6.10.2021 9:17

Tíu milljarða lygi í ráðhúsinu

Dóra Björt Guðjónsdóttir hefur áður orðið sér til skammar vegna ómerkilegs málflutnings í ræðu og riti.

Reynslan kennir að á fáum sviðum skiptir meira máli fyrir opinbera aðila að úthýsa verkefnum en þegar tekist er á við starfræn úrlausnarefni.

Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur telur sig ekki þurfa að taka mið af reynslu annarra í þessu efni eins og sannaðist í borgarstjórn þriðjudaginn 5. október þegar hann felldi tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að bjóða út alla verkþætti á fyrirhugaðri uppbyggingu borgarinnar á stafrænum innviðum.

Hér er um að ræða verkefni sem talið er að kosti útsvarsgreiðendur um 10 milljarða króna miðað við áætlanagerð á vegum meirihlutans. Hún hefur þó oftar en einu sinni því miður reynst alröng á kjörtímabilinu. Er Nauthólsvíkurbragginn skýrasta minnismerkið um það.

Eitt er að meirihlutinn stígi stórt skref til vinstri við ákvarðanir sínar um stafræna framtíð stjórnsýslu borgarinnar annað eru aðferðirnar sem beitt er í þágu málstaðarins.

1-uM9JWR9oeE1jq6QkU_dk9gÍ Morgunblaðinu í dag (6. október) segir frá því að Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins (SI), mótmæli harðlega fullyrðingu Dóru Bjartar Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Pírata, um að fulltrúar borgarinnar hafi fundað með fulltrúum SI um þessa 10 milljarða stafrænu umbreytingu borgarinnar.

Í ræðu á borgarstjórnarfundi sagði Dóra Björt að efnt hefði verið til fundar með SI til að útskýra „misskilning um frétt sem birtist í Morgunblaðinu“. Eftir fundinn væri fólk „mun sáttara“ við stefnu borgarinnar í þessu máli „og skildi betur hvernig stæði á þessu öllu saman“.

Sigurður Hannesson segir við Morgunblaðið að þetta sé bláköld lygi hjá Dóru Björt. Orðrétt er þetta haft eftir honum í blaðinu:

„Fyrsta lygin er sú að fundur hafi átt sér stað. Í öðru lagi er logið til um efni slíks fundar og í þriðja lagi er logið til um niðurstöðu á slíkum fundi. Í því samhengi er áhugavert að hugsa til þess að fyrir viku eða tveimur óskuðum við sérstaklega eftir fundi með borgarstjóra til að ræða þessi mál. Hann hefur ekki séð sér fært að ræða við okkur um þetta mál sem snýst um 10 milljarða króna útgjöld á næstu þremur árum.“

Dóra Björt Guðjónsdóttir hefur áður orðið sér til skammar vegna ómerkilegs málflutnings í ræðu og riti. Hún hefur veist að einstaklingum og vakið máls á að „lykla“ megi bíla. Þar hefur hún fylgt fram andstöðu Pírata og borgarstjórnarmeirihlutans við einkabílinn. Þegar kemur að þessari 10 milljarða króna fjárfestingu gengur hún síðan svo langt að fara með hrein ósannindi í ræðustól í ráðhúsinu.

Píratar hafa gefið sig út fyrir að vinna gegn spillingu og vilja stafrænar lausnir í krafti upplýsingatækninnar. Málflutningur Dóru Bjartar sýnir hve þessi stefna Pírata ristir grunnt. Hvaða hagsmuni er píratinn í borgarstjórn að verja með lygi sinni?

Viðreisn, VG og Samfylking elta píratann í þessu máli eins og öðrum. Það er lyginni líkast að fylgjast með þeirri vegferð allri.