10.1.2022 10:01

Tuttugu ár duga ekki Degi B.

Dagur B. kom fyrst í borgarstjórn fyrir 20 árum þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri handvaldi hann sem óháðan á R-listann.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík og oddviti Samfylkingarinnar, er kominn úr sóttkví og skýrði frá því í ríkisútvarpinu að morgni mánudags 10. janúar að hann ætlaði að bjóða sig fram að nýju í borgarstjórnarkosningunum í vor.

Dagur B. kom fyrst í borgarstjórn fyrir 20 árum þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri handvaldi hann sem óháðan á R-listann. Leit Dagur B. síðan á sig sem utan flokka þar til Ingibjörg Sólrún, þá hætt sem borgarstjóri en orðin leiðtogi Samfylkingarinnar, taldi hann á að fara í prófkjör í Samfylkingunni fyrir kosningarnar 2006.

1047952Dagur B. Eggertsson borgarstjóri (mbl.is/Arnór).

Þegar Besti listi Jóns Gnarrs sveiflaðist af miklum þunga inn í borgarstjórn árið 2010 og leiðtogi hans varð borgarstjóri í samvinnu við Samfylkinguna varð Dagur B. formaður borgarráðs og hélt fast um valdataumana.

Besti listinn varð að Bjartri framtíð í borgarstjórnarkosningunum 2014 en þá leiddi Dagur B. Samfylkinguna til góðs sigurs og hlaut hún meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn sem hlaut verstu kosningu sína til borgatstjórnar. Dagur B. varð borgarstjóri 2014 í krafti meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og VG.

Fylgi Samfylkingarinnar dalaði í kosningunum 2018 en Sjálfstæðisflokkur rétti úr kútnum. Þá fjölgaði borgarfulltrúum úr 15 í 23. Dagur B. hélt áfram sem borgarstjóri en Viðreisn kom í stað Bjartrar framtíðar sem varð að engu eftir brotthlaup úr ríkisstjórn 2017. Undanfarin fjögur ár hafa Samfylking, Viðreisn, Píratar og VG átt 12 fulltrúa í borgarstjórn og stutt Dag B. sem borgarstjóra.

Bindandi flokksval verður notað um miðjan febrúar í Samfylkingunni til að velja í efstu sex sætin á lista flokksins í Reykjavík.

Má ganga að því sem vísu að Dagur B. verði valinn í efsta sæti framboðslista Samfylkingarinnar í flokksvalinu. Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, hefur verið í öðru sæti flokksins í borgarstjórn á þessu kjörtímabili en hún færðist af varamannabekk og settist í borgarstjórn árið 2015 þegar Björk Vilhelmsdóttir hætti í stjórnmálum. Í fyrra sigraði hún Helgu Völu Helgadóttur alþingismann í kosningu um varaformennsku í Samfylkingunni. Helga Vala er systir Skúla, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar. Hann stendur í ströngu sem formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur vegna margra illa ígrundaðra ákvarðana í málefnum grunn- og leikskóla.

Kjörtímabilið sem nú er að líða einkennist af mörgum mistökum í æðstu stjórnsýslu borgarinnar sem leitt hafa til kærumeðferðar í fjölmörgum málum og ámæla í garð borgaryfirvalda. Frægast er braggamálið svonefnda sem einkenndist af algjöru stjórnleysi.

Ákvarðanir um framboðslista til borgarstjórnar eru seint á ferðinni miðað við það sem oft hefur verið. Línur skýrast nú við ákvörðun borgarstjórans. Sjálfstæðisflokkurinn verður að taka af skarið um hvernig hann ætlar að velja á lista sinn. Þar er eitt nafn nefnt til forystu, Hildar Björnsdóttur, borgarfulltrúa. Þess er beðið að Vörður. fulltrúaráð sjálfstæðismanna, taki endanlega ákvörðun um fyrirkomulag prófkjörsins.