Úkraínumönnum sem voru meðal helstu fórnarlamba bæði Hitlers og Stalíns.“

Hvað sem líður afstöðu þýsku ríkisstjórnarinnar er einhugur innan hópsins sem hittist í Ramstein um að styðja Úkraínumenn til sigurs. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sat fundinn fyrir Íslands hönd og segir á vefsíðu utanríkisráðuneytisins:

„ Á fundinum hér dag var mikil samstaða og áhersla á að nú væri mikilvægur kafli í stríðinu og mikilvægt að þau sem vilja styðja Úkraínu liggi ekki á liði sínu. [...] Jafnvel þó Íslendingar hafi ekki vopn eða skotfæri til að senda til Úkraínu þá getum við aðstoðað með öðrum leiðum og það munum við halda áfram að gera.“