2.2.2021 10:31

Tilraun til bættra þingstarfa

Nú vinnur skrifstofa alþingis að umbótum á starfsháttum í tengslum við innleiðingu á styttingu vinnuvikunnar sem samið hefur verið um á vinnumarkaði.

Nýkjörnir þingmenn undrast gjarnan tímasóunina sem einkennir þingstörfin. Þeim sem annt er um tíma sinn og vill skipuleggja hann sem best kemur þessi gagnrýni ekki á óvart. Það er ekki náttúrulögmál að skipulagi þingstarfa sé þannig háttað. Þeim mun fjölmennari sem þing eru því ríkari kröfur eru um að þar sé skipulag í eins föstum skorðum og frekast er unnt, fundir hefjist á réttum tíma, reglur um ræðutíma séu virtar og gengið til atkvæða á boðuðum tíma.

Fyrir tæpum þrjátíu árum sat ég á þingi Evrópuráðsins með breskum lávarði, Lord Finsberg. Við vorum jafnan sestir tímanlega við fundarborð. Ég spurði lávarðinn einu sinni um stundvísi hans. Hann sat í stjórn borgarhluta í London, í minnihluta, og neyddist til að taka lest til fundar seinna en hann vildi og varð þess vegna tveimur mínútum of seinn á fundarstað. Þetta nýtti meirihlutinn sér, lauk afgreiðslu umdeilds máls og sleit fundi áður en hann kom. Þetta skyldi aldrei gerast aftur. Þegar Lord Finsberg stjórnaði fundum Evrópuráðsþingsins datt engum í hug að sýna tímamörkum óvirðingu. Allir hans fundir hófust stundvíslega og lauk án óþarfa málalenginga.

Althingi4jpgFundir alþingis hefjast ávallt stundvíslega á boðuðum tíma en þeir geta dregist von úr viti, oftast af ástæðulausu sé litið til gæða miðað við ræðufjölda.

Nú vinnur skrifstofa alþingis að umbótum á starfsháttum í tengslum við innleiðingu á styttingu vinnuvikunnar sem samið hefur verið um á vinnumarkaði, segir í tilkynningu á vefsíðu þingsins. Hafa þingforseti og formenn þingflokka orðið sammála um að gera tilraun með breytta skipun þingvikunnar fram að páskum. Kjarni þeirra breytinga er eftirfarandi:

Þingfundir verða ekki á mánudögum. Þann dag verða nefndarfundir (kl. 9–11, 15–17) og þingflokksfundir (kl. 13).

Þingfundir, sem verða á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum, hefjast fyrr en áður eða kl. 13 í þeirri von að slíkt stuðli að því að ljúka megi þingfundum fyrr.

Engir fundir verða í fastanefndum á miðvikudögum, en skapað svigrúm um morguninn (kl. 9–10:15) fyrir þinghópa sem hittast af og til, svo sem alþjóðanefndir. Þá verða þingflokksfundir þann dag frá 10:30 til 12.

Þingfundir eða nefndarfundir verða ekki á föstudögum á þessu tilraunatímabili nema samkvæmt því sem er að finna í starfsáætlun (þrjú tilvik).

Það er undir þingmönnum komið hvort þessi tveggja mánaða tilraun heppnast. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eru fögur orð og hástemmd um nauðsyn þess að auka virðingu alþingis. Í því felst meðal annars að vinnubrögð þingmanna taki á sig nútímalega mynd. Stytting vinnuvikunnar er hluti nútímavæðingarinnar. Hvað sem líður góðum vilja skrifsofu alþingis nær hann ekki fram nema þingmenn samþykki. Þeir afsala sér ekki réttinum til málfrelsis og málþófs en innantóma og tilgangslausa málþófsmetið vegna þriðja orkupakkans ætti að verða víti til varnaðar.

Athyglisvert er að gert er ráð fyrir þingflokksfundum að morgni miðvikudaga. Þetta var áratugum saman tíminn sem ráðherrar höfðu opna viðtalstíma í ráðuneytum. Hvenær varð sú venja varð að engu? Er það skráð einhvers staðar?