31.1.2018 10:52

Trump við lesvélina

Trump hvatti til einingar um í Bandaríkjunum og fagnaði miklum efnahagslegum árangri á fyrsta ári sínu við stjórnvölinn. Hér skulu nefnd atriði sem rata almennt ekki í fréttir þegar Trump á í hlut.

Þeir sem standa utan flokks repúblíkana í Bandaríkjunum og eru þess vegna stuðningsmenn Donalds Trumps forseta af flokkshollustu segja gjarnan þegar þeir lýsa yfir stuðningi við málstað hans að það sé munur á „Trump við teleprompterinn“ og „Trump á Twitter“.

Teleprompter er lesvél með skjám fyrir framan ræðumann sem gera honum kleift að flytja mál sitt án þess að vera bundinn við blöð. Hann talar því til áheyrenda sinna í stað þess að líta niður á blöð á púltinu. Þetta gerði Trump í stefnuræðu sinni í Bandaríkjaþingi að kvöldi þriðjudags 30. janúar.

Trump hvatti til einingar um í Bandaríkjunum og fagnaði miklum efnahagslegum árangri á fyrsta ári sínu við stjórnvölinn. Hér skulu nefnd atriði sem rata almennt ekki í fréttir þegar Trump á í hlut.

Index_1517395856603Donald Trump flytur stefnuræðu sína 30. janúar 2018,

Forsetinn leggur áherslu á að styrkja innviði samfélagsins og þetta verði meðal annars gert með því að skera niður reglufarganið sem lami framkvæmdaviljann. Fagnaði hann því að hafa fækkað reglum meira en nokkurri annarri ríkisstjórn Bandaríkjanna hefði tekist. Hann sagðist hafa bundið enda á stríðið gegn orkuvinnslu í Bandaríkjunum. Nú flyttu Bandaríkjamenn út orku. Þá hefði hann afturkallað opinberar ákvarðanir sem hefðu skaðað bandaríska bílaframleiðendur og þeir væru nú á leið aftur til Bandaríkjanna, til dæmis hefði Chrysler ákveðið að flytja stóra bílasmiðju frá Mexíkó til Michigan; Toyota og Mazda ætluðu að opna smiðjur í Alabama. Bílasmiðjum mundi fjölga víðsvegar um landið. Bandaríkjamenn væru ekki vanir að heyra fréttir af þessu tagi – fréttirnar hefðu frekar snúist um lokun vinnustaða og brottflutning starfa.

Trump vék einnig að samheitalyfjum og sagði að bandaríska lyfjastofnunin hefði samþykkt fleiri ný lyf, samheitalyf og lækningatæki en nokkru sinni áður í sögu Bandaríkjanna. Hann sagði að sjúklingar í líknarmeðferð ættu að fá að njóta tilraunameðferðar sem kynni hugsanlega að bjarga lífi þeirra. Sjúklingar í þessari stöðu ættu ekki að þurfa að fara land úr landi til að leita sér lækninga þeir ættu að njóta þeirra í Bandaríkjunum. Þá hét forsetinn því að beita sér fyrir lækkun á lyfseðilsskyldum lyfjum. Sagði hann þetta eitt af helstu forgangsverkefnum sínum. Lyfjaverðið mundi lækka.

Forsetinn lagði mikla áherslu á nauðsyn þess að ráðast í nýsmíði og viðhald mannvirkja. Bandaríkjamenn hefðu reist Empire State bygginguna í New York á aðeins einu ári en nú gæti það tekið allt að 10 ár að fá leyfi til að leggja einfaldan veg. Hvort þetta væri ekki til skammar? Hann hvatti til þess að á þingi sameinuðust flokkarnir um aðgerðir og fjárveitingar til að efla og bæta mannvirki í landinu. Þá yrði að endurskoða leyfakerfið vegna mannvirkjagerðar og afgreiðsla mála þar tæki ekki lengri tíma en tvö ár, kannski ekki nema eitt.

Ræðan var vissulega að verulegu leyti um efni sem sameinar Bandaríkjamenn. Trump getur fagnað árangri á mörgum sviðum en kannanir sýna að aðeins 37% þjóðarinnar styður hann. Tekst honum að bæta stöðu sína með stefnuræðunni eða veldur hann fljótlega uppnámi að nýju með því að tala án þess að hafa lesvélina.