17.8.2023 11:49

Trump gegn réttvísinni

Ýmsir bandarískir lögmenn hafa lýst þeirri skoðun að talaði einhver almennur borgari um saksóknara eins og Trump væri hann á bak við lás og slá.

Frá því að Donald Trump hóf virka stjórnmálaþátttöku fyrir átta árum hefur hann þrýst verulega á bandaríska stjórnkerfið og ýmsar grunnstoðir þess. Nú þegar hann býður sig fram í þriðja skipti sem forseti berst hann hatrammlega gegn réttarkerfinu, alríkislögreglunni, ákærendum og dómurum. Þetta gerir hann vegna fjögurra ákæra í 91 lið sem honum hafa verið birtar.

Eitt málanna er um skjalafals vegna klámstjörnu sem segir Trump hafa greitt sér þöggunarfé um samband þeirra. Hin þrjú snerta störf hans sem forseta: meðferð opinberra trúnaðarskjala; tilraun til að ógilda kosningaúrslit og tilraun til kosningasvindls.

RDonald Trump

Að kvöldi mánudagsins 14. ágúst birti Fani Willis, saksóknari í Fulton-sýslu í Georgíuríki í Bandaríkjunum, fjórðu ákæruna sem var reist á ákvæði með vísan til glæpahópa á borð við mafíuna. Trump og samverkamenn hans eru ákærðir fyrir brot gegn embættisskyldum, svikráð, framlagningu falsaðra skjala og fleira.

Strax við birtingu drógu fréttaskýrendur athygli að því að ákæran væri gefin út með vísan til lagaákvæða sem giltu í Georgíuríki, hún væri ekki reist á alríkislögum. Þetta leiddi til þess að yrði Trump kjörinn forseti gæti hann ekki fellt ákæruna úr gildi eða veitt sjálfum sér sakaruppgjöf.

Á þessa staðreynd þótti ástæða til að benda því að rætt er um ákvarðanir í þessa veru sem raunhæft embættisverk Trumps nái hann kjöri sem forseti í nóvember 2024. Hann gefi einfaldlega fyrirmæli um að öllum málaferlum gegn sér skuli hætt og hann verði hreinsaður af öllu sem talið sé saknæmt.

Donald Trump sagði í kvöldverðarræðu yfir repúblíkönum í Alabamaríki, skömmu eftir að hann hafði í byrjun ágúst verið ákærður í þriðja sinn: „Vinsældir mínar vaxa í hvert skipti sem þeir ákæra mig. Þeir þurfa bara að ákæra mig einu sinni enn til að tryggja að ég nái kjöri.“

Þótt ótrúlegt sé hefur enginn efast til þessa um að Donald Trump sigri alla andstæðinga sína í prófkjörum repúblíkana. Sagðar eru verulegar líkur á að hann ýti síðan Joe Biden út úr Hvíta húsinu.

Að einhver annar en Donald Trump sæktist áfram eftir forsetaembættinu með fjórar ákærur í 91 lið á bakinu er óhugsandi. Það sem öðrum þykir fráleitt lítur Donald Trump á sem óskastöðu fyrir sig, að minnsta kosti þegar litið er til prófkjaranna.

Stór hluti repúblíkana (80% í byrjun ágúst) og stuðningsmanna Trumps utan Bandaríkjanna trúir því í einlægni að forsetaframbjóðandinn sæti ofsóknum pólitískra andstæðinga. Þeir hafi svo öflug tök á bandaríska réttarkerfinu að þeir geti beitt því í flokkspólitískum tilgangi í þágu demókrata.

Það er til marks um framboðs- og kosningakænsku Trumps að þrátt fyrir allt sjálfsdekrið tekst honum að koma fram fyrir kjósendur sem fórnarlamb – eða kannski einmitt vegna þess. Allt sem honum er öndvert telur hann gert af annarlegum hvötum.

Ýmsir bandarískir lögmenn hafa lýst þeirri skoðun að talaði einhver almennur borgari um saksóknara eins og Trump væri hann á bak við lás og slá.